25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3529 í B-deild Alþingistíðinda. (3122)

310. mál, endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Þetta mál, sem ég hér mæli fyrir, um endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu er nú flutt í þriðja sinn á hv. Alþingi, en þetta mál flyt ég ásamt hv. þm. Jóni Baldvini Hannibalssyni og Kristínu H. Tryggvadóttur sem sat hér á þingi fyrir skemmstu sem varamaður fyrir Kjartan Jóhannsson.

Á árinu 1984 var frv., þegar það var fyrst lagt fram, vísað til ríkisstjórnarinnar á þeirri forsendu að skýrsla yrði lögð fram um endurmenntunarmál sem verið væri að vinna að og yrði hún lögð fram á Alþingi árið eftir, 1985. í nóvembermánuði 1985 spurði ég hæstv. menntmrh. um þessa skýrslu, en þá var frv. þetta aftur til meðferðar í þinginu. Svör ráðherra voru þá, í nóvembermánuði 1985, að hann mundi beita sér fyrir því að sú nefnd í þinginu sem fengi málið til meðferðar fengi svör skriflega um þessa skýrslu. Í lok ræðu sinnar sagði hæstv. menntmrh. Sverrir Hermannsson:

„En ég endurtek að ég held að okkur sé hin mesta nauðsyn á endurmenntuninni og þá einnig og ekki síður fyrir kennarastétt okkar. Á hinni hraðfleygu stund sem við lifum og breytingatímum er þetta mjög mikilvægt mál og ég vona að í ljósi þeirrar skýrslu sem ég mun beita mér fyrir að verði gefin svo fljótt sem kostur er um endurmenntunarmálin getum við gert nýja aðsjón í málinu.“

Svo mörg voru þau orð. En mér er ekki kunnugt um að hæstv. menntmrh. hafi staðið við þessi orð og lagt fram skýrslu um málið, hvorki í nefndinni sem fjallaði um málið né á hv. Alþingi. Það virðist nú vera allur áhuginn fyrir þessum endurmenntunarmálum.

Markmið frv. sem hér er flutt er að koma á samræmdri og skipulegri endurmenntun og starfsþjálfun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu og skapa öllum skilyrði til að aðlagast tæknivæðingu, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingar. Því er það nokkuð einkennilegt ef hv. Alþingi treystir sér ekki til að taka á þessu máli þegar svo mikið er í húfi sem endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Ég tel, herra forseti, að Alþingi sé ekki lengur stætt á því að bíða eftir að framkvæmdarvaldið taki á þessu máli eða bíða eftir því hvenær menntmrh. þóknast að leggja fram einhverja skýrslu um þetta mikilvæga mál hér á Alþingi. Hér er ekki aðeins á ferðinni brýnt hagsmunamál fyrir launafólk og atvinnuöryggi þess heldur fyrir atvinnulífið í heild.

Þó með þessu frv. sé lögð til ákveðin leið og skipulagning á endurmenntunarmálum erum við flm. þessa frv. opin fyrir öllum breytingum á frv. sem samræmast því markmiði sem að er stefnt. Meginmálið er að Alþingi taki á þessu máli því ef við eigum ekki að dragast langt aftur úr öðrum þjóðum í að hagnýta okkur tækniþróun og tæknivæðingu til að efla okkar atvinnulíf og auka hagvöxtinn og skapa okkar fólki skilyrði til að aðlagast tæknivæðingunni verður þegar að taka á þessu máli.

Það er ljóst að sjálfvirkni og vélvæðing munu í auknum mæli hafa það í för með sér að mörg störf munu annaðhvort taka miklum breytingum eða úreldast og ný störf taka við sem gera sífellt auknar kröfur til starfsfólks um endurmenntun. Ef ekki er brugðist við með réttum hætti í tíma er mikil hætta á því að það muni hafa í för með sér versnandi lífskjör og atvinnuleysi hér á landi.

Þær gífurlegu breytingar, sem áhrif tæknivæðingarinnar munu hafa á allt atvinnulíf á komandi árum, gera kröfu til þess að tilfærslur geti átt sér stað á mannaflanum milli verkefna og atvinnugreina með eðlilegum hætti, en forsenda þess er að starfsfólki sé gert kleift að njóta endurmenntunar og starfsþjálfunar í miklu ríkara mæli en nú er.

