24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3379 í B-deild Alþingistíðinda. (3053)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég svaraði hér á dögunum í stuttu máli ýmsum atriðum sem fram höfðu komið við umræðurnar en átti eftir örfá niðurlagsorð ræðu minnar.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að því sem hv. 2. landsk. þm. sagði og hafði eftir Stefáni Ingólfssyni, sem starfaði hjá Fasteignamatinu, eða starfaði hjá Fasteignamati ríkisins, svo ég hafi nú þennan titil rétt eftir. Hv. þm. hefur eftir honum að fyrir hvert 1% sem raunvextir af fasteignaveðlánum hækki, þá minnki kaupgeta fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð sem svarar einu herbergi í íbúð. Og þm. segir frá sjálfum sér nokkru áður:

„Benda má á að frá árinu 1980 til 1986 hafi raunvextir á fasteignaveðlánum hækkað um a.m.k. 3,5%. Þessi hækkun á raunvöxtum jafngildir 47% minnkun kaupmáttar. Kannske er hér komin meginskýring þess hvers vegna fólk stendur ekki undir greiðslubyrði lána, að það megi rekja beint til hárra raunvaxta og kjaraskerðingar.“

Nú væri auðvitað nauðsynlegt að fá fyllri upplýsingar um það hjá hv. þm. hvernig hann finnur það út í fyrsta lagi að raunvextir á fasteignaveðlánum hafi hækkað um a.m.k. 3,5% og í öðru lagi hvernig hann fær það út að þetta jafngildi 47% minnkun kaupmáttar.

Það vill svo til að „ágrip úr þjóðarbúskapnum“ frá Þjóðhagsstofnun er nýkomið út og staðfestir raunar það sem efsti maður á lista Alþfl. hér í Reykjavík hafði sagt um kjaramálin meðan hann var forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar, en í þessu ágripi segir svo m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Atvinnutekjur hækkuðu að meðaltali um nálægt 35% á mann á milli áranna 1985 og 1986. Kaupmáttur tekna heimilanna er talinn hafa verið rúmlega 11% hærri árið 1986 en árið 1985, eða hærri en nokkru sinni fyrr. Kaupmáttur ráðstöfunartekna jókst einnig mjög mikið á síðasta ári, en þó minna en kaupmáttur atvinnutekna vegna þyngri skattbyrði. Miðað við að samningsbundnar launabreytingar á þessu ári verði þær sömu og fólust í desembersamningunum er nú spáð 22-23% hækkun atvinnutekna á mann að meðaltali á þessu ári. Kaupmáttur tekna heimilanna gæti þá enn aukist um nálægt 7% á mann að meðaltali milli áranna 1986 og 1987. Þessi kaupmáttaraukning er þegar komin fram hjá þeim launþegum sem hafa lokið samningum. Því er gert ráð fyrir því að launa- og verðlagsþróun haldist að mestu í hendur það sem eftir er ársins.“

Það þarf ekki að lesa lengra til þess að menn átti sig á að það hljóta að hafa verið mismæli hjá hv. þm. þegar hann talaði um að kjaraskerðing hefði orðið á hinn bóginn liggur það fyrir, og eins og ég sagði í grein í Morgunblaðinu um daginn, að þá hlytu að koma til athugunar á nýjan leik greiðsluerfiðleikar þeirra sem keyptu íbúðir eftir gamla kerfinu. Um það erum við sammála og úr því verður að fé verður veitt til þess.

Ég hlýt að svara með nokkrum orðum ræðu hv. 8. þm. Reykv., Stefáns Benediktssonar. Hann segir svo í sinni ræðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað sem menn vilja halda um þær fullyrðingar sem fram eru komnar um stöðu þessara mála í dag má minna á það að hv. 2. þm. Norðurl. e. skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 14. febr. þar sem hann tekur undir mál Jóhönnu Sigurðardóttur að mjög miklu leyti og virðast nokkuð stangast á viðhorf ráðherrans og þess manns sem þar ritar. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hinn 10. febr. s.l. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur alþm. undir þessari myndarlegu fyrirsögn: „Húsnæðiskerfið riðar til falls.“ Of langt mál yrði að rekja einstök efnisatriði. Sum þeirra hafa við rök að styðjast, önnur ekki.“

