25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3510 í B-deild Alþingistíðinda. (3101)

316. mál, flugmálaáætlun

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Það ber á því að það er farið að nálgast kosningar og eru því fluttar ræður sem góðar geta talist og eru málsvörn fyrir góð málefni. Það er ástæða til að þakka að formaður samgn. skyldi ítreka og að mörgu leyti endurflytja ræðu hæstv. samgrh. sem hann flutti þegar hann lagði þetta mál fyrir hv. deild, enda er hægt að taka undir að hér er um gott mál að ræða, þarft mál að ræða, sem meginhluti þingheims stendur að. Það er þó að segja fyrst og fremst um fyrri hluta þess málefnis sem við erum hér að fjalla um, þ.e. um flugmálaáætlun, að ég tek undir orð formanns nefndarinnar um að þakka bæði hæstv. samgrh. og flugmálanefnd í sambandi við undirbúning þeirrar áætlunar, en ég get ómögulega tekið undir neinar sérstakar þakkir í sambandi við hinn þáttinn og mér finnst bera meira á því að sá hluti hafi því miður ekki verið vel unninn sem og reyndar kom fram beint í ræðu hv. 11. landsk. þm. þar sem hann benti á að hefðu verið ýmsir hlutir sem hefði orðið að breyta vegna þess að önnur ákvæði komu í veg fyrir að við samþykktum það sem þar var lagt til.

Enn frekar í sambandi við flugmálaáætlunina. Þar eru vitaskuld ýmsir hlutir sem við getum togast á um og er þegar farið að gera það. Það eru þegar farnar að koma ályktanir um að þessi og hinn flugvöllurinn skuli tilheyra þessum eða hinum flokknum og það sé ekki réttmætt að þessi flugvöllur sé í þessum flokk o.s.frv. Þetta held ég að sé algert aukaatriði vegna þess að þegar framkvæmdaáætlun verður samþykkt á hverju þingi eftir tilætlan þessa frv. og þeirra laga sem vonandi verða samþykkt hér verður þungamiðjan sett á hverja framkvæmd, ekki út frá því endilega í hvaða flokk hún er sett hér heldur er það undir nauðsyn framkvæmdarinnar komið á hverjum tíma.

Ég undirstrika að ég fagna mjög því að komið sé að því að hér sé samþykkt flugmálaáætlun og lýsi yfir ánægju minni yfir því og þakklæti til þeirra sem hafa þar unnið að.

En það var nefnt hér áðan, reyndar í umræðum um annað mál, að það mætti segja að ríkisstjórnin væri að sumu leyti að skipuleggja þjóðarátak til skattheimtu. Hvert frv. kemur á fætur öðru til samþykktar sem er skattheimta þessarar ríkisstjórnar sem hefur lýst því yfir að hennar stóra markmið sé að létta sköttum af skattborgurunum. Það var flutt frv. í fyrra - mig minnir að það hafi verið á síðasta þingi - í sambandi við þjóðarbókhlöðu sem var áréttað áðan og samþykkt til áframhaldandi meðferðar og nú á síðustu dögum þingsins munum við samþykkja, að ég vænti, nýjar sérskattaálögur í sambandi við uppbyggingu flugmála.

Maður hefði búist við því eins og ýmsu fleiru frá þessari ríkisstjórn að það færi á annan veg en að nú væri farið í það á síðustu dögum ríkisstjórnarinnar að leggja fram frv. um sérsköttun til að koma áfram framkvæmdum í flugmálum, eftir að ríkisstjórnin er búin, eins og kom fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns, á undanförnum árum að skera niður við trog framkvæmdir til flugmála ár frá ári. Nú á síðustu dögum þingsins er síðan boðið upp á að það skuli samþykkt hér sérstök skattheimta og boðið upp á framtíðarplan fyrir aðra til að framkvæma út á þá peninga sem ríkisstjórnin hefur ekki lagt í að innheimta meðan hún situr heldur skuli það fært til annarra. Eftir að þessi ríkisstjórn hefur yfirgefið stólana skulu aðrir taka við og framkvæma.

Það er reyndar ekki á þessum vettvangi einum sem við sjáum plögg á þennan veg. Við fáum ekki glýju í augun yfir því að sjá áætlun upp á tíu ára framkvæmdir þegar við sjáum hvað á að gera í vegamálum og hafnamálum alveg á næstu árum.

