26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3544 í B-deild Alþingistíðinda. (3133)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Flm. (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Á þskj. 502 flyt ég till. til þál. um afnám skyldusparnaðar ungmenna og er till. á þessa leið:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja fyrir næsta þing frv. til laga um afnám skyldusparnaðar ungmenna í einu lagi eða í áföngum. Í frv. verði byggt á þeirri forsendu að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins skerðist ekki vegna þessarar ákvörðunar. Við undirbúning frv. verði kannað hvort unnt er að viðhalda möguleikum skyldusparnaðar með tengslum við húsnæðissparnaðarreikningana, sbr. lög um það efni.“

Eins og hv. þm. sjá er efnisatriði þessarar till. í raun og veru þríþætt. Í fyrsta lagi að undirbúið verði frv. um að leggja niður skyldusparnað ungmenna í einu lagi eða í áföngum. Í frv. verði hins vegar í öðru lagi byggt á þeirri forsendu að ráðstöfunarfé Byggingarsjóðs ríkisins skerðist ekki vegna þessarar ákvörðunar og þetta er höfuðatriði. Í þriðja lagi að við undirbúning frv. verði kannað hvort unnt er að viðhalda möguleikum skyldusparnaðar með tengslum við húsnæðissparnaðarreikninga sem nú hefur verið opnuð leið fyrir með lögum frá Alþingi frá árinu 1985.

Ég geri mér það ljóst, herra forseti, að hér er hreyft máli sem er eðlilegt álitamál og mjög eðlilegur hlutur að menn velti því fyrir sér hvort þetta er réttlætanlegt miðað við allar aðstæður, að fella þessar kvaðir niður eða öllu heldur fella niður þá sparnaðarmöguleika fyrir ungt fólk sem vissulega felast í skyldusparnaðinum. Ég held þó að það séu svo breyttar aðstæður frá því að lögin um skyldusparnað voru sett fyrir 30 árum, það mun hafa verið 1956, að það sé a.m.k. full ástæða til að setja endurskoðun málsins á dagskrá. Ég tel það ekki sjálfsagðan hlut að skyldusparnaður í því formi sem hann hefur verið eigi alltaf að vera til. Ég tel að þetta sé eitt af því sem á að athuga og ræða af fullri alvöru, hvort skyldusparnaðurinn á að vera áfram eða hvort honum á kannske að breyta frá því sem verið hefur. Till. er sett hér fram til þess að hv. Alþingi og aðrir geti metið forsendur þessa máls á nýjan leik.

Mér finnst það satt að segja oft mikill galli hér á ágætum málum sem ákveðin eru að þau eru látin standa eins og óumbreytanlegur hlutur um margra áratuga skeið án þess að menn taki fyrir með opnum huga hvað í raun og veru hér hefur verið að gerast og hvort það á að halda þessum hlutum áfram óbreyttum eða ekki. Menn þurfa að skoða svona hluti reglulega til þess að ná tökum á því að meta hvaða þýðingu þeir hafa.

Skyldusparnaður ungmenna var ákveðinn með lögum eins og ég sagði 1956 í tengslum við ráðstafanir í húsnæðismálum skv. stjfrv. sem var flutt af þáv. ríkisstjórn og félmrh. Hannibal Valdimarssyni. Lögin voru sett á þremur forsendum:

Í fyrsta lagi að með þeim væri ungu fólki gert kleift að spara á góðum kjörum og betri en völ var á í bankakerfinu á sama tíma. Það var hvergi völ á jafngóðum sparnaðarkostum þá og skyldusparnaðinum. Þetta hins vegar versnaði og breyttist mjög verulega, t.d. á árunum fram að 1980, en með reglum sem settar voru í kringum 1980 lagaðist mjög ávöxtun á skyldusparnaði, en miðað við þær vaxtabreytingar sem síðan hafa gengið yfir er alveg ljóst að skyldusparnaðurinn og ávöxtunarform hans heldur ekki í við það sem kostur gefst á almennum markaði.

