24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3484 í B-deild Alþingistíðinda. (3069)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Ég sé mig knúinn til að leiðrétta það fyrir hönd okkar 7. þm. Reykv., Guðmundar J. Guðmundssonar, að okkur sé ekki kunnugt um þær starfsreglur Húsnæðisstofnunar að meta lánsumsóknir út frá því hvort viðkomandi hafi bolmagn til þess að standa undir þeirri fjárfestingu sem kaup á íbúðarhúsnæði felur í sér. Okkur er báðum kunnugt um að synjanir á þeim forsendum eiga sér stað og slíkum synjunum ætla ég að vísa til ráðgjafarþjónustunnar. Um það var rætt allan tímann sem þessi löggjöf var í undirbúningi og þetta hefur margkomið fram í þeirri nefnd sem við hv. þm. Magnús H. Magnússon áttum sæti í. Ég vil einnig leiðrétta aftur að í prentuðu þskj. segir að 1. júlí 1979 hafi verðtrygging lána að fullu, miðað við byggingarvísitölu, verið tekin upp. Það stendur hér í prentuðu þskj. og skal ég ekki segja um það hvort þskj. fer rangt með eða hv. þm. en það stendur hér og ekki er ágreiningur um hitt heldur að vaxtalækkunin 1979 hafi veikt stöðu Byggingarsjóðs og skapað neikvæðan vaxtamun á ný.