02.03.1987
Neðri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3591 í B-deild Alþingistíðinda. (3199)

316. mál, flugmálaáætlun

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er á ferðinni allmerkilegt mál sem ástæða er til að fagna. Í þessari áætlun, sem hér er lögð fram, kemur fram, auk þeirrar stefnumörkunar sem í frv. felst, verulega mikið af gagnlegum upplýsingum sem safnað hefur verið saman um flugsamgöngur á Íslandi og er ástæða til að láta í ljósi ánægju með þá vinnu sem að baki liggur að flestu leyti. Ég hygg að hún geti lagt grunn að gagnlegri stefnumörkun. Alla vega geta menn rætt þessi mál í framhaldi af þessari upplýsingasöfnun af talsvert meira skynsamlegu viti en áður var hægt.

Það er orðið mjög brýnt, um það eru víst flestir sammála sem eitthvað ferðast innanlands með flugi, að gera verulegt átak til úrbóta í flugsamgöngunum. Ég hygg að með þeirri áætlun sem hér er flutt frv. um, ef framkvæmd verður, yrði stigið stórt skref til að koma mannvirkjum í þessum samgönguhætti í það horf sem viðunandi teldist innanlands.

Það eru nokkur atriði sem mig langar á þessu stigi að gera athugasemdir við eða ræða ofurlítið nánar. Það er í fyrsta lagi kaflinn um flokkun flugvalla. Það er út af fyrir sig gagnlegt að leggja niður fyrir sér einhverja flokkun eða uppskiptingu flugvallanna eftir mikilvægi eins og staða þeirra er nú. Ég legg sérstaka áherslu á tvennt í því sambandi. Það er í fyrsta lagi að menn festi sig ekki um of í því að flokka niður flugvellina miðað við þá umferð og þær aðstæður sem ríkjandi eru einmitt nú, í flokka sem eiga síðan að ráða miklu um uppbyggingu þeirra í framtíðinni. Það þarf a.m.k. að vera tryggt að ef aðstæður breytast sé ekkert því til fyrirstöðu að færa flugvelli upp á milli flokka, til að mynda flugvelli úr flokki 2 upp í flokk 1 og úr flokki 3 upp í flokk 2.

Ég tel orka tvímælis til að mynda að ákveða það og festa það niður í áætlun af þessu tagi að setja Húsavíkurflugvöll og Vestmannaeyjaflugvöll í flokk 2 á sama tíma og til að mynda Sauðárkróksflugvöllur er settur í flokk 1. Ef við skoðum tölur um umferð um þessa flugvelli er það þannig að um Húsavíkurflugvöll fóru á árinu 1985 á sautjánda þúsund farþegar og tæp 300 tonn af vörum og pósti. Um Vestmannaeyjaflugvöll fóru á sama ári yfir 50 þús. farþegar og um 250 tonn af vörum og pósti. En farþegaumferð um Sauðárkróksflugvöll var nokkru minni en til að mynda um Húsavíkurflugvöll.

Húsavíkurflugvöllur liggur mun lengra frá Reykjavík og þar er um lengri veg að fara á landi til höfuðborgarsvæðisins og einnig eru í nágrenninu margir mjög þýðingarmiklir staðir í ferðamannaiðnaðinum íslenska, þangað sem jafnvel meiri hluti erlendra ferðamanna á landinu kýs að leggja leið sína. Þess vegna er að mínu viti ýmislegt sem bendir til þess að mikilvægi þessa flugvallar gæti farið vaxandi í framtíðinni. Ég tel því orka tvímælis að ákveða með þessum hætti að það sé í öðrum flokki og þar sé gert ráð fyrir styttri flugbraut til að mynda en á Sauðárkróksflugvelli og Akureyrar-, Egilsstaða- og Reykjavíkurflugvöllum ef út í það er farið. Það mætti jafnvel nefna fleiri flugvelli, svo sem eins og höfuðflugvöll fyrir suðursvæði Austfjarðanna, Hornafjörð, o.s.frv.

Ég vil því spyrja hæstv. samgrh. hvaða áherslu hann leggur á þessa flokkun og hver er hans skilningur á því að flugvellir geti færst til milli flokka ef aðstæður breytast eða skynsamlegt verður talið.

Ég vil sérstaklega í þessu sambandi ítreka að það er mikilvægt að menn standi þannig að uppbyggingu þessara flugvalla hvað varðar burð og hönnun alla að ef aðstæður breytast verði unnt að lengja og breikka flugbrautir þannig að vellirnir geti færst upp á milli flokka og tekið við stærri flugvélategundum ef framtíðin kallar á slíkt.

Í þessu sambandi væri einnig freistandi að ræða þá möguleika t.d. til útflutnings á ferskum matvælum sem góðar, fullnægjandi flugbrautir geta skapað í viðkomandi landshlutum. En ég ræði þetta ekki frekar, a.m.k. ekki að svo stöddu.

