02.03.1987
Neðri deild: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3601 í B-deild Alþingistíðinda. (3203)

316. mál, flugmálaáætlun

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. sem hér hafa rætt málefnalega um þetta frumvarp og flugmálaáætlun og fjáröflun fyrir þeirra framlag til umræðunnar. Raunar leiðrétti hv. 4. þm. Suðurl. misskilning í sambandi við flokkun flugvalla en hann átti sæti í þessari nefnd. Í 3. gr. eru ákvæði um það hvernig áætlunarflugvöllum skuli skipað í flokka. Þar með er ekki sagt að sú skipan eigi að standa um aldur og ævi eða í langan tíma. Það fer eftir því hvað veitt er, hvað framkvæmt er, hvaða breytingar eru gerðar og eftir þeim forsendum sem segir í flugmálaáætluninni. Þó að í dag séu það þessir vellir sem hér eru nefndir þýðir það ekki að ekki verði breyting á því þegar þörf krefur. Vitaskuld verða þarna breytingar þegar á næstu árum. Það fer bæði eftir umfangi flugvallanna, eftir farþegafjölda og eftir því hve mikil þörf er. Eftir því sem þörfin eykst verða gerðar samkvæmt þessu úrbætur.

Hér hefur verið talað nokkuð um vegamálin, þeim blandað inn í þetta og það er kannske ekkert óeðlilegt að það sé gert. Það er rétt að í þáltill. til vegamála er eingöngu byggt á mörkuðum tekjustofnum. Ég lagði fram tillöguna til vegamála um það að framlög yrðu miðuð við 2,4% af vergri þjóðarframleiðslu næstu þrjú ár fyrir utan þetta ár.

Það þýðir að það vantar á næsta ári 1380 millj. kr. miðað við þá mörkuðu tekjustofna sem fyrir hendi eru og rúmar 1400 millj. kr. á árinu 1989 og 1440 millj. kr. á árinu 1990. Það náðist ekki um það samkomulag að auka þessa fjármuni til vegagerðar. En vegna þess sem ég sagði við framlagningu till. og í framsöguræðu geng ég ekki til baka með það að það er brýn nauðsyn á að auka þetta fjármagn. Ég nefndi í minni framsögu fyrir vegáætlun að ég hefði áður flutt tillögu um það að nota hluta af lækkun bensínsins til að auka framkvæmdir í vegamálum en um það náðist ekki samkomulag. Ég bætti því jafnframt við að ég tel að ekki verði hjá því komist að leggja aukið framlag til vegamála umfram þessa mörkuðu tekjustofna. Ég tel að það eigi að skipta þessari viðbót með þrennum hætti. Í fyrsta lagi á að taka 1/5 af þeirri upphæð til brýnna verkefna hér á höfuðborgarsvæðinu sem er að komast í algjört óefni og ættu þá þm. höfuðborgarsvæðisins að koma til liðs við þessa tillögu, og til mjög brýnna verkefna í jarðgangagerð. Þar er næsta verkefnið jarðgöng í Ólafsfjarðarmúla sem þurfa miklu frekari framlög en gert er ráð fyrir í þessari áætlun. Og í þriðja lagi að auka framlög til brúabygginga sem vantar mikið á að séu viðunandi að mínum dómi. Ég veit ekki um hvað þm. geta orðið sammala ef það er ekki að skipta þessu viðbótarframlagi í grófum dráttum með þessum hætti. En við vitum að það eru til þm. sem segja að of miklu fjármagni sé veitt til vegamála og vilja ekki auka það. Og það eru til þm. sem m.a.s. vilja fresta framkvæmdum í vegamálum í heilt ár. Ef þeir eru mjög margir sem þannig er ástatt með og hafa þetta hugarfar, þá er ekki hægt að tala um það að hægt sé að auka framkvæmdir.

En ég ætla að benda mönnum á eitt. Hér hefur verið farin alveg ný leið. Sú breyting sem ég gerði á þessu frv. var með þeim hætti að ég tek aftur út úr flugstöðvarbyggingu í Reykjavík og set þær tekjur, sem nefndin lagði til að til hennar færi, í almennar framkvæmdir í flugmálum sem ég tel að hafi verið skynsamlegt að gera því það liggur meira á því. Ég er ekkert að mæla gegn nýrri flugstöð í Reykjavík, það er nauðsyn á henni, en hún getur frekar beðið.

Ég tel það mikils virði að afla tekna af öllum farþegum, líka á Keflavíkurvelli. Nefndin í Ed. mætti mjög mikilli andstöðu við það ákvæði frá fulltrúum sem komu á fund nefndarinnar þaðan, sem nefndarmenn gengu ekki inn á sem betur fer. Við erum að byggja stóra, myndarlega og glæsilega flugstöð, ekki fyrir þá á Suðurnesjum heldur fyrir landið allt, og er þar um fjárfreka framkvæmd að ræða. Og þá verða þeir sem þess njóta líka að taka þátt í þessari uppbyggingu.

