25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3493 í B-deild Alþingistíðinda. (3080)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Frv. til l. um uppboðsmarkað fyrir sjávarafla er frv. sem menn eru í aðalatriðum sammála um að koma í gegn á þessu þingi og sem allra fyrst. Það er vilji fyrir því að prufa svona uppboðsmarkað, vilji fyrir því að brydda upp á nýjum leiðum.

Í hv. sjútvn. voru málin rædd á breiðum grundvelli og ég ásamt fleirum hafði athugasemdir fram að færa varðandi það vald sem ráðherra er veitt varðandi leyfisveitingu fyrir slíka markaði. Ég tel að það sé óþarfi að veita ráðherra þetta vald. Ekki þarf að sækja um til ráðherra ef menn vilja bjóða upp vefnaðarvöru, matvöru eða eitthvað slíkt ef forsendurnar eru fyrir hendi, þær forsendur sem gerð er grein fyrir í frv. Það eru þær sem eiga að segja til um hvort menn geta sett upp markað en fráleitt er að sækja allt undir ríkið eða ráðherravald. En miðstýringarárátta þeirra sjálfstæðismanna og framsóknarmanna er þvílík að það má ekkert gera í þessu landi öðruvísi en spyrja stóra bróður. Þarna kemur það fram eins og víðar.

Hins vegar segi ég að mér finnst ástæða til að prufa uppboðsmarkað, koma honum á, leyfa mönnum að fást við þetta. Það er greinilegt að ýmsir hafa mikla trú á þessari nýju aðferð við að verðleggja fisk. Við skulum vona að það takist svo myndarlega sem unnt er. Það er hins vegar rétt að óvíst er að svona markaðir komist upp nema hér á Suðvesturlandi til að byrja með, kannske á Eyjafjarðarsvæðinu. En ég á von á að framþróun tækninnar komi því til vegar að menn hverfi frá því að setja allan fisk upp í hús og bjóða hann þar upp heldur verði uppboðsmarkaðurinn í reynd fjarskiptamarkaður sem leysi þetta fyrirkomulag af hólmi.

Það kom fram í nefndinni að þeir sem sömdu þetta frv. leituðu einkum fyrirmyndar í Þýskalandi, Bremerhaven, en það er eini markaðurinn norðan Alpafjalla sem er rekinn með tapi. Það er eini markaðurinn sem ekki gengur vel. En þangað sækja menn sína fyrirmynd og hugsanlegt er að sú fyrirmynd verði til tjóns þegar frá líður. Hins vegar er í Hollandi mjög lífleg starfsemi á fiskmörkuðum og þar er þetta rekið með góðum hagnaði og á eðlilegan hátt.

Ég vona að það frv. sem hér liggur fyrir verði samþykkt, en erfitt er fyrir okkur að dæma um það vegna þess að við höfum ekki sjálfir, sem erum í sjútvn., kynnt okkur rekstur uppboðsmarkaða. En það vakti athygli okkar þegar menn komu til okkar sem höfðu verið að skoða fiskmarkaði víðs vegar um Evrópu að þeir sögðu okkur að frv. væri mikið sniðið eftir taprekstri sem þar er.

Hér var nokkuð rætt um fiskverð og frjálst fiskverð eða samningsbundið fiskverð og var greinilegt að hv. 5. þm. Norðurl. e. hafði verið komið mjög til. Ræddi hann um svokallað frelsi. Mér virtist hann ekki gefa mikið fyrir frelsið, enda ber margt að íhuga varðandi frjálst fiskverð. Sjálfur hafði ég alls konar fyrirvara þegar þessi mál voru rædd á Alþingi þó að ég teldi að það þyrfti að stefna að því að fiskverðið yrði frjálst og telji enn að svo eigi að vera. Ég minni á að nú um áramótin eða svo var þetta mjög til umræðu meðal hagsmunaaðila og svo fór að sjómenn gáfu kost á að hafa frjálst fiskverð. Það kom viðsemjendum þeirra mjög á óvart. Þeir höfðu ætlað þeim að vera andvígir því. En greinilegt var að sjómannasamtökin höfðu fundið fyrir þrýstingi sinna félagsmanna um að reyna frjálst fiskverð.

Ég tek það fram að sú umræða sem hefur verið hér í þinginu og annars staðar, hér í þinginu hjá hv. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur og áður af Vilmundi Gylfasyni, hefur orðið til þess að flýta þessum málum og halda þessari umræðu við, koma þeirri hugsun inn hjá mönnum að það væri til eitthvað annað en það kerfi sem við erum með núna. Yfirleitt eru menn fullíhaldssamir til breytinga. Það er vissulega margt að athuga við þær breytingar sem felast í því að gera fiskverð frjálst, m.a. það sem hv. þm. Björn Dagbjartsson minntist á. Útgerðirnar eiga fiskvinnslustöðvarnar líka í stórum mæli hér á Íslandi. Ætli það sé ekki um 80%. En þar sem svo er ekki mætti reyna þetta. Ég fullyrði að t.d. á Suðurnesjum sé fiskverð meira og minna frjálst og reyndar víðar á landinu. Það sem er þó til hnökra í þeim efnum er að það aukna verð sem fæst vegna þessa frelsis kemur ekki til sjómanna nema að takmörkuðu leyti. Það er boðið í fiskinn á þann veg að menn fá fría beitningu, frí veiðarfæri og annað slíkt, en sjómennirnir fá ekki hlut í því. Það er vandamál sem verður að uppræta. Auðvitað eiga allir sem afla fiskjarins að njóta góðs af því.

Ég endurtek að ég tel að það eigi að stefna að því að rýmka um í þessum þáttum útgerðar. Það tekur sjálfsagt nokkurn tíma að breyta. Það var, eins og ég sagði áðan, þegar menn voru að fjalla um þetta um áramótin að eigendur fiskvinnslustöðva víða um land spurðu: Ja, hvers konar frelsi á að vera? Hvernig á þetta frelsi að vera? Niðurstaðan varð sú að þeir höfnuðu þessu frelsi, frelsispostularnir sjálfir.

Fleira ætla ég ekki að segja um þetta mál, en ég vil ítreka það, sem ég kom inn á, að sú umræða sem hefur verið hér í þinginu um frjálst fiskverð hefur hreyft þessum málum, komið mönnum til að hugsa um það að það er til ýmislegt annað en það sem viðgengst í dag, komið mönnum til að hugsa um það að framtíðin verður ekki endilega eins og var í þátíðinni.