25.02.1987
Efri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3516 í B-deild Alþingistíðinda. (3102)

316. mál, flugmálaáætlun

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 11. landsk. þm. fyrir hans formennsku í þeirri nefnd sem hafði þetta mál til meðferðar. Það er tilbreyting út af fyrir sig að ég þakki hv. þm. Hann hefur kallað menn fyrir og unnið mjög vel að þessum málum eins og reyndar oft áður þannig að ég sé sérstaka ástæðu til að nefna það hér.

Auðvitað er ánægjuefni að það skuli koma fram nú frv. til laga um flugmálaáætlun og fjáröflun í flugmálum. Um I. kafla frv., sem er um flugmálaáætlun, er allt gott að segja. En eins og fram kom í ræðu eru strax komnar athugasemdir við þá flokkun sem á sér stað milli flugvalla. Það er athugasemd frá Húsavíkurkaupstað þar sem þeir gagnrýna að Aðaldalsflugvöllur skuli vera flokkaður í flokk 2. Hér erum við fyrst og fremst að ræða um frv., en ekki um þá áætlun sem þar er að baki, en ég vildi nefna að menn hafa vissulega athugasemdir við þá áætlun en ég held að að meginhluta til sé hún mjög góð. Ég held að samt sé nauðsynlegt, þegar hún verður lögð fram, trúlega í mjög svipuðu formi og hér er, fyrir næsta þing og vonandi nýja stjórn að það verði tekið tillit til þeirra athugasemda sem fram koma og efast ekkert um það.

II. kafli er um fjáröflun í flugmálum. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni er þetta ekki fyrsta málið sem við sjáum sem er í sjálfu sér allt of seint borið fram til þess að það virki trúverðugt að núverandi ríkisstjórn standi heils hugar að þessu máli þar sem ekki er hægt að hefja þessar framkvæmdir nú í ár, ekki er hægt að innheimta þessa skatta í ár þrátt fyrir að frv. var tilbúið í ágúst á s.l. ári og allt þannig sniðið og reiknað með því að framkvæmdir gætu hafist á yfirstandandi ári. Ég tel þetta veikasta þátt frv. og mjög veikt fyrir hv. 11. landsk. þm. að mæla fyrir þessu frv., sem er vissulega ætlað næstu ríkisstjórn að framfylgja og standa á bak við, því það er enginn vandi að ætla mönnum að borga ef maður þarf ekki að borga sjálfur, það er enginn vandi að leggja á skatta í framtíðinni. Núverandi ríkisstjórn hefur verið mjög dugleg í þeim efnum með því að hafa mikinn halla á fjárlögum því eins og hvert mannsbarn veit þá er halli á fjárlögum aðeins frestun á hækkun skatta því auðvitað þarf að greiða þann halla, það þarf að greiða það sem hér er ætlast til að fari í framkvæmdir. Ef við lítum á það framkvæmdafé sem er á þessu ári, 69,4 millj. kr., til framkvæmda á flugvöllum, en flugvallaskatturinn einn og sér gefur 117 millj. kr. í ríkiskassann, þá sér hver og einn að það er ekki einu sinni það sem farþegar greiða sérstaklega í flugvallaskatt sem hægt er að nýta til framkvæmda í flugvöllum.

Nú er lofað bót og betrun. Raunar felst í þessu líka skattahækkun til viðbótar þeim sköttum sem nú eru innheimtir. Annars vegar er það töluverð hækkun á flugvallaskatti innanlands sem reiknað er með í frv. að fari upp í 100 kr. miðað við verðlag fyrir rúmu ári, en með þeim prósentuhækkunum sem hv. 11. landsk. þm. notaði áðan eru þessar 100 kr. 118 kr. í dag. Ég gat ekki fest alveg reiður á hans tölum vegna þess að hann talaði um að flugvallaskatturinn mundi nema 109,9 millj. kr. á yfirstandandi ári, en í fjárlögum er reiknað með 117 milljónum þannig að þarna er ekki stuðst við sömu forsendu.

