02.03.1987
Neðri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3600 í B-deild Alþingistíðinda. (3202)

316. mál, flugmálaáætlun

Garðar Sigurðsson:

Virðulegi forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta mörg orð. Það hafa komið fram ýmsar ábendingar. Flest er það í jákvæðum tóni sem betur fer, enda finnst mér full ástæða til þess að gleðjast yfir því að þetta mál skuli vera komið inn í þingið og stefnt að því að það verði afgreitt.

Flugmálanefnd hefur sem sagt skilað skýrslu um flugmálin og þar á meðal um framkvæmdir í flugmálum til 10 ára. Það er nú eins með þessa áætlun og aðrar að mönnum finnst sjálfsagt misgott það sem fram kemur í henni enda auðvelt að endurskoða sumt af því ef brýnt þykir. Ég legg á það áherslu að sú áætlun sem hér liggur á borðum hv. þm. verði ekki pappírsgagnið eitt, heldur fáist fé til þess að framkvæma áætlunina og það á ekki lengri tíma en 10 árum. Það var nefnilega samið hér ákaflega merkilegt plagg fyrir 10 árum eða svo. Það var flugmálanefnd starfandi á árunum 1974 eða 1975 til 1978 og skilaði þá mjög vönduðu verki. Ég þekkti svolítið til þess vegna þess að ég átti sæti þá í flugráði og ég held ég megi segja það að ef, ég segi ef, peningar hefðu fengist þá til þess að vinna það verk eftir þeirri áætlun væru flugvellir orðnir fullnægjandi og góðir og aðstæður miklu betri en við þurfum að horfast í augu við nú.

Einn hv. þm. nefndi að ekki hefði verið mikið gert í þessum efnum í tíð núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Það má svo sem vera að það sé ekki mikið. Þessi áætlun liggur þó fyrir. En ég minnist þess ekki að menn hafi lagt sig eftir slíkri áætlanagerð fyrr en nú síðan flugmálanefndin vann sitt verk á tíma ríkisstjórnarinnar frá 1974 til 1978. Þannig fór nú með hina merku skýrslu flugmálanefndar frá 1978 að hún reyndist vandað verk og ekkert meira vegna þess að það vantaði peningana til þess að framkvæma hlutina. Nú hefur hæstv. samgrh. ekki aðeins látið útbúa áætlun af þessu tagi, sem er þokkaleg að mínum dómi, hann hefur ekki látið þar við sitja heldur bent á hvar á að fá peninga til þess að framkvæma hlutina. Og það er það sem skiptir auðvitað mestu máli. Ég heyri það á athugasemdum hv. þm., sem hér hafa talað, að þeir segja að flugvöllurinn hjá þeim sé í vitlausum flokki og ætti að vera hærra skrifaður. Það er dálítill misskilningur hjá þessum hv. þm. vegna þess að það er ekkert verið að lögfesta neina ákveðna röð í flokka á flugvöllum. Flugvöllunum er ósköp einfaldlega raðað eftir lengd og ástandi eins og það er og það segir ekkert um það að hvaða flugvöllur sem er geti ekki farið upp í næsta flokk.

Mér finnst það dálítið einkennilegt þegar hv. alþm. tala mikið um það að leggja þurfi á einhverja skatta til þess að fá nægilegt fé til framkvæmda á sama tíma og einn hv. alþm. segir að við þurfum að hafa flugvelli úti um land sem geti tekið stórar og þungar flutningavélar og að það sé ekki nægilegt annað en að hafa marga flugvelli um allt land sem geti tekið stórar þotur. Hver vildi það nú ekki? Það er auðvitað ekkert rangt við þá hugsun. En hún passar ekki vel saman við það þegar menn vilja ekki taka einhverja skatta til þeirra framkvæmda sem nú eru á döfinni. Og ef um stóra þotuflugvelli væri að ræða á mörgum stöðum á landinu er ég hræddur um að það þyrfti að margfalda þá upphæð sem í þetta verkefni færi.

Herra forseti. Það hefur nú til langs tíma verið heldur lítið skammtað til framkvæmda í flugmálum. T.d. er framkvæmdafé til flugmála 1975 0,42% af niðurstöðu fjárlaga. Í því hangir þessi tala, liðlega 0,4% af niðurstöðu fjárlaga, til ársins 1982. Þá fellur kúrfan snöggt niður. Ef þannig verður að staðið að við fáum sem svarar liðlega 200 millj. kr. á ári í 10 ár ætti þessi viðmiðun að verða miklu hagstæðari fyrir flugið.

Það er oft erfitt að fljúga hér á Íslandi þar sem skiptir um veður kannske tvisvar til þrisvar á dag. Ég verð að segja það af kynnum mínum við stærsta flugrekandann í landinu, Flugleiðir, að í öllum höfuðatriðum hafa þeir, að mínum dómi, staðið sig mjög vel. Menn hafa einnig bent á að það vantaði betri þjónustu og betri aðstöðu fyrir flugfarþega og ég get tekið undir það. Ég vil benda hv. alþm. á að íhuga hvað hefur þó lagast á síðustu 10 árum í þessum efnum. Ástæðan fyrir því að ekki hefur verið gert meira í þessum málaflokki er auðvitað ekkert annað en peningaleysi. Það er ekki nóg að útbúa góðar áætlanir. Það verður fyrst og fremst að sjá til þess að peningarnir fáist til þess að vinna þessa áætlun á réttum tíma og að ekki verði slakað á því að það væri sorglegt ef það ætti að endurtaka sig að þurfa að búa til nýja framkvæmdaáætlun að tíu árum liðnum eins og skeði 1978.