Hér lýkur tilvitnun þessa hv. þm. og sér hann ekki ástæðu til þess að láta það fylgja sem á eftir kemur. Ég held þess vegna, herra forseti, að ég verði að fá heimild til að ljúka málsgreininni til þess að hugsunin skili sér til fulls. En málsgreinin er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Of langt mál yrði að rekja einstök efnisatriði. Sum þeirra hafa við rök að styðjast, önnur ekki. Sum eru hálfsögð saga, önnur lýsa almennt þeim erfiðleikum sem hljóta ávallt að fylgja þegar tekið er upp nýtt húsnæðislánakerfi vegna ótal óvissuþátta sem því eru samfara, ekki síst eins og nú stendur á, eftir að lán Húsnæðisstofnunar hafa margfaldast og strangari kröfur eru gerðar um úrvinnslu umsókna en áður.“

Ég vil síðan, herra forseti, úr því að verið var að draga þessa grein mína inn í umræðuna lesa örstuttan kafla svohljóðandi:

„Eftirtalin sjónarmið voru lögð til grundvallar hinu nýja húsnæðislánakerfi:

1. Menn skyldu hafa rétt til þess að sækja um lán úr Byggingarsjóði ríkisins áður en þeir hæfu byggingu íbúðar eða skrifuðu undir kaupsamning. Húsnæðisstofnun skyldi síðan svara innan tveggja mánaða hvenær lánið yrði til reiðu. Þetta á að gera viðkomandi kleift að haga framkvæmdum eða kaupum í samræmi við útgreiðslu lánsins. Ljóst er að til lengdar er þetta til mikils hagræðis og sparnaðar fyrir lántakendur.

2. Hámarkslán til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir er rétt um 2,5 millj. kr. og að hámarki 70% af byggingarkostnaði sem svarar til þess að íbúðin sé tilbúin undir tréverk eða svo. Samsvarandi lán til að kaupa notaða íbúð er rúmlega 1,7 millj. kr. og sömuleiðis til þeirra húsbyggjenda sem eiga íbúð fyrir, en þeir fá 1,2 millj. kr. til kaupa á notaðri íbúð. Þessi lán eru til 40 ára og bera 3,5% vexti.

3. Lánin hækka í samræmi við byggingarvísitölu til útborgunardags gagnstætt því sem áður var. Það þýðir að viðkomandi getur tekið bráðabirgðalán í sínum viðskiptabanka og treyst því að húsnæðislánið hækki í samræmi við það. Ef svo hefði verið á liðnum árum hefðu margir þeirra sem lentu í greiðsluerfiðleikum sloppið við þá ömurlegu reynslu.

4. Húsnæðisnefndin, sem skipuð var fulltrúum allra þingflokka, var sammála um að það öryggi sem fælist í því sem ég hef nú lýst væri grundvallaratriði. Ef ónógu fé væri veitt til húsnæðislánakerfisins ætti að mæta því með því að biðtími eftir lánum lengdist fremur en að draga úr lánveitingum til hvers einstaks eða láta lántakendur standa í sömu óvissunni og áður um það hver lánsfyrirgreiðslan raunverulega væri eða hvenær hún yrði látin í té.“

Svo mörg voru þau orð. Þessi síðasta málsgrein vísar til álits húsnæðisnefndarinnar og ég hygg að það hafi komið á ofanverðu ári 1985, það álit sem leggur áherslu á þetta síðasta efnisatriði sem ég vitnaði hér til.