Ég hefði viljað að verðlagsforsendur þessa frv. væru færðar strax upp á núverandi verðlag. Ef það þætti of mikið að hækka flugvallaskattinn um 18% er það allt of mikið að hækka hann í júní eða júlí á þessu ári upp í jafnvel 20%.

Við erum að tala um 750 kr. á hvern farþega sem fer á milli landa, en sú upphæð er í raun 900 kr. Þannig er alveg sama um hvaða gr. frv. við erum að ræða, það er hvergi sú tala sem er raunveruleikinn í dag. Ég hefði talið, og það kom líka fram hjá mörgum viðmælendum á þeim fundum sem við sátum og ræddum þetta mál, að það er mjög slæmt að hækka flugvallaskatt í stórum stökkum vegna þess að þá verður fólk meira vart við það, ef svo má segja, og það koma meiri mótbárur. Þetta er óvinsæll skattur og skattur sem ég hef í raun og veru haft ímugust á. En þegar við lítum til þeirra þarfa sem við höfum í þessum málum hér á landi getur maður ekki í öðru orðinu sagt: það má ekki skattleggja fólk, en í hinu orðinu sagt: við verðum að framkvæma. Þannig er ég fyrir mitt leyti tilbúin að samþykkja þessa hækkun þó ég hefði kosið að þetta mundi ekki koma í einu stökki.

Til að gera mér betur grein fyrir því hvernig þessum málum er háttað í nágrannaríkjum okkar fékk ég yfirlit yfir flugvallaskatt í öðrum ríkjum og satt best að segja brá mér svolítið þegar ég fór að fletta þessu plaggi fyrst til að byrja með því að það eru þar ríki sem ekki eru mjög oft nefnd í daglegu tali, eins og Angóla og minni ríki, Brasilía og annað slíkt. Þegar ég fór að skoða þetta betur sá ég að okkar nágrannaríki, t.d. Danmörk, Noregur og Svíþjóð, hafa þennan skatt á og þó nokkuð hærri en við erum að ræða um hér. Ég held því að sú gagnrýni sem fram hefur komið á þennan skatt hafi kannske ekki við eins mikil rök að styðjast og maður hefði haldið áður en maður kynnti sér hvernig þessu er háttað í okkar nágrannaríkjum. T.d. í Danmörku er þessi skattur 300 dk. sem eru rúmar 1700 íslenskar. Noregur er með 200 nk. og Svíþjóð með 300. Ég tel því að hér sé ekki of langt gengið þrátt fyrir að stór stökk séu hættuleg.

En annað var það í sambandi við þennan skatt. Ef maður ber saman við Norðurlöndin eru börn yfirleitt undanþegin þessum skatti frá 12-14 ára, misjafnt eftir löndum. Það hefði kannske verið umhugsunarefni hvort við hefðum átt að hækka skattinn aðeins meira á þeim fullorðnu en sleppa börnunum. Það er rétt til umhugsunar og ég hef ekki lagt fram neina tillögu um það efni.