Það er eitt sem ég vil benda hv. þm. á. Sá er munur á framlögum til vegamála og flugmála að framlög til vegamála eru öll inni í þál. til vegamála en ekkert inni að öðru leyti. Rekstrarkostnaðurinn er allur þar. Hann er það hins vegar ekki í flugmálum. Þar er rekstrarkostnaðurinn allur greiddur úr ríkissjóði. Þegar við tölum um framlög til flugmála, þá verðum við að tala um þau í heild. Og hafa framlög við þennan málaflokk stóraukist á síðustu árum vegna þess að rekstrarliðirnir, öryggisstarfsemin á flugvöllunum hefur stórhækkað og ráðnir hafa verið fleiri starfsmenn til Flugmálastjórnar en í flestum öðrum slíkum málaflokkum vegna þess að það var þörf á því. Á sumum stöðum voru þetta meira áhugamenn, en það er ekki hægt að búast við því að menn sinni áhugamennsku sinni og geti lifað af henni svo að þarna hefur verið gerð veruleg breyting. Og yfirleitt öll rekstrarleg starfsemi Flugmálastjórnar hefur að mínum dómi komist í mjög gott ástand.

Við hefðum kosið að framkvæmdafé hefði verið meira, en nú var farið í byggingu flugstöðvar á Keflavíkurvelli og ef við bætum þeirri framkvæmd við flugmálaframkvæmdir, þá fara þau framlög langt fram úr því sem áður hefur verið.

Það hafa náðst töluverðir áfangar víða. Við höfum tekið í notkun nýjar flugstöðvar á áætlunarleiðum. Að vísu var það alveg um það bil sem þessi ríkisstjórn tók við sem tekin var í notkun flugstöð í Hornafirði, en það hafa verið teknar í notkun flugstöðvar í Stykkishólmi, á Patreksfirði, Þingeyri og í Aðaldal eða Húsavík, svo dæmi séu nefnd. Það hefur mikið verið gert í öryggismálum. Tekin hefur verið í notkun ný slökkvistöð hér á Reykjavíkurflugvelli, sem var brýn nauðsyn á að byggja og koma í gagnið, svo að það hefur náðst að verulegu leyti árangur. (GJG: Brann ekki ofan af slökkviliðinu á Reykjavíkurflugvelli?) Það held ég ekki. Það er til enn þá byggingin þar sem það var til húsa. Þetta getur ekki brunnið, hv. þm., það er allt úr steinsteypu nema þá þakið.

Í sambandi við það sem hv. 5. þm. Austurl. sagði varðandi fargjöldin. Mönnum þykir nú alltaf mikið þegar þeir borga, um það getum við alltaf verið sammála. En þá verðum við auðvitað að líta á hvað þessi starfsemi kostar. Innanlandsflug hjá þessum stærri félögum eins og Flugleiðum hefur verið rekið eiginlega áratugum saman með halla þegar á heildina er litið. Það eru erfiðar aðstæður til flugs og margt ógert á flugvöllum sem kemur í framtíðinni til með að verða bæði þessu félagi og öðrum til góðs. Ég held að það hafi verið mikill tröppugangur á því hvernig hinum minni félögum hefur vegnað, en þó er það heldur í áttina. Eftir því sem samgrn. gerir frekari kröfur til flugfélaga um þjónustu á flugvöllum og flugstöðvum, þá erum við um leið að ýta undir meiri kröfugerð um fargjöld. Hins vegar höfum við ekki með það að gera, heldur eru það verðlagsyfirvöld. Verðlagsstofnun tekur beiðnir flugfélaganna til afgreiðslu og þessi hækkun, sem varð núna, var samþykkt með samhljóða atkvæðum þannig að það var fallist á þau rök og þau gögn sem Flugleiðir lögðu fram. Þessu hefur verið haldið niðri, oft mjög lengi, og stundum getur það verið varhugavert að ganga of langt í þeim efnum. Ef við lítum á fargjöld hér og í nágrannalöndum okkar, alveg sérstaklega í Danmörku, og þó að við tökum ekkert tillit til lengdar flugleiða, þá erum við mun lægri hér en þar.

Varðandi varaflugvöllinn, sem segja má að hér sé slegið á frest, þá er það að gerast í þeim efnum að málið verður skoðað af Flugmálastjórn. Þessir sex vellir sem hafa verið nefndir, talið að vestan Blönduós, Sauðárkrókur, Akureyri, Húsavík eða Aðaldalur, Egilsstaðir og Hornafjörður, verða athugaðir. Þessi athugun verður framkvæmd af Flugmálastjórn og hefur verið sótt um aukafjárveitingu til hennar nú nýlega. Þá liggur þetta fyrir. Það eru margvísleg gögn og margvísleg rök sem þegar liggja fyrir sem verða þá skoðuð af Flugmálastjórn, ráðuneyti og fleirum þegar þar að kemur.

Ég tel að með þessari fjáröflun séum við að tryggja það að Alþingi taki það ekki af, eins og hefur æði oft tíðkast, ekki eingöngu í tíð þessarar ríkisstjórnar heldur einnig í tíð fyrrverandi ríkisstjórna. Hér með er mörkuð skýr, ákveðin stefna sem tryggir þetta fjármagn og er miklu tryggara en fjármagnið til Vegagerðarinnar, sem ég fyrir mitt leyti hef miklar áhyggjur af, eins og útlitið er núna. Hins vegar verð ég að segja að fjármagnið, sem Vegagerðin hefur haft til umráða, hefur verið vel nýtt og árangurinn hefur verið undraverður miðað við þær upphæðir sem úr hefur verið að spila.

Ég vænti þess að hv. samgn. þessarar hv. deildar reyni eins og föng eru á að hraða afgreiðslu þessa máls, þannig að þetta frv. verði lögfest og væntanlega þá að afgreiðsla verði innan tíðar í Sþ. á þáltill. um byggingu nýrrar flugbrautar á Egilsstöðum.