25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3491 í B-deild Alþingistíðinda. (3078)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Björn Dagbjartsson:

Virðulegi forseti. Ég á erfitt að standast það þegar hv. 8. landsk. þm. er að reyna að koma mér til. Sá sem ekki vill þegar fær hann fær kannske ekki þegar hann vill. Ég má til með að gera þessum hv. þm. þetta til geðs.

Ég skil að hv. þm. fékk í arf till. sem ég veit að hann hefur sennilega aldrei skilið, en hún gekk út á að fella niður oddamann Verðlagsráðs sjávarútvegsins, mann sem um langan tíma hafði gegnt því starfi og er nú efsti maður á lista Alþfl. í Reykjavík. Þessi maður var sjálfsagt hvorki betri né verri en aðrir, gegndi þessu starfi að ég held með nokkuð skeleggum hætti. Ég minnist þess m.a. einu sinni að hann var að koma mönnum saman í þessum gerðardómi sem yfirnefnd verðlagsráðs er. Hún er ekkert annað en gerðardómur sem er þekkt fyrirbæri í þjóðfélaginu. Í þessum gerðardómi var oddamaðurinn að reyna að ná samkomulagi um verð á rækju. Hann hætti ekki fyrr en kaupendur höfðu boðið þó nokkru hærra en seljendur fóru fram á og seljendur voru búnir að samþykkja verð sem var lægra en kaupendur höfðu upphaflega boðið. Meðan þetta kerfi er tel ég, og ég tel það enn hvað sem hv. þm. segir um það, að ekki sé nokkur leið önnur en að hafa gerðardóm sem hægt er að vísa málinu til.

Varðandi orðin „frjálst fiskverð“. Mér er svo sem nokkuð sama hvað menn kalla það. En þar sem kaupandinn er einn og á kannske útgerðina líka, hvernig halda menn að frelsið verði þar, jafnvel þó það sé til uppboðsmarkaður í Reykjavík eða Hafnarfirði? Hvernig ætli verði háttað hinu frjálsa fiskverði á Bakkafirði eða Þórshöfn? Jafnvel á Skagaströnd hugsa ég að frjálsa fiskverðið verði svolítið einhlítt. Ég held að það sem menn hefur verið að dreyma um, frjálst fiskverð, verði viðmiðunarverð og síðan verði boðið yfir nákvæmlega eins og gert er í dag. Það breytist ekki að því leyti. Ég ætla ekkert að fara að deila um það við hv. þm. Hv. þm. má kalla það frjálst sem ég kalla samningsbundið. Það er nú einu sinni ekki komið enn þá, og það verður ekki til þó eitthvað komi sem kallast uppboðsmarkaðir í tilraunaskyni.