02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3577 í B-deild Alþingistíðinda. (3168)

197. mál, veiting prestakalla

Frsm. meiri hl. menntmn. (Árni Johnsen):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hl. menntmn. um frv. til laga um veitingu prestakalla. Nefndin hefur fjallað um frv. á tveimur fundum og fengið til viðtals herra Pétur Sigurgeirsson biskup, séra Ólaf Skúlason dómprófast og Þorleif Pálsson deildarstjóra. Eins og fram kemur í grg. með frv. hefur það verið alllengi í smíðum og er vandlega undirbúið. Af hálfu kirkjunnar manna flestra er lögð áhersla á að frv. verði að lögum og hefur kirkjuþing mælt með því.

Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim brtt. sem fluttar eru á sérstöku þskj. Grundvallaratriði í þeim brtt. er að fjölgað sé mönnum sem standa að vali á presti, að ekki sé eingöngu um sóknarnefndarmenn að ræða, aðalmenn, heldur einnig varamenn þeirra. Einnig er áréttað nokkuð um úrskurð og afgreiðslu í höndum biskups ef til þess kemur að lokinni skoðanakönnun um val á presti.