Hvað varðar fjáröflun til þessara mála er í sjálfu sér eðlilegt að gerð sé tillaga um nokkra skattheimtu til þessa málaflokks. Í því sambandi er þó óhjákvæmilegt að benda á að flugfargjöld eru dýr og það er verulegur kostnaður sem fólk á afskektum svæðum leggur á sig, til að mynda á norðausturhorni landsins, sem þarf að taka sér far með tveimur flugvélum og skipta um á Akureyrarflugvelli ef það ætlar frá sinni heimabyggð til Reykjavíkur. Fólk af þessum landsvæðum þarf að greiða verulegan pening fyrir flugfarseðla. Það hljóta að vera veruleg takmörk fyrir því hvað unnt er, réttlætanlegt og skynsamlegt að hækka fargjöld jafnvel þó um jafnágæta fjáröflun og til flugmálanna sé að ræða. Ég held að þarna þurfi menn að rata eitthvert meðalhóf. Það hefur í sjálfu sér ekki mikið með uppbyggingu flugvalla eða flugsamgöngumannvirkja að gera ef flugfargjöldin verða svo dýr að enginn geti notað sér þjónustu flugfélaganna. Ég held þess vegna að það sé óhjákvæmilegt að af almennum skatttekjum ríkisins úr opinberum sjóði renni jafnframt nokkurt fé til uppbyggingar þessara mála eins og fjölmargra annarra þátta í þjónustunni.

Auðvitað tek ég undir að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta á sviði flugsamgangna geta ekki ætlast til þess að þeir leggi ekki eitthvað af mörkum, en ég skil vel áhyggjur þeirra yfir því að ekki verði gengið of langt í skattheimtunni vegna þess að flugfargjöld eru nú þegar mjög dýr, a.m.k. hér innanlands og til Norðurlandanna og Evrópu. Þess vegna verður að stilla skattheimtu, sem eingöngu leggst á þessa hluta flugsins, í hóf. Ég hefði talið æskilegt ef náðst hefði um það samstaða hér, til að mynda eins og brtt. var flutt um í virðulegri Ed. á þskj. 684, að framlag ríkisins á fjárlögum yrði lögfest sem eitthvert hlutfall af hinum mörkuðu tekjustofnum til flugmálanna. Í því sambandi er líka rétt að minna á örlög langtímaáætlunar um vegagerð og þann niðurskurð sem þar hefur verið beitt. Við stöndum frammi fyrir því á þessu herrans ári 1987 að framkvæmdir í vegamálum eru eingöngu fjármagnaðar með hinum mörkuðu tekjustofnum. Áætluð framlög úr ríkissjóði eru þar komin ofan í núll. Þess vegna tel ég of opið orðalag 16. gr. frv., eins og það væntanlega er enn þá eftir umfjöllun í Ed., að til greiðslu kostnaðar, með leyfi forseta, samkvæmt flugmálaáætlun skuli auk þeirra tekna sem aflað verður samkvæmt ákvæðum laga þessara veita sérstakt framlag á fjárlögum. Þetta er ansi opið að mínu mati. Þarna hefðu þurft að vera skýrari ákvæði t.d. um hlutfall af þeim tekjustofnum sem markaðir eru til flugmálanna. Ég spyr hæstv. samgrh. hvað honum sýnist um þá tilhögun að reyna með einhverju móti að festa þessi ákvæði í 16. gr. betur í lögunum eða hafa þau ítarlegri þannig að tryggt verði að örlög þessarar flugmálaáætlunar verði önnur og betri en vegáætlunarinnar og framkvæmdir verði ekki skornar niður með sama hætti.

Það er, herra forseti, tvímælalaust kostur að fá hér tillögu að langtímaáætlun um uppbyggingu flugsamgangna. Það er enginn vafi að vegamálin hafa notið góðs af þeirri samstöðu sem náðist um langtímaáætlunina á sínum tíma. Ég hygg að það þyrfti að vinna að fleiri þáttum í opinberri mannvirkjagerð og í opinberum framkvæmdum með þessum hætti. Það er einnig kostur að nú skuli liggja fyrir tillaga að langtímaskipulagi við uppbyggingu flugsamgangnanna vegna þess að það gerir kleift og mögulegt að horfa samtímis til fleiri þátta í samgöngumálunum í einu. Ég er þeirrar skoðunar og hef reyndar flutt um það till. á hv. Alþingi að það ætti að hefja sérstaka vinnu af hálfu opinberra aðila til að lita til allra hinna mismunandi þátta samgangnanna í einu, og jafnvel til meiri háttar mannvirkjagerðar einnig, þannig að reynt væri að horfa á samhengi hlutanna í þessum efnum og tryggja sem eðlilegast samspil mismunandi þátta samgöngumálanna. Þetta er verið að gera og hefur reyndar um margra ára bil verið gert víða í nálægum löndum, tvímælalaust með góðum árangri. Þannig reyna menn að tryggja að ekki verði um tvíverknað og óþarfan kostnað að ræða vegna þess að menn viti ekki hver af öðrum í þessum efnum. Í því tilliti er það, herra forseti, tvímælalaust ávinningur að fá jafnframt slíka áætlun um flugmálin eins og fyrir hefur legið og fyrir liggur um uppbyggingu vegamálanna. Og ég vísa aftur í þáltill. sem er 376. mál Sþ.

