26.02.1987
Sameinað þing: 56. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3563 í B-deild Alþingistíðinda. (3147)

315. mál, varnir gegn mengun hafsins við Ísland

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim þm. sem tekið hafa þátt í þessum umræðum fyrir ræður þeirra, þ.e. hæstv. félmrh., Alexander Stefánssyni, og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni, Tryggva Gunnarssyni og Guðrúnu Agnarsdóttur. Ég fagna því sem fram kom í ræðu félmrh. að Norðurlöndin eru að ná samstöðu um það á norrænum fundi sem nú stendur að mótmæla kröftuglega þeim áformum sem uppi eru í Bretlandi um byggingu þessarar endurvinnslustöðvar, sem slík hætta getur stafað af, eins og fram hefur komið í ræðum manna hér í dag. Það er tímabært að slíkt sé gert, slíkt samráð sé haft og slík samstaða mynduð. Till. gengur einmitt út á slíkt að á þeim alþjóðlega fundi, sem hér yrði haldinn á Íslandi, verði mótuð stefna í þessu máli og frekari aðgerðir skipulagðar til að koma í veg fyrir þessi áform.

Jafnframt komu fram fróðlegar upplýsingar í ræðu Guðmundar J. Guðmundssonar um losun eiturefna hér í hafið við Ísland. Það eru uggvænleg tíðindi ef slíkt hefur gerst að undanförnu. Um slíka losun var að ræða fyrir u.þ.b. 15 árum í hafið á milli Noregs og Íslands. Það voru eiturefni frá iðnaðarlöndum meginlands Evrópu. Það framferði var stöðvað á þeim tíma vegna þess að málið varð uppskátt og Íslendingar báru fram harðorð mótmæli. Það þarf vissulega að grípa til ráðstafana aftur ef þetta athæfi hefur endurtekið sig.

Það er rétt að bæta því við að fram kom nýlega hér á þingi í ræðu hæstv. samgrh. að þegar hefur verið ákveðið af hans hálfu að fram skuli fara mælingar, bæði á vegum Hafrannsóknastofnunar og Geislavarna ríkisins, í sjó hér við land og á fiskimiðunum til þess að fylgjast með geislavirkni hafsins og er það vel. Ég fagna því framtaki. En það þarf miklu meira að fylgja á eftir eins og allir ræðumenn hafa lagt hér áherslu á í dag.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.

1