28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég nýt nú þess heiðurs að sitja á mínu níunda þingi. Ég hef fylgst með þingstörfum hér nokkuð grannt, setið hérna fundi sæmilega, en hef hins vegar í dag orðið vitni að athyglisverðri nýjung sem ég vil biðja þingheim um að festa sér í minni og skrifa niður hjá sér í dagbækurnar miðað við 28. okt. 1986. Menn geta þá haldið því til haga, þessari miklu nýjung, þegar þeir fara að tína saman ævisöguna sína einhvern tímann á næstu öld þegar við komumst á sæmilega virðulegan aldur.

Þannig háttar venjulega til hér í þinginu að ráðherrar mæla fyrir stjórnarmálum og þm. stjórnarflokka tala svo gjarnan fyrir nál., meiri hl. þegar nefndir skiptast, síðan svara ráðherrar yfirleitt athugasemdum sem fram koma frá minni hl. eða stjórnarandstöðu. Og nú kem ég að þessari miklu nýjung í störfum Alþingis en hún er sú að í stað þess að hæstv. ráðherrann svari, sem er þó örugglega maður til að svara fyrir sig, þá koma tveir menn úr stjórnarandstöðunni til að svara fyrir ráðherrann. Þetta er nýjung. Tímamót. Að ég segi ekki alger straumhvörf í störfum Alþingis þegar hv. þm. Kjartan Jóhannsson „aðstoðarutanríkisráðherra“ og hv. þm. Karl Steinar Guðnason „aðstoðarutanríkisráðherra nr. 2“ taka það að sér að svara fyrir hæstv. utanrrh. Ég tek eftir því að hæstv. ráðherra ætlar ekki að fara að eyða miklum tíma í það að svara vegna þess að það er búið að svara fyrir hann og hans menn. Alþfl. hefur tekið þetta hlutverk að sér. Þessi nýjung er býsna athyglisverð.

Ég vil taka það fram af hálfu Alþb. að það kemur ekki til greina að við tökum þessa hætti upp af okkar hálfu til þess að hjálpa og taka undir með núv. ríkisstjórn.

Hv. þm. Karl Steinar Guðnason var að velta því fyrir sér hvað ætti að kalla hlutina, í framhaldi af umræðu um „aronsku“. Hann vildi gefa málflutningi nafn með því að kenna þau við þm. Alþb. En þessi nýjung, þessi byltingarkennda nýjung, sem hér hefur verið kynnt í dag, hún heitir náttúrlega ekkert annað en „Varðbergspólitík“ og „hægri kratismi“. Hérna eru menn að innsigla hina heilögu trúlofun íhaldsins og Alþfl. í utanríkismálum, þar sem gengur yfirleitt ekki hnífurinn á milli, nema ef það væri þá þannig að þeir Alþýðuflokksmenn, sumir, eru heldur hægra megin við íhaldið, hægra megin við miðju a.m.k. ef eitthvað er.

En það var ekki þetta, herra forseti, sem ég ætlaði aðallega að ræða um í sambandi við þennan samning, þó þessi nýjung sé athygliverð, heldur hitt að hér er líka að gerast nýjung að því leytinu til að hér er lögð fram till. um að enskur texti hafi lagagildi. Enskur texti hafi lagagildi.

Hv. 4. þm. Norðurl. v. sagði: „Íslenski textinn hefur ekki lagagildi.“ Það er enski textinn sem blífur. Það er hann sem á að ráða úrslitum. Ef túlkunardeilur kæmu upp á milli viðkomandi aðila, samningsaðila, þá er það enski textinn, mál herraþjóðarinnar, sem á að ráða. Hér eru menn stundum að halda langar ræður um nauðsyn þess að varðveita íslenskt mál, íslenska menningu og íslenskan menningararf og leggja rækt við forsendur þjóðernis Íslendinga. M.a. hæstv. menntmrh. setur á þing, fundi, ráðstefnur, til þess að vekja athygli á þeim vanda sem íslenskt mál á við að etja í þeim miklu breytingum sem nú eru að ganga yfir í fjölmiðlaheimi í kringum okkur og hitta okkur sjálf fyrir í þessu örsmáa málsamfélagi sem Ísland er. En á sama tíma og hæstv. menntmrh. kallar til þinga í Þjóðleikhúsi eða annars staðar til að ræða um vanda íslenskrar tungu í þessum heimi sviptinganna, þá flytur hann till. um að enski textinn hafi lagagildi. Enski textinn hafi lagagildi.

Menn vita mína afstöðu til þessa plaggs. Hún liggur fyrir. En er ekki einn einasti maður hér í meiri hlutanum, kratanna og stjórnarliðsins, sem er tilbúinn til þess að segja: hingað og ekki lengra; við samþykkjum ekki svona plagg - vegna þess að hér er verið að ákveða að enskur texti hafi lagagildi? Er ekki döngun í einum einasta manni hér í þessum sal í þessu efni? Er allt orðskrúðið, ræðurnar, fundirnir, þingin, ráðstefnurnar, sem hæstv. menntmrh. hefur beitt sér fyrir, er það meiningarleysa, innihaldslaust, gervimennska, eða hvað? Það heyrist hvergi tíst í þessum sal í þessa veru úr þessum meiri hluta sem hér ætlar að fara að neyða þingið til að samþykkja það að enski textinn hafi lagagildi. Er ekkert orðið eftir í þessu fólki, eða hvað? Getur það ekki brugðist við sæmilega mennilega og sagt hingað og ekki lengra, við heimtum að á þessum málum sé tekið með eðlilegum hætti? Eins og ber að gera á löggjafarsamkomu Íslendinga. - Íslendinga? Mér er spurn, herra forseti.