25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3537 í B-deild Alþingistíðinda. (3127)

319. mál, húsnæðissparnaðarreikningar

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um húsnæðissparnaðarreikninga, sem ég flyt ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og Guðrúnu Agnarsdóttur.

Markmið þessa frv. er að tryggja að húsnæðissamvinnufélög eins og Búseti fái aðgang að húsnæðissparnaðarreikningum.

Frv. þetta er flutt af gefnu tilefni því að fjmrn. synjaði félagsmönnum húsnæðissamvinnufélagsins Búseta um þann rétt sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita þótt ekki verði annað séð en að félagsmenn í Búseta uppfylli ákvæði laganna.

Frv. er flutt til að taka af allan vafa í þessu efni og tryggja að sparnaður vegna öflunar húsnæðis, hvort sem er hjá húsnæðissamvinnufélögum eða öðrum félagslegum íbúðarbyggingum, veiti sama rétt samkvæmt ákvæðum laga um húsnæðissparnaðarreikninga og önnur kaup á húsnæði til eigin nota.

Meginmarkmið laganna um húsnæðissparnaðarreikninga var að hvetja til sparnaðar vegna öflunar húsnæðis. Því er það varla í samræmi við vilja Alþingis eða anda laganna ef útiloka á stóra hópa frá þeim rétti sem lögin um húsnæðissparnaðarreikninga veita, jafnvel þó að eignarhald eða ráðstöfunarréttur á húsnæði sé á einhvern hátt takmarkaður eins og oftast er um félagslegar íbúðarbyggingar.

Frv. þetta var flutt á 108. löggjafarþingi. Tvö nál. komu þá fram frá fjh.- og viðskn. sem hafði málið til meðferðar.

Tillaga 1. minni hl. um að vísa málinu til ríkisstjórnarinnar var samþykkt en rökstuðningur 1. minni hl. var sá að viðkomandi ráðuneyti kæmu sér saman um túlkun laganna. En, með leyfi forseta, hljóðar nál. 1. minni hl. á þessa leið:

„Nefndin hefur haft málið til meðferðar. Aflað var umsagna félmrn., fjmrn., Landsbankans, Samvinnubankans, Verslunarbankans, Alþýðubankans og Búseta um frv.

Túlkun félmrn. og fjmrn. á lögunum um húsnæðissparnaðarreikninga er ósamhljóða og meðan svo er eru lögin óvirk. Bankarnir benda á að samkvæmt lögunum sé binditími of langur til þess að húsnæðissparnaðarreikningar séu aðlaðandi fyrir innleggjendur.

Fyrsti minni hl. telur óhjákvæmilegt að lögunum um húsnæðissparnaðarreikninga verði breytt og viðkomandi ráðuneyti komi sér saman um túlkun laganna. Því telur 1. minni hl. rétt að málið hljóti viðeigandi undirbúning í sumar og leggur til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.“

Í svari við fsp. 1. flm. þessa frv. í nóvembermánuði s.l. kom fram að ekki hefði enn náðst samkomulag milli ráðuneytanna um málið. Flutningsmenn frv. telja því einsýnt að Alþingi verði að höggva á þennan hnút. Frv. er því lagt fram á nýjan leik með þeirri breytingu sem 2. minni hl. fjh.- og viðskn. lagði til á síðasta þingi, en það er samhljóða breyting og félmrn. lagði til þegar frv. var til meðferðar á síðasta þingi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði málinu vísað til hv. fjh.- og viðskn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.