03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3606 í B-deild Alþingistíðinda. (3206)

356. mál, framtíð rásar tvö

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Samkvæmt útvarpslögum nr. 68/1985, 16. gr. þeirra laga, skal Ríkisútvarpið senda út til landsins alls og næstu miða tvær hljóðvarpsdagskrár og minnst eina sjónvarpsdagskrá árið um kring. Með vísan til þessa ákvæðis laga verður litið á rás tvö, aðra hljóðvarpsdagskrá Ríkisútvarpsins, sem órjúfanlegan hluta af heildardagskrá þess. Eins og kom fram í máli fyrirspyrjanda hóf rás tvö starfsemi sína 1. desember 1983 og er nú svo komið með fjölgun stöðva hringinn í kringum landið að rásin heyrist í öllum þéttbýlisstöðum og á langflestum sveitabæjum, þótt enn skorti nokkuð á, en unnið er fullum fetum áfram að framkvæmdinni.

Við upphaf rásar tvö var mörkuð sú stefna að hún skyldi rekin af auglýsingatekjum einum og þá með vísan til þess að þá átti að vísu meiri hluti þjóðarinnar kost á að heyra til hennar en ekki allir landsmenn og því þótti það óeðlilegt að rásin yrði rekin fyrir afnotagjöld sem allur landslýðurinn greiddi. Auk þess þótti fýsilegt að rás tvö stæði þannig á eigin fótum og ekki þyrfti að ætla til hennar hluta af afnotagjaldi sem runnið hefur til rásar eitt og sjónvarpsins og farið hríðlækkandi á undanförnum árum að raungildi og sem hlutfall af heildartekjum Ríkisútvarpsins. Vegna samkeppni við nýjar útvarpsstöðvar hefur dregið úr auglýsingamagni á rás tvö undanfarna mánuði. Þess má þó geta að árið 1986 komst rásin vel af og átti afgang af rekstri sínum, en þá námu brúttótekjur af auglýsingum rúmum 53 millj. kr.

Nú fer fram endurskoðun á dagskrárstefnu rásar tvö, eins og kunnugt er, og má ætla að þær breytingar sem fyrirhugaðar eru styrki stöðu rásar tvö sem auglýsingamiðils í samkeppni við einkastöðvar. Ríkisútvarpið telur og á að telja það meginskyldu sína að stuðla að jafnari aðstöðu allra landsmanna til að nýta útvarpsefni af margvíslegu tagi. Uppbygging fullkomins dreifikerfis um land allt, sem er dýrt í uppbyggingu og rekstri, miðar að þessu. Með endurskoðun rásar tvö er einnig stefnt að enn skipulegri samræmingu á dagskrá hennar og rásar eitt þegar báðar rásir heyrast um land allt.

Mér þykir vænt um að heyra að hv. 9. þm. Reykv. er fylgismaður og stuðningsmaður Ríkisútvarpsins. Það er ég einnig. Ríkisútvarpið hefur gífurlega mikilvægum skyldum að gegna, skyldum langt umfram það sem við getum ætlast til af einkastöðvum. Og við megum hvergi slaka á í þessum efnum, líka vegna þess að við ætlum að beita þessu tæki til þarfa okkar, vegna tungunnar, vegna bókmenntanna, vegna menntunar í landinu. Þar ætlum við að mynda braut fyrir fjarkennslu og enn fleira sem er í undirbúningi. Það verð ég að segja eins og er að þótt á bjáti nokkuð núna má telja að þetta sé vel rekið fyrirtæki af ungum framsýnum mönnum sem ég bind hinar mestu vonir við. Og eins og heyra má á mæli mínu er beint svar við fyrirspurninni að sjálfsögðu já.