03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3621 í B-deild Alþingistíðinda. (3228)

373. mál, stefnumörkun í áfengismálum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Það nál. sem hv. þm. vísar til er samið af nefnd sem í áttu sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta og allra þingflokka. Átti nefndin að samræma aðgerðir margra ráðuneyta gegn áfengi og raunar öðrum vímuefnum. Eins og hv. þm. segir bar samkvæmt þál. að leggja álitið fyrir Alþingi.

Spurt er hvað ríkisstjórnin hyggist gera til að framfylgja þessum tillögum. Þá er svarið: Númer eitt var að kynna tillögurnar. Það var gert á blaðamannafundi í janúarmánuði og hvað sem um fjölmiðlana má segja og það sem hv. þm. mefndi um fjölmiðlana nú áðan, tel ég að fjölmiðlarnir allir hafi kynnt tillögur þessar mjög vel, dregið fram aðalatriði máls, sett sig mjög vel inn í einstaka þætti álitsins og unnið út frá því.

Hér er um tillögur að ræða sem óneitanlega skarast mjög við verkefni nefndar sem ríkisstjórnin setti á laggirnar á vegum forsrn. á síðasta ári. Það var ákveðið þegar tillögur þessar voru lagðar fram í ríkisstjórninni að bíða þar til niðurstaða þeirrar nefndar lægi fyrir og þá yrði að samræma tillögurnar vegna stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar í heild. Niðurstaða þeirrar nefndar liggur ekki enn þá fyrir. En ef það upplýsir eitthvað í þessu sambandi get ég sagt hv. þm. það um stefnu heilbrmrn. að þessu leyti til að tekið er undir þær niðurstöður nefndarinnar sem miða að því mikilvæga markmiði, sem margar þjóðir hafa sett sér, að draga úr heildarneyslu áfengis meðal þjóða sinna um 25% fyrir n.k. aldamót. Þetta er stutt mörgum vísindalegum og þjóðfélagslegum rökum víða úr heiminum og verður ekki farið nánar út í það, en tillögurnar miðast í grundvallaratriðum við þetta mark.

Um einstakar aðferðir þarf ekki að fjölyrða. Það getur sitt sýnst hverjum um sum einstök atriði í þessum tillögum, en nokkur meginatriði virðist þó að vel sé hægt að framkvæma og ætti að vera öllum til góðs. En það er ljóst að samræma þarf aðgerðir ráðuneyta til þess að tilganginum sé náð og, eins og ég sagði þegar þessar tillögur voru kynntar í janúarmánuði, frekar verður unnið úr þeim á vegum ríkisstjórnar þegar niðurstaða nefndar forsrn. liggur fyrir, en það ætti að verða mjög fljótlega. A.m.k. var búist við því þá að það yrði í febrúarmánuði.