Í þeirri vinnu sem hér er að skila sér í formi frv. og flugmálaáætlunar var nokkuð fjallað um staðarval fyrir svonefndan varaflugvöll. Ég leyfi mér að segja að þó að þessi skýrsla og þessi vinna sé ekki ýkja gömul sé sú vinna að nokkru leyti þegar orðin úrelt vegna þess að nú liggja fyrir nýjar upplýsingar. Er þar um að ræða þá ákvörðun sem þegar hefur verið tekin í raun um uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar sem er sérstök ástæða til að fagna í þessari umræðu. Það er tvímælalaust eitt brýnasta ef ekki albrýnasta forgangsverkefni í íslenskum flugmálum að byggja upp þann flugvöll fyrir flugsamgöngur í Austfirðingafjórðungi og ég vona að allir þm., hvaðan af landinu sem þeir koma, geti orðið sammála um það. Það er engin spurning í mínum huga, og ég hef reyndar sagt það fyrir löngu á hv. Alþingi, að það eigi að byggja þennan flugvöll upp með tilliti til þess að hann geti þjónað varaflugvallarhlutverki. Þar er ekki um annað að ræða en að tryggja að þegar flugbrautin verður hönnuð og undirbyggð verði þannig gengið frá málum að hún geti í framtíðinni fullnægt sem varaflugvöllur, hún geti borið svo stórar flugvélar og hönnun hennar og staðsetning geri kleift að í fyllingu tímans verði þar um fullnægjandi og fullbúinn varaflugvöll að ræða.

Ég vil jafnframt í þessu sambandi minna á tillöguflutning hér á Alþingi um að skoða möguleika Akureyrarflugvallar til að þjóna þessu varaflugvallarhlutverki á meðan og jafnframt. Það er að sjálfsögðu í þessari áætlun gert ráð fyrir að veruleg framþróun verði á Akureyrarflugvelli sem eðlilegt er þar sem um er að ræða langmikilvægasta flugvöll innanlandsflugsins utan Reykjavíkur. Þess vegna er það mín skoðun, og ég hygg að þessi áætlun í raun staðfesti það, að innan tíðar getum við Íslendingar lagt til hliðar deilur og misjafnlega frjótt rifrildi um hvar eigi að staðsetja svonefndan varaflugvöll vegna þess að við höfum þá frekar tvo en einn þar sem bæði Akureyrarflugvöllur og hinn nýi flugvöllur við Egilsstaði verði tilbúnir vonandi innan fárra ára til að þjóna sem varaflugvellir fyrir flugflota íslensku flugfélaganna og þeirra erlendra flugfélaga sem halda uppi áætlunarflugi yfir hafið í kringum okkur. Í því sambandi er einnig rétt að minna á þá ákvörðun sem stærsta flugfélag landsmanna, Flugleiðir hf., er að taka þessar vikurnar um endurnýjun á flugflota sínum, en allar vísbendingar eða fréttir sem þaðan hafa komið benda til þess að við endurnýjun flugflotans verði einmitt sú breyting á samsetningu hans er geri kleift að nota minni flugvelli sem varaflugvelli og þar með jafnvel Akureyrarflugvöll nánast óbreyttan frá því sem hann er nú.

Ég tel einnig, og vil taka það fram, að jafnframt hljóti menn að skoða flugvelli eins og Sauðárkróksflugvöll og Húsavíkurflugvöll í Aðaldalshrauni með það í huga að þeir jafnframt og einnig geti orðið slíkir flugvellir í framtíðinni: Það er tilfinning mín og margra fleiri, herra forseti, að mikilvægi flugvalla aukist ekki bara sem samgöngutækja fyrir farþegaflug heldur jafnframt sem liðar í breyttum atvinnuháttum þar sem inn koma hlutir eins og útflutningur á ferskum fiski eða eldisfiski og jafnvel öðrum ferskum matvælum og inn- og útflutningur af slíku tagi kemur til sögu.

Þá er mikilvægt að sem flestir flugvellir sem þjóna sem meiri háttar héraðs- eða landshlutaflugvellir séu þannig í stakk búnir að þeir geti tekið við stærri flutningavélum þegar svo ber undir. Það er einnig næsta ljóst að það verður í framtíðinni vaxandi að stærri farþegaþotur, stærri farþegaflugvélar, grípi inn í innanlandsflug á annatímum, um jól, páska og aðra slíka annatíma, og einnig gæti komið til aukið leiguflug til staðbundinna verkefna. Það er að mínu viti tvímælalaust rétt að stefna að því að flugvellir í öllum landsfjórðungum og stærstu héraðsflugvellirnir verði byggðir þannig upp í framtíðinni að þeir geti þjónað slíku hlutverki.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð mín fleiri að sinni, en ég ítreka aftur spurningar mínar til hæstv. ráðh. og beini því jafnframt til þeirrar nefndar sem fjallar um þetta mál að hyggja sérstaklega að flokkun flugvallanna og ákvæðum um fjármögnun.