Frv. sem við erum að fjalla um, þær skatttölur sem í því eru, skal miðast við vísitölu í janúar 1986. Þetta er skrýtið, en reyndar kemur fram að nefndin er sammála um að breyta þessu. Það er brtt. sem er ekki beinlínis um þetta heldur um gildistöku. Þetta frv. átti að öðlast þegar gildi. Hvað sýna þessi tvö atriði okkur? Þau sýna okkur í fyrsta lagi að frv. átti að leggja fram á haustdögum og það átti að taka gildi og tengjast þeim fjárlögum sem voru samþykkt fyrir árið 1987. Einhverra hluta vegna varð ekki af þessu. Ég geri ekki ráð fyrir að það hafi verið flugmálanefnd að kenna, enda geri ég ráð fyrir að flugmálanefnd eigi lítinn hlut í þessu skattafrv.

En það var eitt sem gerðist ef þetta frv. hefði verið samþykkt á haustdögum. Það þýddi að 117 millj. hefðu ekki runnið beint í ríkiskassann af sértekjum af flugmálum. Nei, það þurfti að festa þessar sértekjur í ríkiskassann meðan þessi ríkisstjórn sæti og þess vegna var því slegið á frest að leggja frv. fram svo snemma að það væri samþykkt fyrir s.l. áramót. (Forseti: Nú verð ég að biðja hv. 4. þm. Vesturl. að gera hlé á ræðu sinni vegna þess að nú verður forseti að fresta þessum fundi. En hann hefst að nýju kl. 6.) - [Fundarhlé.]

Virðulegi forseti. Ég var þar í ræðu minni að ég var að skýra frá því að það væri greinilegt að í sambandi við ákveðna liði frv., þ.e. II. kafla frv., fjáröflun til framkvæmda í flugmálum, hefði verið gert ráð fyrir því þegar frv. var samþykkt að það yrði flutt í upphafi þings í haust og því verið ætlað að taka gildi fyrir áramót og gert ráð fyrir því, eða það skín í gegnum greinar frv., að búist var við því að það færi strax að hafa áhrif bæði skattalega og framkvæmdalega á árinu 1987, en af einhverjum ástæðum, sem ég taldi að hefðu verið fyrst og fremst þær að hæstv. fjmrh. vildi ekki missa neinn spón úr sínum aski, andæfði gegn hv. 11. landsk. þm. og hæstv. samgrh., fékk þeirra hlutur í þessu máli ekki fram að ganga. Það var setið svo um þá peninga sem áttu að koma í ríkissjóð og nota til annarra hluta og reyna pínulítið að jafna hallann á ríkissjóði að það náði ekki fram að ganga að flugmálaáætlun tæki gildi á árinu 1987. En áhugi í samgrn. og hjá hæstv. samgrh. var svo mikill að það gleymdist að lagfæra frv. á þann veg að þetta sæist ekki og skini ekki út úr frv. Fjmrh. Sjálfstfl. tókst að ná í ríkissjóð þeim sértekjum sem flugmálanefnd og þeir sem sömdu frv. gerðu ráð fyrir og skammta síðan mjög naumt á fjárlögum til flugmála svo ekki hefur verið naumara áður gert.

Ég nefndi líka áðan að þetta er svo sem ekki það eina sem á fyrst og fremst að vísa til næstu ára og næstu ríkisstjórnar og ákvörðunartöku þeirra þingmanna sem kjörnir verða í vor, það er vegáætlun, það er hafnaáætlun og núna var verið að kynna á þingflokksfundi hjá okkur nýjar skattaálögur. Það er gott mál. Það er nú aldeilis gott mál. Það er fæðingarorlof. Við fögnum því allir. En það er bara 390 millj. kr. skattur sem á að leggja á um leið. En í framtíðinni verða það ekki þessir hv. þm., nema þeir verði endurkjörnir, sem eiga að sjá þann skatt renna inn í ríkiskassann. Það verður næsta ríkisstjórn. (EgJ: Fer það ekki eftir því hvað fæðist mikið af börnum?) Ja, við verðum að vona að það dragi ekki mjög úr því og ekki síst ef sumir þm. fá að fara heim og sinna öðrum störfum en að vera alltaf uppteknir á hv. Alþingi.

Þannig er verið að búa til allsherjar Pótemkíntjöld og segja þjóðinni að þessi ríkisstjórn leggi þetta til og svona verði framtíðin, þessi ríkisstjórn sem hefur skorið niður á undanförnum árum ár frá ári framlög til vegamála, framlög til hafnamála og framlög til flugmála og ekki staðið fyrir því að það væri eðlilegt fæðingarorlof í landinu. En á síðustu dögum þingsins kemur hvert frv. á fætur öðru. Svona skal það vera á næstu árum. Og út frá núllinu í vegáætlun skulum við framkvæma stórkostlega mikið á næstu árum. Þannig er það. (EgJ: Þetta er ónákvæmur málflutningur.) Hv. þm. Hér stendur núll, held ég bara. Það er ekki svo ónákvæmt. Það er bjarminn af núllinu fram á næstu ár.