Í allri atvinnuuppbyggingu og leiðum til að bæta lífskjör fólks er eitt brýnasta verkefnið að opna starfsfólki möguleika til að geta aðlagast með eðlilegum hætti áhrifum þeirra gífurlegu breytinga sem tæknivæðingin mun hafa í för með sér á allt atvinnulíf á komandi árum. Endurmenntun starfsfólks er því ein veigamesta forsenda þess að hægt sé að nýta sér nýjar tæknibreytingar til að auka framleiðni og hagvöxt og bæta lífskjör hér á landi.

Ég tel það, herra forseti, ábyrgðarhluta af Alþingi og hv. alþm. ef menn velja þá leið að leiða þetta mál hjá sér og lita fram hjá því hve brýnt er orðið að af festu og með markvissum hætti verði tekið á þessu máli. Ég vara alvarlega við því ef sífellt á að skáka í því skjóli, eins og stjórnarflokkarnir virðast ætla að gera, að von sé á einhverri skýrslu um stöðu endurmenntunarmála frá hæstv. menntmrh., skýrslu sem lofað var fyrir þremur árum og er enn ekki komin. Í raun og sannleik tel ég að sú aðferð að vísa þessu máli frá á árinu 1984 á þeirri forsendu að ráðherra legði fram skýrslu um málið hafi einfaldlega verið leið stjórnarflokkanna til að drepa málinu á dreif og þurfa ekki í atkvæðagreiðslu hér um þetta frv. að taka afstöðu til málsins.

En að leika þann leik þegar í húfi er svo mikilvægt mál sem endurmenntun vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu tel ég ábyrgðarhluta af stjórnarflokkunum og getur orðið þjóðinni dýrkeypt. Ég skora því á alþm. að taka nú á þessu máli og samþykkja hér lög sem komi skipulagi á þessi mál, einkum í þeim atvinnugreinum þar sem atvinnuöryggi starfsmanna er í hættu vegna tæknivæðingarinnar en skáka ekki sífellt í því skjóli að von sé á einhverri skýrslu frá ráðherra sem ég tel reyndar að hvergi sé til né í undirbúningi. Hún sé aðeins tylliástæða þeirra sem drepa vilja málinu á dreif og vilja afgreiða málið með þeim hætti, sennilega af því að málið kemur frá þm. stjórnarandstöðunnar.

Út af fyrir sig þarf ég ekki, herra forseti, að hafa langt mál um þetta frv. Ég hef nokkrum sinnum hér á Alþingi frá því að þetta mál var fyrst lagt fram haldið langar ræður um nauðsyn þessa máls og sýnt fram á það með rökum sem ekki er hægt að mótmæla hve brýnt er að Alþingi taki á þessu máli.

Vissulega kostar þetta nokkra fjármuni. Skv. frv. yrði framlag ríkissjóðs til endurmenntunar um 200 millj. kr., en ég fullyrði að þetta framlag mun margfalt skila sér aftur í ríkissjóð og til atvinnulífsins og í batnandi kjörum fólksins ef alþm. hafa dug í sér að taka á þessu máli. Það mætti hugsa sér að fresta gildistökunni fram til áramóta ef þm. telja að ekki sé nú til fjármagn og e.t.v. eðlilegt líka að undirbúningur þessa máls taki nokkurn tíma verði frv. að lögum. En séu menn tilbúnir til að ganga til verks strax skal ekki standa á mér að benda á leiðir til að fjármagn sé til ráðstöfunar til að tryggja nú þegar framgang þessa máls.

Ég hef þegar lýst markmiði þessa frv. sem fram kemur í 1. gr. Með endurmenntun vegna tækniþróunar í atvinnulífinu er átt við þann þekkingarauka sem nauðsynlegt er að starfsmenn í fyrirtækjum fái til þess að fyrirtæki geti nýtt sér þá möguleika sem fólgnir eru í nýrri tækni. Þekkingarauka þennan er hægt að byggja upp á marga vegu, svo sem með því að senda starfsmenn á námskeið innanlands eða erlendis, fá ráðgjafa eða starfsþjálfa til að kenna starfsmönnum á vinnustað eða með því að gefa starfsfólki kost á skipulögðu starfsnámi.

Í 2. gr. frv. er kveðið á um sjö manna endurmenntunarráð, en verkefni þess er síðan skilgreint í 3. gr. Með skipan ráðsins er leitast við að tryggja aðild stærstu heildarsamtaka á vinnumarkaðnum, auk þess sem tryggð er aðild menntakerfisins að ákvörðunum um alla framkvæmd endurmenntunar sem tengjast tæknivæðingu í atvinnulífinu.