Mikil umræða spannst um eldsneytisskatt eins og hér hefur komið fram og töldu flugfélögin af og frá að væri hægt að leggja slíkan skatt á. Í fyrsta lagi þyrfti að endurnýja flugvélakost flugfélaganna og þau mundu ekki bera slíka skattlagningu. Í öðru lagi kom fram að milliríkjasamningur er í gangi og þetta hefði brotið í bága við hann. En síðan kom líka fulltrúi frá olíufélögunum og þegar hann sagði okkur að þeir ætluðu vegna framkvæmda á Keflavíkurflugvelli að áttfalda afgreiðslugjald, sem rennur til olíufélaganna og nemur heldur lægri upphæð en við erum að tala hér um, sá ég ekki hættuna svo brýna því að ekki var nefnt í því sambandi að við ættum á hættu að flugvélar mundu ekki lenda á Íslandi vegna þeirrar skattheimtu. Niðurstaðan varð því sú að þetta gjald verður innheimt af olíufélögunum og reyndar voru fulltrúar frá þeim ekki kallaðir til fundar við nefndina, enda gátum við fyrir fram sagt okkur að þeir yrðu ekki hrifnir af þessari skattheimtu. Eflaust koma mótbárur þaðan, en mér finnst þær byggðar á veikum grunni ef þeir sjálfir ætla sér að hækka afgreiðslugjöld til að standa undir fjárfestingu sem þeir sjálfir eru að framkvæma og afskrifa að mínu mati á mjög skömmum tíma. Eins og kom fram hjá þeim eru þetta framkvæmdir upp á 100 millj. og ef maður reiknar þennan skatt þeirra varlega miðað við það bensín sem þeir selja mundu þeir afskrifa þetta jafnvel á sex árum. Það er því mjög skammur tími og minni hækkun mundi duga þeim til að afskrifa sínar framkvæmdir.

Við höfum lagt fram brtt., eins og fram hefur komið og hv. 4. þm. Vesturl. ræddi um áðan, við 16. gr. frv. þar sem ríkið er skuldbundið til að leggja fram a.m.k. þriðjung þeirra tekna sem aflast með skattheimtu þeirri sem hér er lögð til.

Ég skildi ekki þær tölur sem hv. 11. landsk. þm. nefndi áðan. Hann nefndi, ef ég man rétt, að þetta mundi þýða um 40 millj. kr. framlag úr ríkissjóði. Hann leiðréttir mig ef það er rangminni. En það er svo sem skiljanlegt þegar við erum að reikna út frá mismunandi verðlagi. Mér reiknast til að þetta séu um 78 millj. miðað við núverandi verðlag og þær upplýsingar sem hann gaf sjálfur. Ég man ekki svo nákvæmlega þessar tölur, en ég held að ég hafi skrifað þær einhvers staðar niður hjá mér. Miðað við þá heildarskattlagningu sem hann nefndi, 28,7 millj. kr. flugvallagjald innanlands, 109,9 í millilandaflug og 31,7 millj. kr. í sérstakt gjald, reiknast mér til að það séu 78 millj. sem ríkið þyrfti að leggja á móti ef það væri a.m.k. þriðjungur í viðbót við það sem skattheimtan leggur til. Þriðjungurinn vex í hlutfalli við vísitölu eins og annað í þessu frv. Því miður er hæstv. ráðh. ekki hér til að svara þeirri spurningu sem ég hefði viljað beina til hans varðandi framkvæmd á þessum lögum. Þegar ég gagnrýndi að það væri miðað við vísitölu fyrir ári kom fram hjá hv. 11. landsk. þm. á fundi að það væri í valdi ráðherrans að hækka þetta í minni skömmtum, en upp í fulla vísitölu. Það er að vísu rétt, en við höfum gengið út frá því að hér væri um að ræða rauntölur en ekki um duttlunga sérhvers ráðherra sem með þessi mál fari. Ég held að það sé mjög brýnt að við séum hér að fjalla um skatt sem á að innheimtast en ekki skatt sem einhver hefur leyfi til að innheimta ef honum sýnist svo.