Það má búast við að fram haldi næstu daga það sem verið hefur síðustu daga og reyndar er í hillingum fæðingarorlofið og skatturinn í kringum það þannig að það er kannske ekki rétt að eyða mikið lengri tíma núna til að spjalla um þennan þátt og undirbúninginn undir kosningarnar hjá hv. stjórnarsinnum, en aðeins að líta á frv. sjálft og greinar þess.

Það kom sem sagt í ljós þegar var farið að fjalla um frv. í nefnd undir öruggri forustu hv. 11. landsk. þm. að á frv. voru ýmsir gallar. Það kom m.a. í ljós að það var ætlast til þess að leggja á skatt sem mundi verða illinnheimtanlegur og einnig brjóta í bág við milliríkjasamninga sem gerðir hafa verið á milli ríkisstjórnar Íslands og annarra landa. (EgJ: Það má nú laga þetta.) Alveg rétt. En ákefðin í skattaálagningunni, ákafinn í því að koma á þjóðarátaki til skattheimtu var svo mikill að menn gerðu sér ekki grein fyrir því hvernig væri hægt að koma sköttunum fyrir. Og það var látið vaða.

Eins og kemur fram í brtt. hefur þessu verið breytt. í staðinn fyrir að í 5. gr. frv. var gert ráð fyrir að það væri lagt beint eldsneytisgjald á flugfélögin er nú búið að koma því þannig fyrir að þetta er lagt á þá aðila sem annast þessa þjónustu, selja eldsneytið. Nú heitir það ekki lengur eldsneytisskattur heldur heitir það „sérstakt gjald“. Það má segja að jafngott orðatiltæki og „sérstakt gjald“ sé kannske ekki lengur í ætt við skatt, en skattur er það samt og ósköp svipaður skattur þó það hafi verið breytt til um hvernig hann er lagður á. (EgJ: Kemur að sömu notum.) Og er náttúrlega þvert á það sem Sjálfstfl. hefur verið að boða eins og aðrir liðir í skattheimtunni og aðrir þeir skattheimtuliðir sem Sjálfstfl. kannske neyðist til að nefna eða menn sjá í hillingum ef á að framkvæma þá hluti sem flokkurinn er núna að leggja til í ágætum framkvæmdum.

Í 5. gr. er undanþáguákvæði gagnvart þeim flugfélögum sem sinna flugþjónustu á flugleiðum innan sama landsfjórðungs. Um þetta var svolítið spjallað í nefndinni og ekki er ég enn þá búinn að fá fullkomna skilgreiningu á því hvernig á að sinna skiptum á því hvert verið er að fljúga innan þessa eða hins landsfjórðungsins þó að það kæmi reyndar fram hjá flugmálastjórnarmönnum að þeir mundu hafa vissa möguleika til þess að fylgjast með því. En það kallar vitaskuld á að það verði reynt að leika á kerfið þegar um slíkar undanþágur er að ræða til þessarar starfsemi en ekki hinnar. En við skulum vona að það verði ekki beinlínis farið að leika sér að kerfinu þarna.

Í 8. gr. er lagt til að flugvallagjald verði hækkað í sambandi við flugferðir erlendis og í 9. gr. er ákveðið gjald á farþega sem ferðast innanlands, 100 kr. á hvern farþega miðað við grunntaxtagjald árið 1986. Þetta er sérsköttun á þá sem þurfa að ferðast með flugi og þetta er fyrst og fremst sérsköttun á ákveðna staði á landinu. Hver ætli væri staður númer eitt ef við færum að gera okkur grein fyrir því hverjir væru sérskattaðir? Ég hef á tilfinningunni að það mundu vera Egilsstaðir. Þetta er sérsköttun á þá sem fyrst og fremst þurfa og komast lítið annað en með flugi, Egilsstaði og Ísafjörð, staði sem eru samgöngulega þannig settir. Miðað við þessa grunntölu er skattur á þessa staði 5-6 millj. kr. á ári. Það munu hafa verið um 50 000 flugfarþegar frá Egilsstaðaflugvelli. Aðrir staðir á landinu sleppa við að standa undir þessari uppbyggingu sem í eðli sínu ætti að vera sameiginleg. Það er ekki eðlilegt að það sé farið að taka landshluta þannig út úr vegna þess að þeir séu bundnir því að ferðast á þennan máta.

