25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3500 í B-deild Alþingistíðinda. (3089)

361. mál, sjóðir og stofnanir

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá.

Frv. þetta hefur verið samið á vegum dóms- og kirkjumrn.

Um aldir hafa verið stofnaðir sjóðir hér á landi. Engin almenn löggjöf hefur verið sett um stofnun eða starfsemi sjóða en vitneskja hefur varðveist um þá sjóði sem staðfestar hafa verið reglur fyrir af ríkisvaldinu og varðveittar hafa verið í skjalasöfnum þess og svo síðan jafnan birtar. Réttarfræðingar hafa talið að stofnun sjóða sé og hafi verið frjáls, þ.e. að ekki hafi verið neinar hömlur á henni almennt, en vitneskja er lítil sem engin um sjóði aðra en þá sem hlotið hafa staðfestingu ríkisvaldsins.

Þessu frv. er ætlaður fyrst og fremst tvenns konar tilgangur:

1. Að móta reglur um hvernig reyna megi að fá betri yfirsýn yfir þá sjóði sem enn lifa og enn fremur að bjóða fram heimildir til að endurnýja, í samræmi við möguleika þeirra til framhaldsstarfa, reglur um ráðstöfun sjóðeignar með þeim breytingum sem umráðaaðilar telja vænlegastar og helst samrýmast upphaflegum tilgangi sjóðsstofnenda.

2. Enn fremur eru í fyrstu fimm greinum frv. settar fram einfaldar reglur um staðfestingu á skipulagsskrám, um eftirlit með sjóðunum og um ráðstafanir sem gera ber ef brestir verða á lögskipuðum vinnubrögðum stjórnenda. Í 6. gr. eru hin almennu ákvæði um heimildir til breytinga á skipulagsskrám vegna breyttra aðstæðna, sameiningu sjóða og eftir atvikum niðurfellingu á skipulagsskrám jafnhliða ráðstöfun sjóðfjár sem næst megi komast upphaflegum sjónarmiðum stofnenda. Um allar breytingar er fyrirskipað samráð við ríkisendurskoðun. Loks er í bráðabirgðaákvæði gert ráð fyrir rannsókn á tilvist sjóða og stofnana frá liðinni tíð.

Við samningu frv. þessa hefur verið haft samráð við ríkisendurskoðanda en ríkisendurskoðun hefur verið um árabil hvetjandi þess að löggjöf verði sett um þetta efni.

Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og hv. allshn.