Eins og ég nefndi áðan komu mjög miklar mótbárur frá flugfélögunum, sérstaklega þó þeim stærri. Fulltrúar minni flugfélaga bentu á að það ákvæði um undanþágu frá bensíngjaldi eða sérstöku gjaldi, eins og það heitir nú, innan sama landsfjórðungs gæti orðið erfitt í framkvæmd, enda getur maður rétt ímyndað sér það sjálfur. Ef t.d. er áætlun frá Akureyri til Þórshafnar og þaðan til Vopnafjarðar er undanþága til Þórshafnar en ekki til Vopnafjarðar. Ég hefði viljað að þarna hefði verið farin önnur leið. Annaðhvort hefðu minni flugfélög úti á landi verið undanþegin að mestu eða hálfu leyti þessu gjaldi. Það hefði verið lækkað og þá komið yfir heildina því að þetta kemur mjög misjafnlega niður á flugfélögum. Það er Flugfélagið Ernir sem flýgur mest innan sama landsfjórðungs. Það flugfélag flýgur mest innan sama landsfjórðungs og auðvitað nýtur það góðs af þessari niðurfellingu. Ég er alls ekki að sjá ofsjónum yfir því og tel að það flugfélag búi við þannig aðstæður að það hafi misst allmikið þegar felldir voru niður styrkir til sjúkraflugs, en það fékk stærstan hlutann af þeim styrkjum, enda kom fram á fundum nefndarinnar að menn voru ekki alls kostar sáttir við að missa þann styrk og telja sig reyndar hafa fulla þörf fyrir að ríkið hjálpi til við rekstur miðað við þær aðstæður sem þeir búa við á Vestfjörðum. Ég tek fyllilega undir það.

Það á ekki heima í þessu frv. í sjálfu sér, en það sakar ekki að minnast á það hér, því að það er þessi sama nefnd sem fjallar um styrki til samgöngumála víðs vegar um landið og það eru þá aðallega flóabátar og snjóbílar sem hafa átt greiðan aðgang að nefndinni, en það mætti vissulega athuga hvort samgöngur í lofti ættu ekki heima undir þeim lið líka.

Eins og ég kom að áðan er hér verið að leggja á skatta fyrir næstu ríkisstjórn sem mun eflaust taka við eftir kosningar. Við verðum bara að vona að hún standi við þá áætlun sem hér er þrátt fyrir að vissulega verði sú ríkisstjórn að velja og hafna. Ef það yrði sama ríkisstjórn og nú situr yrði ég ekki hissa þó að það yrðu á ýmsum stöðum orðin núll næsta haust. Það er ekki lengra síðan en í gær að við vorum að ræða um vegáætlun. Þar er núll 1987, en það á að hlaupa upp í 1360 millj. á næsta ári. Þannig eru núllin fljót að stækka, en það er líka fljótlegt að skera niður. Ég hef enga trú á öðru, ef núv. ríkisstjórn heldur áfram völdum á þessu landi, en hún hlaupi í sitt fyrra horf þó að það verði ekki til neins annars en að búa til falleg kosningaplögg fyrir næstu kosningar þar á eftir. Það er ekki hægt að horfa upp á það daglega að hér komi inn mál sem kosta fleiri milljarða í framkvæmd, eru lögð fram á síðustu dögum þess þings sem er að ljúka störfum og er komið að kosningum, og trúa þeim tölum sem þar standa. T.d. framkvæmdir í hafnamálum hljóða upp á 500-600 millj. fyrir árið 1988 í þeirri þáltill. sem hér hefur verið lögð fram, en eru um 192 millj. kr. á árinu 1987. Það er því stutt á milli stóru stökkanna hjá ríkisstjórninni og eflaust til þess eins gert að dreifa þessum fallegu áætlunum fyrir næstu kosningar.

Hér hefur verið minnst á fæðingarorlof í þessu sambandi og þrátt fyrir að það eigi enga samleið með flugmálum í sjálfu sér sakar ekki að nefna þær fjárhæðir sem þar komu fram og ég heyrði fyrst hjá síðasta ræðumanni. Það eru á milli 300 og 400 millj. ef ég hef heyrt rétt.

