03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3619 í B-deild Alþingistíðinda. (3224)

372. mál, geðheilbrigðismál

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir greinargóðar upplýsingar og ágæta yfirferð í sambandi við þennan málaflokk, umfang hans, sem sýnir hvað hér er um viðamikinn málaflokk að ræða. Ég vil taka undir með hv. 10. landsk. þm. að að sjálfsögðu er eðlilegt og um leið nauðsynlegt fyrir alþm. að fylgjast með því að álit þessarar nefndar, sem samþykkt var hér á Alþingi að starfaði að þessum málum og tæki þau til gagngerðrar endurskoðunar, liggi fyrir og menn hafi aðgang að því og ég treysti hæstv. ráðh. til að koma því á framfæri.

Mér þótti áberandi í því sem hæstv. ráðh. kom inn á hversu áfengisvandamálið kemur og ég hygg í vaxandi mæli inn á þetta svið, því miður, og veldur erfiðleikum í þessu kerfi öllu saman ásamt því vandamáli, sem hún vék að að væri eitt brýnasta verkefnið að leysa úr, hversu skuli fara varðandi geðsjúka fanga og afbrotamenn sem er gífurlegt vandamál í þessu og þarf sérstakrar meðhöndlunar með.

Satt er það. Miklar framfarir hafa orðið í þjónustunni. Einangrun hefur verið minnkuð. M.a. hefur það sem gert var í bráðaþjónustunni vitanlega skipt sköpum fyrir mjög marga. Eins er það að ég þykist vita að unglingageðdeild muni verða mjög til bóta og ég tala ekki um ef ákveðið meðferðarheimili fyrir börn og unglinga til að hjálpa þeim út í samfélagið á nýjan leik kæmist á laggirnar og yrði virkt.

Ég veit að hjá félagsskapnum Geðhjálp þykir þeim sem enn sé um mörg óleyst verkefni að ræða sem menn þurfi að huga að. Þar sé um að ræða ákveðna skipan á skammtímavistun. Það sé alveg sérstaklega um áningarstaði, sem þeir nefna svo, að ræða sem nauðsyn sé að koma á, ákveðnum stöðum þar sem er unnið að aðlögun að því að koma fólki út í lífið á nýjan leik, öruggt athvarf, sem eru allt saman hlutir sem þarf að koma í enn betra horf þrátt fyrir úrbæturnar.

En ég held að það varði samt sem áður mestu að samfélagið geri allt sem unnt er til þess að hjálpa öllum sem hér eiga hlut að máli til eðlilegs lífs, til sem heilbrigðastra og bestra lífshátta eftir að lækning hefur fengist ef hún næst. Fordómarnir hafa dvínað. En það eimir þó enn eftir af þeim. Ég get ekki stillt mig um að nefna að ég veit um nýlegt dæmi um vel verkfæran mann sem ég veit ekki betur en hafi fengið býsna góða lækningu og sé álíka heilbrigður og við mörg hér inni, eða velflest skulum við segja. Það er tregðast við að taka hann í vinnu af þeim vinnuveitanda sem hafði hann áður í starfi. Þannig hygg ég að því miður sé enn þá úti í þjóðfélaginu vottur af þeim fordómum gagnvart þessu fólki sem voru svo himinhrópandi hér áður en hafa sem betur fer með ákveðinni upplýsingu og, eins og hæstv. ráðh. kom inn á, með minni einangrun þessarar lækningastarfsemi breyst mjög. En betur má gera. Á því er enginn efi.