02.03.1987
Efri deild: 45. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3580 í B-deild Alþingistíðinda. (3170)

197. mál, veiting prestakalla

Skúli Alexandersson:

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt að taka það fram þegar við komum hver á fætur öðrum í ræðustól Alþýðubandalagsmennirnir í deildinni að þetta mál hefur ekki verið tekið til neinnar sérstakrar afgreiðslu í þingflokki Alþb. og við hver fyrir sig þar af leiðandi ekki bundnir neinum flokksaga í sambandi við það, enda sýnist mér að við séum hver með sína skoðun í þessu máli, eins og við erum oftast, og erum frjálslyndir að því leyti til þegar svona mál koma til afgreiðslu. (JK: Frjálslyndi flokkurinn.) Frjálslynda flokkinn mætti kalla það, já.

Ég hef þá skoðun að þetta plagg, sem hér er lagt fram, sé ekki til þess að laga mikið þau vandræði sem fylgja prestskosningum. Ég tek undir að það er alveg rétt að prestskosningar eru leiðinlegustu kosningar sem haldnar eru og hafa oft í för með sér ýmiss konar leiðindi. Það eru dregnir fram kostir og lestir ekki eingöngu umsækjenda heldur leitað oft og tíðum langt fram í ættir þeirra manna sem eru að sækja um þessi embætti til starfs fyrir söfnuðinn. (HS: Heldurðu að það sé ekki gert í öllum kosningum?) Ja, ég held að það sé mikið sárara og harðara gengið að í þessum kosningum en flestum öðrum. Ég hef ekki orðið var við það t.d. í alþingiskosningum að við sem bjóðum okkur fram til þeirra kosninga séum raunverulega gegnumlýstir á sama veg og gert er í prestskosningum.

En ég held að nákvæmlega sama endurtaki sig í sambandi við það frv. sem hér er verið að leggja fram. Það verður bara með öðru sniði. Það verður smalað inn á safnaðarfundi þegar stefnir að því að prestskosningar fari fram í söfnuðinum og þá verða hlutirnir kannske enn þá harðari og ákveðnari og meira sagt þegar kemur milliliður í dæmið. Ég tel því að það réttasta í sambandi við þetta embætti eins og önnur embætti sé að það sé veitt af kirkjumálaráðherra eða biskupi, það sé ekki verið að veltast með þetta á þann veg sem gert hefur verið á undanförnum árum.

Ég tel það algerlega óþarft að vera að semja lagabálk upp á 22 greinar um hvernig sóknarnefnd skuli fara að því að kjósa prest eða hvernig skuli fara að því að fá þennan embættismann til starfa í viðkomandi söfnuði og eðlilegt að prestsstarfið sé veitt á nákvæmlega sama máta og önnur opinber störf, annaðhvort skipað í embættið eða það veitt af ráðherra eða í þessu tilfelli gæti það verið biskup sem sinnti því sjálfsagða starfi. En að velta þessum mönnum upp úr því að vera metnir frammi fyrir því fólki sem á að njóta þjónustu þeirra út frá sögusögnum sem berast um þá, jafnvel um æskustörf þeirra og eins og ég sagði áðan jafnvel ekki eingöngu um þeirra eigin störf heldur um ættmenni þeirra og útfrændur.

Ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði og tel það til lítilla bóta. Það er aðeins verið að breyta um vettvang til að halda þeirri umræðu áfram sem á sér stað þegar prestskosning fer fram. Til viðbótar við það er í fjöldamörgum prestaköllum oftast nær aðeins einn umsækjandi. Hvað er þá verið að setja það sjónarspil á svið að kjósa þennan eina mann sem undir flestöllum kringumstæðum fær starfið?

Það er nú verið að setja það sjónarspil á svið að fá sem flesta úr sókninni til að kjósa manninn til að gefa honum einhvern sérstakan stimpil. Ef hann fær ekki löglega kosningu er því hvíslað á milli manna að maðurinn hafi ekki notið stuðnings. Vitaskuld er þetta algerlega óþarft og alveg út í bláinn. Þess vegna á að stíga skrefið til fulls og hverfa frá prestskosningum, bæði í þeirri mynd sem þær eru í núna og eins í þeirri mynd sem er lagt til í frv.