03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3608 í B-deild Alþingistíðinda. (3210)

350. mál, öryrkjabifreiðir

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Á fundi ríkisstjórnarinnar 12. febr. s.l. var samþykkt svohljóðandi tillaga, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin ákveður að fyrirgreiðsla til fatlaðra við bifreiðakaup færist til Tryggingastofnunar ríkisins. Komi tryggingastyrkur í stað tollalækkunar. Miðað skal við að fyrirgreiðsla verði í sama hlutfalli af almennu söluverði bifreiða og var fyrir tollalækkun í febrúar 1986.“

Jafnframt samþykkti ríkisstjórnin heimild til fjmrh. til þess að afgreiða aukafjárveitingu til að standa undir viðbótarkostnaði Tryggingastofnunarinnar í framhaldi af þessari ákvörðun.

19. febr. skrifaði tolladeild fjmrn. deildarhagfræðingi heilbrrn. bréf um þetta efni með útskýringum a því hvernig þessari fyrirgreiðslu var áður fyrir komið meðan unnt var að beita tollaívilnunum og jafnframt þeirri ábendingu að samráð verði haft við Sjálfsbjörg, landssamband fatlaðra og Öryrkjabandalagið um samningu reglna um hinar nýju greiðslur. Vinna við frekari útfærslu þessarar ákvörðunar fer nú fram í samvinnu þeirra opinberu aðila sem málið varðar.

En það er ljóst eins og fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda að með þessari ákvörðun skapaðist nokkurt misræmi á milli þeirra öryrkja sem afla sér bifreiðar eftir að hún kemur til framkvæmda og hinna sem það gerðu undangengið ár eftir að tollalækkanir þær sem urðu á fyrra ári tóku gildi. Og það er einmitt um þann hóp sem fyrirspyrjandi spyrst fyrir um.

Svarið liggur ekki endanlega fyrir meðan tillögur hafa ekki verið fullmótaðar. Hins vegar er það mín skoðun, og afstaða þeirra sem um þessi mál fjalla af hálfu ríkisstjórnarinnar, að eðlilegt sé og sanngjarnt að komið verði til móts við þessa aðila með svipuðum hætti og nú hefur verið ákveðið að gera almennt gagnvart þeim sem þessara réttinda njóta. Og þó að tillögurnar séu ekki fullmótaðar á þessu stigi málsins verður reynt að finna leiðir á þann veg að sá hópur sem hér um ræðir geti nokkuð vel við unað.