25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3509 í B-deild Alþingistíðinda. (3100)

316. mál, flugmálaáætlun

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Í umræðum í samgn. kom fram að menn höfðu ekki mikið við flugmálaáætlun sjálfa að athuga, enda það verk mjög tæknilegs eðlis og lítt á færi nefndarmanna að skoða það sem slíkt. Hitt er annað að á hverju ári verður lögð fyrir Alþingi þáltill. um það hvað skuli gera á næsta ári.

Það sem einkum var rætt um var hvernig standa skyldi að fjáröflun. Menn eru sammála um að það þurfi að gera átak hvað varðar flugmál, flugvelli og aðbúnað fyrir farþega og þykir mönnum grátlega seint ganga í þeim efnum. Ég vek athygli á því að síðan núv. ríkisstjórn tók við völdum hafa framlög á fjárlögum til framkvæmda í flugmálum lækkað mjög verulega, ótrúlega, og hafa ekki verið lægri frá því 1968. Hæst komst fjárveiting á fjárlögum 1973-1974. En nú þegar ríkisstjórnin er að fara frá hyggst hún gera átak sem hún ætlar öðrum að framkvæma. Það er því líkt farið með þetta og í öðrum málum.

Nú fyrir kosningarnar og oft áður fyrir kosningar fara einkum trúboðar Sjálfstfl. víðs vegar um héruð og boða skattalækkanir, m.a. á tekjuskatti. Ekki er það boðað að gerður skuli uppskurður að því er lýtur að greiðslu tekjuskatts, réttlætinu er ekki sinnt heldur óréttlætið og skattsvikin látin eiga sig. En á sama tíma og þessir aðilar boða skattalækkanir á þessu sviði er komið á hvers konar „skítasköttum“ eins og kallaðir eru í almennu máli. Nú síðast var verið að hækka þann skatt sem rennur til þjóðarbókhlöðu. (EgJ: Ég heyrði ekki hvað þú sagðir áðan. Má ég heyra?) Nú síðast var verið að hækka skatt sem renna á til þjóðarbókhlöðu. (EgJ: Þú sagðir áður almennt.) Má ég ljúka máli mínu? Ef þm. heyrir ekki bið ég hann að hlusta betur. - Það er nú svo með þann skatt að hluti af honum rann beint í ríkissjóð til eyðslu í ríkissjóði. Nú er tekinn upp annar skattur hér eða aðrir skattar hækkaðir og á að verja þeim til að hækka framlög til flugmála, bæta fyrir þá vanrækslu sem ríkisstjórnin hefur sýnt í fjárveitingum til þessara mála á því kjörtímabili sem hún hefur lifað. Þykja mér þetta einkennileg vinnubrögð, en lítið er við því að segja. Hins vegar eru menn sammála um að það þarf að gera átak í þeim málum er lúta að uppbyggingu flugvalla og hefur þingflokkur Alþfl. samþykkt að taka þátt í því, en þessi aðferð er mjög umdeilanleg og persónulega tel ég hana með ólíkindum.

Nú hefur verið ákveðið að sá skattur sem taka átti af farþegum eða hluti þess skatts skuli tekinn af olíufélögunum sjálfum. Í nál. kemur fram að það var aðeins fulltrúi frá Olíufélaginu hf. eða Esso sem kom til viðræðu við nefndina. Þær viðræður snerust aðallega um hvernig færi með flug sem væri viðkomuflug, hvort fært væri vegna samninga við erlend ríki að setja slíkan skatt á. Einnig komu til viðræðu við nefndina menn sem þekkja til mála á Keflavíkurflugvelli og bentu þeir á að gera yrði breytingar á frv. ef þessi skattheimta ætti að vera möguleg.

Niðurstaðan hefur orðið sú að láta olíufélögin innheimta þennan skatt og tel ég að kalla hefði átt önnur olíufélög til viðræðna um hvernig með skuli fara, a.m.k. leyfa þeim að heyra um hvað stæði til. Sjálfsagt verður það gert í Nd. Víst er rétt að það þarf að flýta afgreiðslu frv. til þess að það nái í gegn sem fyrst.

Með vísun til þess sem ég hef sagt um fjárveitingar fyrr er ég mjög samþykkur brtt. Skúla Alexanderssonar og Kolbrúnar Jónsdóttur og vænti þess að ef hún verði samþykkt veiti hún nokkurt aðhald að þm. í þá veru að framlög verði ekki skert. Hvort hún heldur kemur í ljós, en ég tel að þetta gæti orðið hvati til þess að menn komi sér ekki undan að veita ríflega til flugmála.

Ég þakka nefndarformanni ötult starf og samvinnu, góða forustu og er ég vissulega ekki að kenna honum um þær syndir sem ég taldi upp frá hendi ríkisstjórnarinnar. Það er að vísu ógæfa formanns að hann skuli vera í Sjálfstfl., en það verður ekki neitt við því gert. Ekki í þessari umræðu.

Nefndin flytur sameiginlegar brtt. sem ég tel allar vera til bóta. Varðandi aðra þætti hlýtur það að koma fram á næsta þingi þegar þáltill. verður til umræðu um hvernig niðurröðun framkvæmda á sér stað.