24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (3050)

366. mál, neyslu- og manneldisstefna

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð um þessa ágætu till. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm., frsm. fyrir þessari till., ágæta ræðu hér og flutning á þessu nauðsynlega máli. Ég held að hér sé hreyft því sem við hv, þm. hugsum ekki allt of oft um, þ.e. hollustuvernd og manneldisstefnu.

Eins og fram kom í máli hv. flm. er það sú láglaunastefna sem ríkt hefur undanfarin ár sem hefur leitt til þess að mæður og feður þurfa bæði að vinna utan heimilis til að afla nægilegs fjár til þess að fjölskyldan komist af og því verður að huga að samfelldum skóladegi. Ýmsar upplýsingar hafa nú á undanförnum vikum komið fram um það „sjoppufæði“ sem börn og unglingar lifa á í dag og okkur er eflaust öllum vel kunnugt um, a.m.k. okkur sem eigum börn og erum ekki heima í hádeginu til þess að hugsa um þau eða gefa þeim að borða, þannig að ég legg áherslu á að hér verði komið á samfelldum skóladegi. Einnig eru þær upplýsingar sem fram koma í grg. varðandi sykurneyslu og verð á sykri hér og annars staðar mjög fræðandi, svo ekki sé meira sagt. Mætti líta til þess að minnka álögur t.d. á tannburstum en hækka sykurverðið ef verið er að hugsa um tannvernd sem markmið, en vissulega hefur hæstv. heilbr.- og trmrh. tekist á við það nú að undanförnu.

En fræðslan ein sér er ekki nóg. Það þarf líka að stýra þessum hlutum með verðlagningu. Á meðan tollur á sykri er enginn er tollur á tannburstum 50% . Vörugjald á tannburstum er 24% á meðan ekki neitt vörugjald er á sykri. Söluskattur er 27,5% á tannburstum og afgreiðslugjald 1%. Sama má segja um tannkrem nema hvað það er ekki tollað. En eins og áður sagði eru engin álögð gjöld á sykri. Þetta er atriði sem stjórnvöld gætu tekist á við á morgun þess vegna og þyrfti ekki einu sinni að samþykkja þessa till. til þess að slíkt gæti komist í framkvæmd. En ég held að hér hafi verið hreyft mjög merku máli og vona að þessi till. fái greiðan aðgang í gegnum þingið