Ég vil líka að það komi fram að í viðtali sem Morgunblaðið átti við Sigurð E. Guðmundsson, framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar ríkisins, og ég geri ráð fyrir því að það sé eins um þann embættismann og þann embættismann sem áður var forstöðumaður Þjóðhagsstofnunar að Alþfl. hafi ekki ástæðu til að telja að þessi embættismaður dragi sérstaklega taum íhaldsins eða Framsfl., en í Morgunblaðinu 19. febr. er sem sagt viðtal við framkvæmdastjóra Húsnæðisstofnunar og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sigurður kvaðst vilja í leiðinni leiðrétta misskilning sem upp hefði komið um óeðlilega langan biðtíma eftir húsnæðislánum. Sagði hann að nýju reglurnar væru mjög skýrar og í stuttu máli þær að þeir sem væru að kaupa í fyrsta skipti nytu forgangsafgreiðslu. Að undanförnu hefðu liðið um sex mánuðir eftir að umsókn var lögð inn og þar til fyrri hluti lánsins var greiddur út.“

Síðan kemur orðrétt eftir framkvæmdastjóranum, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég lít svo á að biðtíminn svokallaði sé nú úr sögunni. Með gamla lánakerfinu var það siður í landinu að fólk gerði fyrst íbúðarkaup og skuldbatt sig til að greiða svo og svo stórar fjárhæðir sem áttu m.a. að koma í formi húsnæðislána. Oft kom fyrir að þessar greiðslur féllu ekki saman og fólk lenti í vandræðum. Samkvæmt nýja lánakerfinu eiga menn að leggja inn umsóknir og bíða eftir því að fá skuldbindandi lánsloforð áður en þeir gera nokkuð annað í íbúðarkaupum. Þannig geta menn gert skuldbindingar á öruggum grundvelli með hliðsjón af afgreiðslu lánanna," sagði Sigurður Guðmundsson.

Ég tel nauðsynlegt að þessi sjónarmið komi fram til þess að skýra fyrir þeim sem ekki hafa áttað sig á því á hvaða grunni hið nýja húsnæðislánakerfi byggir.

En til þess að koma nokkuð til móts við hv. þm. Stefán Benediktsson sem hefur verið fljótur í læri í sínum nýja flokki, þá skal ég einnig taka hér annan kafla úr grein minni þar sem ég vík sérstaklega að óskalausn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Jóhanna Sigurðardóttir segir: „Kaupleiguíbúðir sem Alþfl. hefur ítarlega kynnt á undanförnum mánuðum er tvímælalaust hagstæðasti kosturinn í húsnæðismálum í dag.“ Hann er sá að Húsnæðisstofnun eigi að leggja fram 80-85% byggingarkostnaðar en viðkomandi sveitarfélag það sem upp á vantar og á framlag sveitarfélagsins að vera vaxta- og afborgunarlaust svo lengi sem viðkomandi sýnist að láta íbúðina heita leiguíbúð, en vera lánuð til 30 ára ef til þess kæmi að viðkomandi lýsti því einhliða yfir að hann vildi kaupa hana og tæki hann þá við húsnæðislánunum eins og þau stæðu á þeim tíma. Þetta er auðvitað notalegur kostur fyrir þann örlitla minni hluta sem hans fengi að njóta. En hinir, sem yrðu að spjara sig á eigin spýtur, yrðu að borga brúsann með hærri sköttum til ríkisins og þó sérstaklega til sveitarfélagsins. Tilboð af þessu tagi er órafjarri þeim jöfnuði sem Alþýðuflokksmenn vilja leggja í orðið „jafnaðarmaður“ þegar þeim sýnist að tala svo.“

Ég verð að segja eins og er ef það er mat hv. þm. Stefáns Benediktssonar að þessi orð, sem ég hef nú vitnað í, séu mjög í anda Alþfl. og hann skilji það sama skilningi og ég, að tilboð Alþfl. í húsnæðismálum komi í veg fyrir almennar úrbætur í húsnæðismálum af þeirri einföldu ástæðu að ef við gerum mun betur eða helmingi betur til sumra, þá hlýtur að draga úr því sem kemur í annarra hlut þegar fjármagn er takmarkað. Þetta skiljum við öll og gerum okkur grein fyrir.

Ég vil enn minna á það að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði í sinni ræðu sérstaklega að umtalsefni að til athugunar væri að ef menn keyptu notaðar íbúðir á frjálsum markaði þá skyldi miðað við það að útborgun yrði ekki hærri en 50%. Seljandi yrði þá að lána kaupanda 50%, eins og ég skil hv. þm., sem auðvitað mundi þýða það gagnvart venjulegum íbúðum að hjá öllum almenningi yrði dregið úr þeirri fyrirgreiðslu sem nú er látin í té varðandi þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð. En þetta hlutfall svarar nokkurn veginn til þeirrar hámarksfjárhæðar sem aðrir geta notið.

