26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3554 í B-deild Alþingistíðinda. (3140)

277. mál, afnám skyldusparnaðar ungmenna

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég lýsi mig andvígan afnámi skyldusparnaðar en tel hins vegar að það beri að skoða það hvernig betur megi standa að málum en gert hefur verið. Það er nokkuð um það talað að lítið komi inn til Húsnæðisstofnunar vegna skyldusparnaðar. Ástæðan fyrir því er beinlínis sú að innheimtan er í molum. Ástæðan er sú að það er fjöldi fyrirtækja sem kemur sér undan því að innheimta skyldusparnað og þess vegna þarf að gera lagaákvæði skýrari á þann veg að innheimta sé tryggð. Ráðherra boðar það að fyrirhugað sé að flytja frv. um lögtaksheimild og tel ég að það sé af því góða.

Þessi mál hafa oft verið uppi á borðum verkalýðssamtakanna einmitt vegna þess að menn kvarta undan innheimtunni. Ég tek undir rök hv. 7. þm. Reykv. sem lúta að því að benda á hversu mikil hagsbót skyldusparnaður er fyrir ungt fólk. Það er mjög oft að maður verður var við það að ungt fólk, sem ætlar að kaupa sér íbúð, á aðeins þessa peninga og ekkert annað og er mjög þakklátt kerfinu, þessu vonda kerfi sem alltaf er verið að tala um, fyrir að hafa aðstoðað sig í því að spara á þennan hátt. En það er margt gert til þess að eyðileggja þann góða tilgang sem fylgdi þessari lagasetningu, t.d. það að um tíma var ávöxtun þessa fjár alls ekki nægilega góð og það er spurning núna hvort ávöxtunin er nógu góð enn, þar sem fullyrt er að betri ávöxtun fáist annars staðar. Svo er allt of mikið um undanþágur. Hins vegar er það svo að yfirleitt er málum þannig háttað að þetta eru einu peningarnir sem ungt fólk á þegar það kaupir íbúð.

Ég er andvígur því að afnema þetta kerfi. Það má laga það og breyta því. Það þarf að skoða sérstaklega hvernig með það skuli fara nú þegar nýtt skattakerfi er tekið upp, staðgreiðslukerfið. En um leið og það gerist hverfur það ákvæði að draga megi þessa peninga frá skatti og gerir það skyldusparnaðarkerfið enn óhagkvæmara en áður.

Í grg. með frv. segir að rökin fyrir því að viðhalda skyldusparnaði ungmenna séu röng. Ég mótmæli þessu algjörlega. Hitt er annað að ráðamenn hafa gert sitt ýtrasta til þess að gera kerfið vanmáttugra og því þarf að breyta, en ekki að leggja kerfið niður.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.