25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3501 í B-deild Alþingistíðinda. (3093)

363. mál, póst- og símamál

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum um stjórn og starfrækslu póst- og símamála sem eru nr. 36 frá 1977. Með þessu frv. er lagt til að deildaskipting og mörkun verkefna einstakra deilda Póst- og símamálastofnunar verði numin úr lögum um stjórn og starfrækslu stofnunarinnar, en verði þess í stað ákveðin með reglugerð.

Skipulag og starfsemi Póst- og símamálastofnunar byggist á lögum frá 13. maí 1977. Með þeim var í fyrsta sinn bundið í lög skipulag stofnunarinnar, skipting hennar í deildir og verkefni einstakra deilda. Áður hafði þessum málum verið skipað með reglugerðum, en nefnd sú sem samdi frv. til gildandi laga taldi rétt að binda tölu og verkefni aðaldeilda í lögum þar sem miklu skipti að hér yrði um fast fyrirkomulag að ræða sem ekki væri unnt að breyta án rækilegrar athugunar.

Nú er það hins vegar svo að á undanförnum árum hefur mikil breyting orðið á verkefnum, skipulagi og starfsháttum opinberra stofnana. Einkaréttur ríkisins til margháttaðrar starfsemi er á undanhaldi og nægir í því sambandi að nefna þá þróun sem orðið hefur á sviði fjarskiptamála.

Til þess að opinberar stofnanir nái settu marki, betri þjónustu, meiri hagræðingu og auknum afköstum er nauðsynlegt að svigrúm til skipulagningar á starfseminni til skiptingar á verkum, valdi og áhrifum milli fólks og deilda sé sem mest. Stjórn opinberra fyrirtækja er að þessu leyti ekki frábrugðin einkafyrirtækjum sem auðvitað þurfa að aðlaga skipulag sitt breyttum þörfum markaðarins og nútímaviðhorfum til stjórnunar. Það er því ljóst að lögfesting deildaskiptingar opinberra stofnana er úrelt orðin. Nýleg löggjöf ber nokkur merki þeirrar breytingar sem orðið hefur með því að heimila ráðherra að ákvarða stjórnskipulag opinberra stofnana í reglugerð. Af lögum um stofnanir sem heyra undir samgrn. eitt má nefna hafnalög, lög um Landmælingar Íslands, lög um Veðurstofu Íslands og lög um Siglingamálastofnun ríkisins.

Í fleiri stofnunum er líkt farið eins og t.d. Flugmálastjórn, Vegagerð ríkisins. Eru það tillögur sem koma frá þessum stofnunum sjálfum til viðkomandi ráðuneytis þar sem óskað er eftir breytingu á skipulagi. Með samþykkt frv. þessa verður skipulag Póst- og símamálastofnunar ákvarðað með sama hætti og skipulag annarra stofnana ráðuneytisins sem stuðlar að auknum sveigjanleika og meiri virkni í störfum þeirra. Á þetta ekki síst við um Póst- og símamálastofnun þar sem tækninýjungar eru jafnmiklar og raun ber vitni. Það er því grundvallaratriði fyrir starfsemi og þróun stofnunarinnar að geta aðlagast breyttum viðhorfum hverju sinni.

Ég vil bæta því við að ég hefði talið ástæðu til að ganga nokkuð lengra en í þessu frv. og þá á ég sérstaklega við umdæmin. Það er þunglamalegt að hafa það bundið í lögum yfir hvaða svæði þau eigi að ná og eðlilegra að þetta fari meira eftir tillögum viðkomandi stofnunar sem á að bera undir Alþingi.

Ég get alveg eins búist við því að sú nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar fengi bréf um frekari breytingu hvað þetta snertir, enda er það í samræmi við lög og venjur annarra stofnana eins og ég hef áður getið um.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.