Í 3. gr. er fjallað um hlutverk endurmenntunarráðs. Í þessari grein kemur fram skilgreining á hlutverki endurmenntunarráðs, en a-, b og c-liðir 3. gr. byggjast á því meginmarkmiði sem fram kemur í 1. gr. frv., þ.e. að komið verði á samræmingu og skipulagi á endurmenntun sem tengist tæknivæðingu í atvinnulífi og að forgangsverkefni á því sviði taki markvisst mið af því að tryggja atvinnuöryggi starfsmanna sem í hættu er vegna tæknivæðingar í einstökum greinum atvinnulífsins.

Ljóst er að eitt vandmeðfarnasta verkefni ráðsins er úthlutun styrkja úr endurmenntunarsjóði, enda ræðst af henni röðun forgangsverkefna á sviði endurmenntunar. Nauðsynlegt er því að tryggja úrskurðarvald ráðherra í þessum lögum komi til ágreinings í endurmenntunarráði.

Skv. ákvæðum 4. gr. er hlutverk endurmenntunarráðs þríþætt. Í fyrsta lagi að veita styrki til starfsmanna sem sækja endurmenntunarnámskeið eða starfsþjálfunarnámskeið sem viðurkennd eru af endurmenntunarráði. Eðlilegt þykir, og auðvelt í allri framkvæmd, að miða upphæð styrkveitingar við atvinnuleysisbætur eins og þær eru á hverjum tíma. Benda má einnig á að t.d. í Danmörku eru atvinnuleysisbætur notaðar til viðmiðunar þegar greiddir eru styrkir vegna endurmenntunar starfsmanna. Ljóst er þó að sú upphæð er ekki nægjanlegur hvati til að starfsfólk sæki sér endurmenntun því að í allflestum tilfellum verður um nokkurn eða töluverðan tekjumissi að ræða.

Hagur launþega og atvinnurekenda er augljós ef átak verður gert á sviði endurmenntunar starfsfólks vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu. Því er eðlilegt að kanna grundvöll þess að atvinnurekendur greiði starfsmönnum mismun á launum þeirra og atvinnuleysisbótum á meðan á starfsþjálfun stendur, svo og að aðilar vinnumarkaðarins greiði hluta af námskeiðsgjöldum.

Styrkir úr endurmenntunarsjóði eru forsenda þess að endurmenntunarráð geti stuðlað að því að framboð og eftirspurn eftir endurmenntun sé nægjanleg og því mikilvægt að víðtæk samstaða náist um alla framkvæmd málsins og að samningar takist við aðila vinnumarkaðarins um hlutdeild í kostnaði við endurmenntun starfsfólks.

Í öðru lagi er lagt til að endurmenntunarsjóði verði heimilt að greiða að fullu námskeiðsgjöld fyrir þá sem ekki hafa verið á vinnumarkaðnum um lengri eða skemmri tíma. Ekki síst er þetta ákvæði sett fram til að stuðla að endurmenntun þeirra sem koma á vinnumarkaðinn á ný, eftir stutta eða langa fjarveru.

Í þriðja lagi eru síðan ákvæði um að styrki megi veita til námsgagnagerðar, námskeiðahalds og starfsþjálfunar á sviðum sem viðurkennd eru af endurmenntunarráði.

Í 5. gr. er kveðið á um framlag ríkissjóðs til endurmenntunar og gert ráð fyrir að á fjárlögum ár hvert verði sjóðnum lagt til fé sem samsvarar a.m.k. 50% af framlagi ríkissjóðs til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á þessu ári mundu það vera rúmlega 200 millj. kr.

Í ákvæði til bráðabirgða er síðan kveðið á um að félmrh. hefji þegar í stað viðræður við aðila vinnumarkaðarins þar sem leitað verði eftir samvinnu um þátttöku í kostnaði við endurmenntun starfsfólks vegna tæknivæðingar í atvinnulífinu.

Með lögum þessum er hlutur aðila vinnumarkaðarins tryggður varðandi allar ákvarðanir um skipulag endurmenntunar. Ljóst er að hlutdeild þessara aðila af kostnaði þeim, sem af endurmenntun leiðir, mun tvímælalaust flýta fyrir endurmenntun starfsfólks í flestum atvinnugreinum og því að markmiðum laganna verði náð. Ljóst er að það er jafnt til hagsbóta fyrir atvinnurekendur sem og launþega.

Herra forseti. Í lokin vil ég ítreka það, sem ég sagði í upphafi míns máls, hve nauðsynlegt er að Alþingi fresti því ekki eina ferðina enn að taka á þessu máli sem tvímælalaust mun skila sér í aukinni framleiðni og hagvexti sem og bættum kjörum fólksins í landinu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. félmn.