26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3539 í B-deild Alþingistíðinda. (3129)

62. mál, samfélagsþjónusta

Frsm. atvmn. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Atvmn. Sþ. hefur haft til meðferðar till. til þál. um samfélagsþjónustu sem úrræði í viðurlagakerfinu sem flutt var af hv. 1. landsk. þm. o.fl.

Nefndin hefur fjallað mjög ítarlega um þessa till. og fengið umsagnir um hana frá Skilorðseftirliti ríkisins, fangapresti Þjóðkirkjunnar, Sakfræðifélagi Íslands og Félagasamtökunum Vernd. Allar þessar umsagnir voru jákvæðar. Þá hefur Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur komið á fund nefndarinnar til viðtals.

Nefndin mælir með því að tillagan verði samþykkt, en flytur brtt. á þskj. 633 sem er svohljóðandi:

"Tillgr. orðist svo:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna hvort endurgjaldslaus vinnuþjónusta í þágu samfélagsins geti við ákveðnar aðstæður komið í stað afplánunar dóma í fangelsi. Verði niðurstaða nefndarinnar jákvæð semji hún frv. um nauðsynlegar lagabreytingar sem lagt verði fyrir Alþingi.“

Meginefni brtt. er í samræmi við ábendingar sem fram komu í umsögn Sakfræðifélags Íslands. Lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að samfélagsþjónustan geti orðið til að gera skilorðsbundna dóma markvissari eins og er í upphaflegu tillögunni. Þar sem samfélagsþjónusta hefur verið tekin upp hefur megintilgangurinn verið sá að hún kæmi í stað óskilorðsbundinna refsivistardóma og markmið hennar þar með m.a. að stuðla að fækkun afplánunardóma í fangelsi.

Þá gerir brtt. einnig ráð fyrir því að frv. um nauðsynlegar lagabreytingar verði lagt fyrir Alþingi, ef niðurstaða nefndarinnar verður jákvæð. Það er gert vegna þess að í áliti Sakfræðifélags Íslands kom fram að ekki er talin vera heimild í núgildandi hegningarlögum, nr. 19/1940, fyrir því að beita samfélagsþjónustu sem úrræði í refsimálum.

Þá var nefndin sammála um að beina því til nefndarinnar, sem skipuð verður samkvæmt þál. verði hún samþykkt, að áhersla verði lögð á að ef samfélagsþjónusta verður tekin upp sem æskileg leið, þá verði hún til að byrja með tekin upp í reynslutíma, t.d. í tvö til þrjú ár.

Undir þetta nál. rita Birgir Ísl. Gunnarsson, Björn Dagbjartsson, Kristín S. Kvaran, Þórarinn Sigurjónsson, Davíð Aðalsteinsson og Garðar Sigurðsson.

Kolbrún Jónsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málins en hefur lýst sig samþykka þessu áliti.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.