Í öðru lagi voru lögin sett með það í huga að opna leið fyrir ungt fólk til þess að fá húsnæðislán umfram það sem ella hefði verið. Eins og kunnugt er var á þessum tíma ekki um það að ræða að almennt verkafólk, hvorki ungt né gamalt, greiddi í lífeyrissjóði. Það gerðist hins vegar upp úr árunum 1970 að menn fóru að greiða í lífeyrissjóði og þar er um að ræða sparnað sem nemur 10% af launum. Þessi sparnaður er nú í raun og veru forsenda húsnæðislánakerfis samkvæmt ákvörðunum sem teknar voru á Alþingi í febrúar og mars 1986. Ég tel því að þessi ákvörðun um breytingu húsnæðislánakerfisins og að það byggist á þeim skyldusparnaði sem felst í lífeyrissjóðunum hafi kallað það fram á dagskrána frekar en áður að staða skyldusparnaðarins sé endurmetin.

Tilgangur laganna 1956 og 1957 var svo auðvitað sá að tryggja húsnæðislánakerfinu fjármuni til þess að það gæti betur sinnt sínum verkefnum. Staðreyndin er hins vegar sú að á seinni árum hefur það verið að gerast að skyldusparnaðurinn gagnvart Húsnæðisstofnun hefur verið neikvæður, a.m.k. um nokkurra ára skeið, þó að hann hafi verið jákvæður örlítið á síðasta ári, ef ég man rétt, og talið er hugsanlegt að hann verði einnig jákvæður á þessu ári.

Samkvæmt tölum sem ég hef frá Húsnæðisstofnun ríkisins og veðdeildinni er um það að ræða að skyldusparnaðurinn var neikvæður um 8-9 millj. 1983, hann var neikvæður um 82 millj. 1984 og um 17 millj. 1985. Hins vegar mun hann hafa verið jákvæður á árinu 1986, ég er ekki með þá tölu hér við hendina, en ég hygg að svo hafi verið, og að einnig sé gert ráð fyrir því að skyldusparnaðurinn verði jákvæður á árinu 1987.

Það breytir ekki því að ég held að það sé kannske hæpið að vera að láta Húsnæðisstofnunina sjá um þennan þátt mála. Nú skulum við segja að við kæmumst að þeirri niðurstöðu að skyldusparnaður ungmenna eigi að halda áfram, sem gæti út af fyrir sig verið. Þá held ég að það sé eftir sem áður álitamál hvort hann á að tengja með þeim hætti við húsnæðiskerfið sem gert hefur verið. Ég held að það sé alls ekki óeðlilegt að ef skyldusparnaðurinn heldur áfram, ef menn vilja halda honum áfram, þá verði honum komið annars staðar fyrir en í Húsnæðisstofnuninni. Ég sé í raun og veru ekkert sjálfkrafa samband þar á milli eins og staðan er orðin í dag miðað við þær margvíslegu skyldur sem nú eru á Húsnæðisstofnuninni umfram það sem áður var.

Ég tel að það sé alveg ljóst, og það vitum við sem þekkjum eitthvað til íslensks atvinnulífs, að á undanförnum árum hefur þó nokkur fjöldi fólks sparað verulega fjármuni í gegnum skyldusparnaðarkerfið, sem hefur komið þessu fólki að góðum notum þegar viðkomandi hafa lagt í íbúðakaup eða aðra slíka fjárfestingu. Þess vegna er það sem ég nefni þann möguleika í þessari till. að opnað verði fyrir slíkan skyldusparnað í tengslum við húsnæðissparnaðarreikningana sem nú eru til samkvæmt gildandi lögum.

Herra forseti. Tilgangur minn með því að flytja þessa till. er sá að vekja til umræðna og menn velti því fyrir sér með hvaða hætti skynsamlegt sé að haga þessum málum áfram. Forsendurnar eru eins og ég sagði áðan: Fé Byggingarsjóðs ríkisins skerðist ekki frá því sem verið hefur og í öðru lagi að við undirbúning tillagna um framtíðarskipan þessara mála verði athugað hvort unnt sé að koma þessum sparnaðarleiðum fyrir í tengslum við húsnæðissparnaðarreikningana, sbr. lög um það efni.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. félmn.