28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í B-deild Alþingistíðinda. (317)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Guðrún Agnarsdóttir:

Herra forseti. Þingflokkur Kvennalistans hefur nýlega misst fullgilda aðild sína að utanrmn. og skilar því ekki nál. í þessu máli. Við höfum hins vegar setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúar og gaumgæft málið vel frá öllum hliðum og sannarlega tekið tillit til þess að mikilvægt er fyrir fámenna þjóð að sýna samstöðu í viðskiptum við stórþjóðir. Þó að slík samstaða sé nauðsynleg er eðli þessa máls hins vegar á þann veg að það gengur gegn stefnuskrá Kvennalistans, en þar segir, með leyfi forseta:

„Við viljum draga úr umsvifum erlends hers meðan hann er hér á landi því aukin hernaðarumsvif hvar sem er í heiminum auka á vígbúnaðarkapphlaupið. Við viljum strangt eftirlit með starfsemi hersins. Við viljum að stjórnvöld skýri undanbragðalaust frá framkvæmdum og herbúnaði Bandaríkjahers hér. Við viljum minnka áhrif hersins í íslensku efnahagslífi svo tryggt verði að afstaða til hans mótist ekki af efnahagshagsmunum. Við viljum að íslenskt atvinnulíf sé óháð veru hersins.“

Þær forsendur, sem ég hef hér tekið fram og koma fram í stefnuskrá okkar, eru svo veigamiklar að okkar mati að þingkonur Kvennalistans munu greiða atkvæði gegn þessu máli.