24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3489 í B-deild Alþingistíðinda. (3073)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræðurnar, ég vil bara segja það hér og nú eftir allar þær upplýsingar sem fram hafa komið við umræðurnar að mér finnst það í hæsta máta óeðlilegt hvernig menn tala um þessi mál með tilliti til þess að formaður laganefndarinnar sem samdi þetta frv. og hans nefndarmenn höfðu þessar upplýsingar og það er bókstaflega verið að setja fram vantraust á að þeir hafi vitað hvað þeir voru að fjalla um með svona athugasemdum sem hv. þm. Alþfl. eru að bera hér á borð.

Ég er alveg sannfærður um það að Hallgrímur Snorrason getur staðið frammi fyrir þessum mönnum og gert grein fyrir þeim upplýsingum sem hann notaði og aðilar vinnumarkaðarins við samningu þessa lagafrv. Þeir þurftu ekki leiðsögn þessara hv. þm. sem hafa verið með svona ómerkilegar tilvitnanir hér á Alþingi í kvöld.