25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3490 í B-deild Alþingistíðinda. (3076)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Því miður var ég ekki við 2. umr. þessa máls þar sem mér var ekki kunnugt um framhaldsfund, en það er víst við mig eina að sakast. Ég hafði farið af fundi rétt fyrir fjögur og mér höfðu ekki borist neinar fregnir um, þrátt fyrir að ég sat hér úti á skrifstofu, að fundur væri í Ed. En þetta getur skeð á annatíma, eins og kemur yfirleitt upp á þingi þegar stutt er til þingslita.

Eins og fram kom hjá hv. formanni sjútvn., frsm. á nál., komu margir til viðræðna um þetta mál og voru allir sammála um að það væri rétt að gera þessa tilraun þrátt fyrir að sumir vildu opna möguleika fyrir fjarskiptamarkaði og leggja áherslu á að okkar skilningur er sá að slíkt eigi að verða hægt, hvort sem ákvæði verður um það í reglugerð eða ekki, en við sáum að ekkert kæmi í veg fyrir það í þessu frv. að svo gæti orðið. Þegar við búum í strjálbýlu landi eins og raun ber vitni segir sig sjálft að fáeinir markaðir geta ekki þjónað öllu landinu. Það mundi jafnvel henta okkur betur að hafa meiri hlutann í gegnum fjarskiptamarkaði sem væru tengdir með tölvukerfum og þar væru upplýsingar um þann afla sem í boði væri og þyrfti ekki að skipa honum upp og keyra hann inn í hús til að bjóða hann upp. Fjarskiptamarkaðir tíðkast erlendis og sumir viðmælendur í nefndinni töldu þessa leið sem við værum að velja hér nokkuð gamaldags.

Það kom upp í umræðu líka að sums staðar erlendis væri skilyrt að allur fiskur færi inn á markað, en það er eins og hv. deildarmönnum er eflaust kunnugt algerlega ófært hér á landi. Það er vissulega eitt atriði í þessu frv. sem ég er ekki alls kostar sátt við. Það er vald sjútvrh. Ég tel, eins og málum er komið í sjávarútvegi, að það sé of mikið vald hjá ráðherranum og engin ástæða til að bæta þar á. Þar sem við erum hér að gera tilraun, eins og margoft hefur komið fram, hef ég ekki gert neina brtt. við 1. gr., en undirstrika að ég tel ekki nauðsyn að það sé sjútvrh. sem veiti atvinnuleyfi. Ég tel að það þyrfti að vera meira frelsi í þessum leyfisveitingum en svo að það þurfi að sækja til pólitísks valds til að veita slík leyfi.

Eins og ég hef oft rætt um hér í deildinni er ég fylgjandi því að komið verði á frjálsu fiskverði. Þetta er einmitt eitt stærsta skrefið í þá átt. Þrátt fyrir að sumir hv. þm. í þessari deild, reyndar er sá þm. ekki viðstaddur, séu svolítið, hann sérstaklega, viðkvæmir fyrir því að tala um frjálst fiskverð höfum við ekkert betra orð yfir að mínu mati frjálst fiskverð en orðið „frelsi“. (BD: Það er farið á bak við þig.) Já, fyrirgefðu hv. þm. Þú situr í skrifarastól, hv. þm. Björn Dagbjartsson. Ég var að beina orðum mínum til þín vegna þinna ummæla varðandi frjálst fiskverð. Ég skil að sumu leyti hræðslu við þetta orð hjá hv. þm. Þar sem hann talaði mjög gegn slíku fyrir aðeins tveimur árum er erfitt að kokgleypa það í einum bita og segja í dag að þetta sé það eina rétta. Þá verður að finna upp nýtt orð á frjálst fiskverð, sem sagt umsamið fiskverð.

Hingað til hefur það verið Verðlagsráð sjávarútvegsins með oddamann ríkisins sem hefur ráðið mestu um fiskverð. Eins og kom fram hjá hv. frsm. sjútvn. fylgdu ansi oft ýmsar hliðarráðstafanir í kjölfarið á slíkum samningum, gengisfellingar svo eitthvað sé nefnt. Slíkt er sem betur fer liðin tíð og að mínu mati stigið stórt skref til framfara.

Ég heyrði að hv. þm. Skúli Alexandersson efaðist um að þetta væri liðin tíð. Það er svo sem rétt, við getum aldrei sagt að neitt sé liðin tíð. Það getur svo sem komið upp sú stjórn að hún taki upp slík vinnubrögð sem áttu sér stað ekki alls fyrir löngu. En við skulum vona að svo verði ekki. Við skulum vona að það frv. sem við erum að samþykkja hér komi í veg fyrir að það sé hægt að ráða því með einum oddamanni frá ríkisstjórn hvert fiskverð gildir um landið.

Það er líka eitt annað atriði varðandi samning um fiskverð. Á undanförnum árum hefur það lágmarksfiskverð sem verðlagsráð semur um gilt til hlutaskipta fyrir sjómenn, en útgerðir fengið umbun og yfirborgun sem hefur átt sér stað bæði varðandi veiðarfæri og alls konar fyrirgreiðslu sem ekki hefur komið til skipta hjá sjómönnum. Við skulum vona að það verði einnig liðin tíð þegar fiskverð verður orðið alfarið frjálst og ekki hægt að semja um það á borðum framkvæmdastjóranna hvað raunverulegt fiskverð verður og þar með gengið á hlut sjómanna sem vissulega eiga sinn hlut í þeim afla sem berst á land.

Virðulegi forseti. Ég tel að það þurfi ekki mörg orð um þetta mál í viðbót, en legg áherslu á að ég er bjartsýn um og vonast til að þessi tilraun heppnist. En það verður ekki fyrr en jafnvel að loknum nokkrum árum og eftir að þetta frv. hefur jafnvel verið framlengt að við sjáum hvers konar uppboðsmarkaðir henta hér á landi.