03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3604 í B-deild Alþingistíðinda. (3205)

356. mál, framtíð rásar tvö

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 639 að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um framtíð rásar tvö. Ríkisútvarpið hóf útsendingar á rás tvö 1. des. 1983. Þar með var landsmönnum boðið upp á val milli tónlistarútvarps og hefðbundinnar dagskrár Ríkisútvarpsins sem nú nefnist rás eitt. Með útvarpslögum nr. 68/1985 var einkaréttur Ríkisútvarpsins afnuminn og öðrum aðilum veitt leyfi til útvarps. Útvarpsstöðvar í einkaeign hófu hljóðvarpsútsendingar á þéttbýlustu svæðum landsins á s.l. hausti. Þessar stöðvar byggja afkomu sína að mestu eða öllu leyti á auglýsingatekjum. Það er ljóst að með tilkomu þeirra hafa tekjur Ríkisútvarpsins minnkað þar sem auglýsingatekjurnar, sem það sat eitt að áður, skiptast nú á fleiri hendur. Hlutverk Ríkisútvarpsins er að standa vörð um tungu okkar og menningu og það hefur það gert í áratugi. Það er eign landsmanna allra og þjónar öllum jafnt hvar sem þeir búa á landinu. Með útsendingum rásar tvö eiga allir landsmenn kost á því að velja úr ólíku útvarpsefni á sama tíma. Og nú er fyrirhugað að rás tvö hefji útsendingar allan sólarhringinn um miðjan þennan mánuð og er það vel. Sólarhringsútvarp er réttlætismál ekki síst vegna þeirra mörgu sem vinna á vöktum og eiga þess ekki kost að hlusta á útvarp á hefðbundnum útsendingartíma. Það er líka mikilvægt öryggisatriði í svo stóru og strjálbýlu landi að geta náð til allra til sjós og lands en það er unnt með dreifikerfi Ríkisútvarpsins sem nær um landið og miðin.

Við verðum að standa vörð um hag Ríkisútvarpsins og varast að sökkva í sama fen og ýmsar þjóðir sem búa við margar útvarpsstöðvar. Þar hafa gæðakröfurnar verið litlar sem engar og allar stöðvarnar hafa lagst í sömu lágkúruna. Ríkisútvarpið á að veita einkastöðvunum aðhald með vandaðri dagskrá, bæði á rás eitt og rás tvö. Það á fortakslaust að vera metnaður Ríkisútvarpsins að reka vandað tónlistarútvarp.

Ýmsar blikur eru nú á lofti varðandi framtíð Ríkisútvarpsins. Menn sem eiga að standa vörð um hag þess hafa brugðist þeirri skyldu sinni. Þeir hafa lagt til að rás tvö verði seld og úr sömu herbúðum hafa komið tillögur um að afhenda útvarpsstöðvum í einkaeign dreifikerfi rásar tvö. Dreifikerfið er einn þáttur í yfirburðum Ríkisútvarpsins í samkeppni við aðrar stöðvar og svo stór útgjaldaliður að einkastöðvarnar mundu aldrei leggja út í slíka fjárfestingu. Það kostar nefnilega peninga að reka vandað og menningarlegt útvarp, það kostar peninga að ná til allra landsmanna, það kostar peninga að vera sjálfstæð þjóð. Já, það er vegið að Ríkisútvarpinu úr ýmsum áttum og nú síðast héðan frá hinu háa Alþingi þegar Ríkisútvarpið var svipt einum megintekjustofni sínum, aðflutningsgjöldunum.

Í frv. til lánsfjárlaga, sem samþykkt var hér á Alþingi í október s.l., var Ríkisútvarpið svipt þessum helsta tekjustofni sínum frá og með byrjun þessa árs. En þó að Ríkisútvarpið hafi haldið þessum tekjustofni til ársloka er halli á rekstri stofnunarinnar árið 1986 150 millj. kr. samkvæmt bráðabirgðalokun ársreikninga. Auk þess eru fjárlög ársins 1987 afgreidd með 103 millj. kr. halla á rekstri Ríkisútvarpsins sem því er gert að bera með einhverju móti. Ríkisútvarp verður aldrei rekið sem gróðafyrirtæki. Til þess er hlutverk þess of stórt og skyldur þess of margar. Þegar fjallað var um útvarpslögin á Alþingi lýstu allir þm. sig . . . (Forseti: Þm. hefur farið langt fram úr tilskildum tíma.) Ég mun ljúka máli mínu. Ég vitna í orð hæstv. menntmrh. þar sem hann var kjörinn maður janúarmánaðar í morgunþætti rásar tvö. Þar sagði hann, með leyfi herra forseta: „Staða Ríkisútvarpsins verður styrkt, ég mun sjá til þess.“ Að lokum, hæstv. menntmrh., það þarf fé til að reka útvarp. Rás tvö leitar á svipuð mið og einkastöðvarnar. Spurning mín er: Er rás tvö hjá Ríkisútvarpinu ætlað að keppa við útvarpsstöðvar í einkaeign?