02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3571 í B-deild Alþingistíðinda. (3156)

18. mál, kosningar til Alþingis

Egill Jónsson:

Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa langa ræðu um mína afstöðu. Ég vil þó að það gleymist ekki að ég var andvígur þessum kosningalögum. Ég setti mig nokkuð nákvæmlega inn í þær tillögur sem voru til umfjöllunar í þinginu í þá tíð og ég komst að raun um það þá með sjálfum mér að það væri útilokað að hafa þá tilhögun sem þar var gert ráð fyrir. Auðvitað geta þessar breytingar, sem ég skal fúslega viðurkenna að ég hef ekki lagt á mig enn þá að setja mig inn í, ekkert lagað það sem var ómögulegt fyrir, ekki einu sinni bætt það.

Ég hygg að það séu meginmistökin við þessa lagagerð alla saman að forustumennirnir, sem voru fyrir þessum málum við fyrri umfjöllun, þeir skildu aldrei allir þessar reglur sjálfir, hvorki formenn þingflokkanna né formenn stjórnmálaflokkanna, enda heyrist nú eftir þeim af fundum, sem núna eru haldnir úti á landsbyggðinni, kannske ekki öllum, að eftir þessum reglum verði ekki kosið nema einu sinni. Þá muni menn sjá að þær séu ekki nothæfar, jafnvel sömu mönnunum og voru að smíða þær fyrir nokkrum árum. Ég hafði af þessari ástæðu ekki lagt það á mig að greiða þessu frv. atkvæði og geri það heldur ekki núna.

Það er augljóst mál að til þess að kjósendur geti sæmilega fallist á það og notið þess að fylgjast með kosningum og vera í sambandi við niðurstöður kosninga, hafa sannfæringu fyrir því sem þeir eru að gera á kjördegi, verða reglur að vera með þeim hætti að þær séu öllum mönnum skiljanlegar. Það má ekki vera svo mikil hending innbyggð í slík lög og reglur að það geti hver einasti frambjóðandi verið að túlka það að hann hafi möguleika á því að ná kosningu. Þetta má svo sem kannske til sanns vegar færa. Ef einhver afgangur er má segja, þó að á því séu reyndar þröskuldar, að þannig sé hægt að tala við fólkið í landinu. En ekki bætir það úr allri þessari umræðu þegar menn taka til við það, eftir að vera búnir að samþykkja þetta hér án þess kannske að hafa skilið meginlínurnar í því, að halda blekkingum áfram út í kjördæmunum og í viðræðum við fólkið sem á að fara að velja sér þingmenn.

Ég held að það hefði verið mjög mikilvægt ef það hefði komið fram í grg. með frv. eða í framsögu með málinu að það væri hendingin sem væri látin ráða því hverjir veldust í síðasta sætið, 5. og 6. sætið, í dreifbýliskjördæmunum. Það hefði verið tillitssemi gagnvart fólkinu í landinu að segja það alveg umbúðalaust að það væri hending sem réði því hvernig jöfnunarþingsætunum væri úthlutað. Kannske væri það skásta framkoman og skásta leiðin að draga um þau þingsæti innan hvers og eins þingflokks. Gæti vel verið að það hefði verið skásta leiðin og a.m.k. alls ekki verri en allar þær reikningskúnstir sem hér eru viðhafðar.

Mér þykir fyrir því að umræðan hér í deildinni, trúlega líka í Nd., skuli ekki hafi verið með meira sannfærandi hætti að því leyti að segja fólkinu í landinu sannleikann um þessar reglur því að ég trúi því að þeir menn sem fjalla um þessa tilhögun úr ræðustól viti hvað þetta er meingallað. Það er ekki ástæða til þess að þeir sem hafa ekki sett sig inn í þær, sem er sjálfsagt nokkur hluti af þingheimi, hafi uppi mikla tilburði til að skýra þetta. En það hefði verið góður kostur ef frá frsm. eða í grg. hefðu komið fram skýringar um hvað hér er verið að samþykkja, samþykkja tillögur sem ekki ganga upp við kosningar til Alþingis og sem jafnvel forustumenn fyrir þeim tillögum eru farnir að segja á fundum úti á landi að séu með þeim hætti að ekki verði eftir þeim kosið nema einu sinni. Það er vissulega huggun hanni gegn og er kannske ofurlítil afsökun gagnvart fólkinu sem á að fara að velja nýtt Alþingi, en það er ekki mikilmannlegur málflutningur af hendi höfunda þessara mála að haga tali sínu með þeim hætti.