Allt er þetta spurning um fjármagn og hvernig við skiptum fjármagni. Við getum ekki endalaust skattlagt þegna þessa lands og ráðstafað slíkum sköttum. Við verðum einfaldlega að velja og hafna í bæði félagslegum þáttum og framkvæmdaþáttum. Ég verð að segja fyrir mitt leyti að þó að þetta sé allt saman mjög brýnt og þarft, ekki síst að auka rétt mæðra og feðra til að taka fæðingarorlof, eyðum við ekki þeim fjármunum tvisvar. Það verður að minnka á einum staðnum. Ef ég má leyfa mér að gera samanburð held ég að það verði annaðhvort að minnka til vegamála eða hafnaframkvæmda ef við ætlum að eyða 300 og eitthvað milljónum í aukið fæðingarorlof. Ég mundi styðja að það yrði skorið af til að koma á meiri réttindum í þeim efnum. En við getum ekki í sama orðinu sagt: Alls staðar meira fé og hvergi neinn niðurskurð. Það eru staðreyndir sem blasa við. (Gripið fram í.) Sem betur fer er ég ekki á kosningafundi hér og verð ekki fyrir næstu kosningar þannig að ég get leyft mér að vera svolítið...... (EgJ: Raunsæ.) Já, svolítið raunsæ, hv. 11. landsk. þm.

Þrátt fyrir þetta allt saman, sem ég hef nefnt núna, held ég að við getum ekki látið hjá líða að krefjast þess að ríkisvaldið standi við sinn hlut, sem ríkisvaldinu er ætlað, til að fjármagna þessa framkvæmdaáætlun sem er til tíu ára. Eftir það tíu ára tímabil er ekki þörf á þessu mikla fjármagni í þennan lið. Því hefði mátt vera sólarlagsákvæði í þessum lögum um að eftir tíu ár yrðu þau endurskoðuð. Sem betur fer lýkur þessum framkvæmdum eins og öðrum.

En ástand flugvalla hér innanlands er með þeim hætti að stórhættulegt telst. Það eru sem betur fer ekki mörg slys sem af hljótast. Það er að mínu mati fyrst og fremst vegna þess að við eigum mjög góða og örugga flugmenn sem kunna á þær aðstæður sem við búum við. En fólk gerir líka meiri kröfur til þess aðbúnaðar sem það hefur, bæði á flugvöllum og annars staðar. Víða um land þurfa farþegar að sitja í bílum sínum vegna þess að það skúrskrifli sem stendur við flugvöllinn rúmar ekki nema örfáar hræður. Það er ekki hægt að líða til frambúðar. Við erum að laða ferðamenn til landsins og ætlum að fjölga þeim til að fá meiri tekjur í ríkiskassann. Við verðum jafnframt að hlúa að þessari tegund samgangna eins og öðrum, bæði með því að bæta útlit og aðstöðu á flugvöllum og flugöryggi.

Virðulegi forseti. Ég held að ég sé að mestu leyti búin að koma að þeim atriðum sem mér hefur fundist þurfa að leggja áherslu á og endurtek að hér er um gott mál að ræða sem ég styð þrátt fyrir að hér sé um að ræða skattahækkun sem vissulega bitnar mjög á landsbyggðarfólki. Hún gerir það. En ég held að landsbyggðarfólk borgi þessa skatta með ánægju vegna þess að hér er um það miklar framkvæmdir að ræða sem búa betur í haginn fyrir það fólk. Þar af leiðandi sé það sátt við þá skattlagningu sem hér er farið fram á.

Það kom fram hjá hæstv. ráðh. við 1. umr. þessa máls að flugvallaskattur innanlands átti að vera sérmerktur í flugstöð í Reykjavík. Hann felldi það niður úr þessari áætlun. Ég tel það til bóta. Þrátt fyrir að það sé of þröng aðstaða á Reykjavíkurflugvelli er stutt til heimahúsanna yfirleitt. Það er stutt, ef þarf að bíða, eins og oft kemur fyrir, kannske 3-4 tíma, og fólk getur einfaldlega farið heim. En úti á landi er það víða þannig að það er langt frá flugvelli og heim. Það held ég þurfi að leggja áherslu á. Mér finnst að þurfi að leggja áherslu á fyrst og fremst uppbyggingu á landsbyggðinni áður en við komum að því sem er í Reykjavík. Við búum þó alla vega við sæmilega aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli miðað við aðra flugvelli landsins.