Ég sé, herra forseti, ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Það er auðvitað notalegt, ekki síst rétt fyrir kosningar, að hafa uppi mörg orð um það að menn vilji gefa og gefa, að menn þykist hafa nóga sjóði að ausa úr. Það er auðvitað það auðveldasta af öllu auðveldu. Ég hef á hinn bóginn fundið það á mörgum, og raunar öllum sein ég hef við talað, að það verkar ósannfærandi, svo ekki sé meira sagt, þegar heill stjórnmálaflokkur lýsir því yfir að hann vilji láta öllum í té það sem kallað er kaupleiguíbúð. Ég tók eftir því í þeirri húsnæðisnefnd sem ég sat, þá spurði ég sérstaklega um eitt atriði og það var hvort nefndarmenn væru sammála um það að á næstunni væri ekki við því að búast að gerðar yrðu grundvallarbreytingar á þeim reglum sem vörðuðu Byggingarsjóð ríkisins og vorum við allir sammála um það að að svo stöddu kæmi slíkt ekki til greina.

Í því felst að sjálfsögðu sú afstaða fulltrúa Alþfl. í nefndinni að til kaupleiguíbúðanna eigi að lána á þeim kjörum sem lánað er úr Byggingarsjóði verkamanna eða með 1% vöxtum í staðinn fyrir 3,5% og væri fróðlegt að reyna að tengja þá hugsun hinu, sem fram hefur komið hjá þeim Alþýðuflokksmönnum þegar þeir tala um framtíð byggingarsjóðanna, hvernig þeir hyggist tryggja nægilegt fjármagn í húsnæðislánakerfið, miðað við það að svo sem allir fái lán sem svarar til alls íbúðarverðsins, hvort sem það er byggt eða keypt. Það eigi að lána til 40 ára með 1% vöxtum. Það væri fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það. Nema þetta sé misskilningur, en þá hlýtur líka skýringin að vera sú, samkvæmt þeim plöggum sem Alþfl. hefur lagt fram, að þeir menn sem fara í þessar óskaíbúðir Alþfl. eigi að fá 80% lán úr Byggingarsjóði ríkisins til viðbótar 20% framlagi frá sveitarfélaginu, en aðrir eigi að sætta sig við 70%. Þetta er nú sanngirnin á þeim bæ.

Ég vil mjög þakka, herra forseti, fyrir það hversu miklum tíma er varið einmitt til húsnæðismálanna. Ég held að það væri mjög nauðsynlegt að við ræddum þessi mál alveg ofan í kjölinn, það kæmi fram frá Alþfl. frá orði til orðs hvað þeir meina með kaupleiguíbúðunum. Hvað ætlast þeir t.d. til að margir fái þessar kaupleiguíbúðir sínar eftir að þeir komast að t.d. á næsta ári? Hvað eiga margir að njóta þessa? Eiga allir að fá þetta eða bara sumir? Og hvernig stendur á því að Alþfl. hefur fallið frá því sem forverarnir gerðu, að leggja áherslu á það að verkalýðshreyfingin kæmi inn í hið félagslega íbúðakerfi? Nú erum við að tala um að þetta fé, sem ráðstafa á, komi frá lífeyrissjóðunum, komi frá verkalýðshreyfingunni sjálfri óbeint og aðilum vinnumarkaðarins. En hvernig stendur þá á því að Alþfl. getur ekki hugsað sér að verkamannabústaðakerfið megi standa áfram?