Mér skilst helst að hv. 11. landsk. þm. fagni því og þeir Egilsstaðamenn séu bara fegnir því að fá að borga svona sérskatta. Þá er það allt í lagi. Ég segi fyrir mig að ekki fer ég að andæfa gegn því að þeir Austfirðingar borgi sérstaklega fyrir það að fá að ferðast hingað til Reykjavíkur. En skatturinn sem þeir borga er sem sagt þessi. (EgJ: Álíka og hann var 1982.) Já, það er svo sem hægt að bera saman við ýmsa tíma og líta á hvað hefur verið gert á þessu eða hinu tímabilinu. Framkvæmdir á flugvöllum voru hlutfallslega miklu meiri á árinu 1982 en þær eru á því tímabili sem við erum á núna. Það var talið alveg nauðsynlegt af Sjálfstfl. að slíkur skattur væri lagður niður og það var ekkert jafnóferjandi og óalandi og slíkir skattar á vissu tímabili. Varla er hann mikið betri núna ef menn reyna að stilla saman við það sem þeir hafa sagt áður. Það getur vel verið að menn eigi að fara eftir því nú orðið eins og sagt er að sumir menn segi: Ja, ég hafði þessa meiningu í gær. Menn eigi ekkert að hugsa um hana og það sé allt í lagi ef þeir geti sett þessa meiningu fram í dag án þess að taka tillit til þess sem þeir hafa sagt áður.

Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en ég bendi á að það er mjög sérstakt að það skuli vera það ákvæði í frv., og óbreytt er það frá okkur, ég geri ekki ráð fyrir að það verði farið að breyta því úr þessu, að grunntaxtar gjaldsins skuli vera miðaðir við vísitöluna 250 stig eða eins og hún var í janúar 1986. Við erum að tala um 100 kr. sem eru kannske orðnar 130. Og hvað verða þær orðnar þegar það tekur gildi 1. júní? Þetta er óeðlilegt og hefði verið æskilegra að hér hefði verið betri skilgreining á.

Í 16. gr. er kveðið á um að ríkisframlag skuli lagt fram til að afla tekna til að fylla upp í fjármálaplan tíu ára áætlunarinnar. Það er nú svo. Við höfum séð oft og tíðum svona tillögur í lagafrumvörpum og þær verið samþykktar sem lög frá hv. Alþingi, en það hefur komið lítið út úr því þegar hefur átt til að grípa. Ég tel að hér sé allt of laust um hnútana búið. Það þurfi að binda það frekar að ríkissjóður sjái fyrir því að fjármagn verði til til að fjármagna þá flugmálaáætlun sem hér er lagt til að verði framkvæmd, þ.e. tíu ára áætlunina. Með sértekjunum hefst það ekki og með svona yfirlýsingu í lagabókstaf hef ég litla trú á að staðið verði við það. Við höfum séð hvað er að ske í sambandi við vegina. Við vorum með beint ríkisframlag í fyrra. Ætli það hafi ekki verið 600 millj. eða svo. í hitteðfyrra um 900 millj. og nú erum við komin niður í núll.

Við höfum því lagt til, ég og hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir, að 16. gr. orðist svo: Til greiðslu kostnaðar samkvæmt flugmálaáætlun skal auk þeirra tekna sem aflað verður samkvæmt ákvæðum laga þessara veita sérstakt framlag á fjárlögum sem nemur a.m.k. þriðjungi þeirra tekna.

Hv. 11. landsk. þm., formaður okkar ágætu samgn., nefndi í framsöguræðu sinni að þessi till. væri harla ónákvæm. Hann færði engin frekari rök að því - (EgJ: Jú, jú.) O nei. - önnur en þau að hann nefndi að vísu nokkrar tölur og ég hef grun um að þær tölur hafa verið frá hendi sama manns. Ég leitaði upplýsinga um hvað þyrfti að nefna þarna til að fylla vel upp í framlag ríkisins til að sinna fjármögnun tíu ára áætlunarinnar. (EgJ: Hvað ætli sá maður hafi heitið?) Hann heitir Pétur Einarsson flugmálastjóri. Þær tölur sem hv. þm. var að tíunda voru þær tölur sem Pétur Einarsson hefur lagt fyrir okkur og við tökum sæmilega trúanlegar. Ég trúi því ekki að hv. þm. sé að breyta þeim tölum sem hafa verið lagðar fyrir okkur í nafni ráðuneytisins og Flugmálastjórnar. Þessi tala fyllir upp í fjárþörfina 1/3 á móti sértekjunum í tíu ára áætluninni. En við tökum reyndar fram að það megi hafa það meira, við segjum: a.m.k. Ég veit að þetta verður nægjanlegt ef svipaður hugsanagangur verður hjá næstu ríkisstjórn og það er gott ef hún stendur við það. Ef hún verður skipuð svipuðu liði og hefur verið síðasta ríkisstjórn og haft svipaða afstöðu til uppbyggingar flugvalla og annarra samgöngumannvirkja á landinu er þetta nægjanlega stórt og nægjanlega mikið til að standa vel fyrir sínu í sambandi við uppbyggingu og það að byggja upp samkvæmt þeirri áætlun sem við erum að ræða um, þ.e. tíu ára áætlun um uppbyggingu flugvalla á landinu.