25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3504 í B-deild Alþingistíðinda. (3097)

364. mál, alþjóðasamþykkt um þjálfun og vaktstöður sjómanna

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um framkvæmd alþjóðasamþykktar um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna. Samþykktin var undirrituð í London 7. júlí 1978, en öðlaðist gildi 28. apríl 1984 og nær til sjómanna á kaupskipum.

Eins og heiti hennar ber með sér fjallar samþykktin almennt um þessa þrjá þætti, þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna. Tilgangur hennar er að tryggja eftir megni öryggi skipa og áhafna og leitast er við að samræma þær kröfur sem gerðar eru til skipanna sjálfra, öryggis þeirra og búnaðar og kröfur um lágmarksþekkingu og kunnáttu þeirra sem á skipunum starfa. Þetta er fyrsti alþjóðasamningurinn sem hefur að geyma meginreglur um öryggi áhafna sem allar siglingaþjóðir heims geta fallist á.

Samþykktin skiptist í 17 greinar ásamt viðauka. Menntunar- og þjálfunarkröfur til sjómanna eru tilteknar mjög nákvæmlega. Gefin skulu út sérstök skírteini til þeirra sem fullnægja ákvæðum hennar um menntun og þjálfun og ítarleg ákvæði eru þar um vaktstöðu í brú og vél kaupskipa.

Skv. 2. gr. frv. er ráðherra heimilt að setja reglur um heildarmönnun kaupskipa í samræmi við ályktun sem samþykkt var á 12. þingi Alþjóðasiglingamálastofnunarinnar fyrir sex árum, en í þessari ályktun eru aðildarríkin hvött til að ákveða lágmarksmönnun fyrir þau skip sem alþjóðasamþykktin um þjálfun, skírteini og vaktstöðu sjómanna gildir um og gefa út mönnunarskírteini fyrir hvert skip.

Hér á landi eru engar reglur til um heildarmönnun skipa, en í lögunum um atvinnuréttindi skipstjórnar- og vélstjórnarmanna nr. 112 og 113 frá 1984 er kveðið á um fjölda réttindamanna um borð í skipum, en fjöldi undirmanna hefur verið ákveðinn með samningum útgerðarmanna og sjómanna.

Fjölmörg ríki, þar á meðal öll nágrannaríki okkar, hafa þegar komið þessari ályktun í framkvæmd. Öryggismálanefnd sjómanna lagði í skýrslu sinni frá október 1985 mikla áherslu á staðfestingu samþykktarinnar og hvatti til þess að gerðar yrðu þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til að uppfylla ákvæði hennar, þar með að settar yrðu reglur um heildarmönnun skipa. Til þess að undirbúa framkvæmd framangreindrar samþykktar hér á landi og í framhaldi þess fullgildingu hennar er nauðsynlegt að setja reglur um nokkra þætti hennar, svo sem um útgáfu skírteina og vaktstöðu sjómanna. Enn fremur er nauðsynlegt að tryggja eðlilegt öryggi áhafna og skipa í samræmi við samþykktina og framangreinda ályktun og setja reglur um lágmarksheildarmönnun kaupskipa. Eins og áður segir gildir samþykktin aðeins um kaupskip og samþykktin fylgir með frv., bæði á íslensku og ensku, eins og títt er um slíka samninga.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.