Svo er ein spurning enn: Segjum svo að maður búi í svokallaðri kaupleiguíbúð í 20 ár. Hvernig á þá að reikna framlag sveitarfélagsins þegar hann segist vilja breyta þessu í eignaríbúð? Það má vera að ég hafi misskilið þegar ég sagði áðan að framlag sveitarfélagsins, 15 eða 20% eftir atvikum og eftir því hvenær talað var, eigi að vera vaxtalaust. Þá vil ég líka að það komi fram. Ég hygg að það eigi að vera með verðbótum en vaxtalaust. Er þetta ekki rétt? Eða er hugmyndin sú að þá, á þeirri stundu eigi að reikna á þessi 15% einhverja vexti og þá hve mikla? Og á þá að reikna vaxtavexti? Hvað hugsar Alþfl. sér að sveitarfélagið hafi háa vexti á þessum 15% sem á að lána til 30 ára? (Gripið fram í: 3,5%.) 3,5%. Það er bara heilt herbergi í íbúðinni, segir varaformaður Alþfl. Það á m.ö.o. bara að taka eitt herbergi af viðkomandi. 3,5% vextir af fasteignalánum, það er heilt herbergi. Það er hvorki meira né minna. En eiga að vera 3,5% vextir líka tímann sem íbúðin heitir kaupleiguíbúð eða á það að vera vaxtalaust? (Gripið fram í: Við getum talað um það.) Já, við skulum tala um það. Við skulum reyna að fá þetta alveg ofan í kjölinn.

Þá væri líka fróðlegt að fá að vita, af því að Alþfl. talar svo mikið um tölur og spyr svo mikið um tölur: Hvað ætlast Alþfl. til að mikið fjármagn komi í kaupleiguíbúðirnar t.d. á næsta ári? Og hvaðan á að taka það? Nú liggur fyrir hver er stefna aðila vinnumarkaðarins. Mér er ekki kunnugt um að þeir hafi tekið undir þessar hugmyndir. Nú væri gaman að fá að vita hversu mörgum milljörðum eigi að verja í þetta kerfi frá byggingarsjóðunum.

Og líka annað: Ætlar Alþfl. að beita sér fyrir því að sveitarfélögin fái eitthvert sérstakt framlag til þess að standa undir 15%, eða var það rétt eins og ég lýsti því, að það ætti að standa undir þessu bara með almennum sköttum? Það væri líka fróðlegt að fá að vita það. Það er ekkert lítið að sveitarfélög standi með óhreyft fjármagn upp á 15% af hverri íbúð, vaxtalaust. Hvað ætli þeir kratarnir í Hafnarfirði séu reiðubúnir að láta mikið þannig vaxtalaust í íbúðir? Ef þeir ætla sér nú að ná endurkjöri, hvað ætli þeir treysti sér þá til að láta 15% standa óhreyft vaxtalaust í mörgum íbúðum? Hver ætli áætlun Alþfl. í Hafnarfirði sé varðandi það? Alþfl. gæti nú kannske byrjað smátt. Við skulum segja að úr húsnæðislánakerfinu sé lánað 70%. Getur þá ekki Alþfl. látið 20% óhreyft í íbúðina og látið viðkomandi borga 10%? Það væri í áttina. Það væri fróðlegt að fá að vita hvað Alþfl. þar hugsar sér mikið af þessu tagi af vaxtalausu fé, þar og annars staðar þar sem hann er við lýði.

Ég held, herra forseti, að ég hafi út af fyrir sig ekki meira um þessi mál að segja. Ég vil aðeins ítreka að síðustu að það er auðvitað hægt að hugsa sér það að dæla í húsnæðismálin eins miklu fé og nokkur leið er að koma út, svara öllum umsóknum sem inn koma jafnóðum og segja að menn geti fengið lánin undir eins, sem mér skilst að sé skoðun varaformanns Alþfl., en ég vil þó ítreka það sem ég sagði í minni ræðu síðast: Það mundi að sjálfsögðu valda mikilli þenslu á vinnumarkaði í bili. Það mundi auðvitað draga mjög fólk til Reykjavíkursvæðisins, við gerum okkur grein fyrir því. Sú mikla þensla sem hér yrði yrði auðvitað verðbólguhvetjandi og við vitum að slík spenna á íbúðamarkaðinum gæti ekki haldist til langframa þannig að það hlyti að hefna sín í því að til mjög mikils atvinnubrests kæmi í atvinnugreinum byggingariðnaðarmanna. Þetta er sú framtíðarsýn sem við blasir ef farið yrði að stefnu Alþfl. í þessum málum.