03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3631 í B-deild Alþingistíðinda. (3238)

216. mál, mat á heimilisstörfum til starfsreynslu

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Sú skýrsla frá hæstv. félmrh. um mat á heimilis- og umönnunarstörfum til starfsreynslu sem hér er til umræðu varðar framkvæmd á viljayfirlýsingu Alþingis sem kynnt er í inngangi og ráðherrann hefur mælt fyrir. Ég tel að sú viðleitni sem er viðhöfð með framlagningu þessarar skýrslu sé góðra gjalda verð svo langt sem hún nær, en hún nær vissulega mjög skammt. Ég minni á að þegar till. frá þm. Kvennalistans var til umræðu um þetta efni, sem var undirstaðan að þessari samþykkt Alþingis, þó í breyttu formi því miður, lýsti ég yfir fylgi við þá till. eins og hún kom þar fram og ég get vísað til þess þegar ég ræði þetta mál nú.

Ég tel að það eigi í rauninni ekkert til að spara. Það sé ekki spurningin um fjármagn til að rétta af stöðu þeirra kvenna sem hafa unnið á heimilum við þau störf sem þar til falla, þar á meðal stjórnunarstörf sem eru þáttur í heimilisstörfum. Það megi ekkert til spara til að greiða götu þeirra út á vinnumarkaðinn. Það er ekki ýkjastór hópur sem þarna er um að ræða. Einkum eru konur sem eru að nálgast miðjan aldur sjálfsagt í meiri hluta þar. Konur í yngri aldurshópum hafa haslað sér völl í meira mæli á vinnumarkaði eftir störf á heimilunum, kannske ekki mjög langan tíma. Það er því ekki svo fjölmennur hópur sem þarna þarf að veita aðstoð.

Það kemur í ljós í lokaorðum þessarar skýrslu að það eru engar upphæðir í rauninni sem þarna eru á ferðinni sem gætu verið hindrun í því að gera átak í þessum efnum og t.d. af hálfu hins opinbera að meta störf heimavinnandi til starfreynslu. Það eru litlar 5 millj. miðað við þær hugmyndir sem eru reifaðar í þessum tillögum frá þeim starfsmanni sem ráðherra kvaddi til, Gerði Steinþórsdóttur, og þó að þarna væri um tvöfalda eða þrefalda upphæð að ræða ættu menn ekki að sjá eftir því því að hér er bæði um nauðsynjamál og sannarlega réttlætismál að ræða.

Ég lít svo til, eins og hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, að það sé í raun tillaga 2 í hugmyndum Gerðar Steinþórsdóttur sem gangi lengst ef það má nota þá stigbreytingu um þessar hugmyndir. Hún gangi þó lengra en tillaga 1 og 3. Ég skil í rauninni ekki það orðalag í skýrslunni sem vísar til tillögu 1 sem þess sem gangi lengra en hinar. En hún nær sem sagt að mínu mati of skammt.

Ég tel að hið opinbera eigi auðvitað að hafa þarna forgöngu, jafnsjálfsagt og auðvelt og það er, hæg heimatökin á þeim bæ ef vilji er fyrir hendi. Það er að vísu hæstv. fjmrh. sem heldur þar að forminu til og í reynd um samningana við opinbera starfsmenn, en hæstv. félmrh. getur haft þar sín áhrif væntanlega innan ríkisstjórnar. En þar fyrir utan ætti ríkisstjórnin að sjálfsögðu að beita sér við aðila vinnumarkaðarins, atvinnurekendur, um að þeir taki á þessu máli með þeim hætti sem eðlilegt er og ég hef hér undirstrikað og, hvort sem það er Jafnréttisráð sem vinnur það verk fyrir hönd ríkisstjórnar eða tilkvaddir aðilar af ríkisvaldinu, að plægja akurinn í atvinnurekstrinum sjálfum, hjá aðilum vinnumarkaðarins til að greiða götu heimavinnandi fólks til þess að komast í störf.

Í Svíþjóð er mér kunnugt um að mikið verk er unnið einmitt af hinu opinbera, jafnréttisráði eða hliðstæðri stofnun þar, til að auðvelda heimavinnandi að komast út á vinnumarkaðinn á nýjan leik, með verulegum árangri að mér er tjáð. Þar er farið í fyrirtækin og þau heimsótt og málin rædd þar við forustumenn í fyrirtækjunum og þeir hvattir til að leiðrétta þessi mál og síðan reynt að ýta á það þegar til samningagerðar kemur. Mér er ekki kunnugt um neitt hliðstætt hér á landi þó að það kunni að vera einhver dæmi þess að það hafi verið stjakað við atvinnurekendum að þessu leyti. En þarna tel ég að ríkisvaldið og þær stofnanir sem eiga að sinna svokölluðum jafnréttismálum, í þessu tilviki kvenfrelsismálum sem þetta er einn þáttur í fyrst og fremst, eigi að taka til hendi.

Ég ætla ekki að fjölyrða um þessi efni, herra forseti, en ég minni a það sem fram kom í umræðum um svokallaða framkvæmdaáætlun sem félmrh. kynnti varðandi jafnréttismál. Það er sáralítið aðhafst í þessum efnum. Það er látið sitja að mestu við orðin tóm og viljayfirlýsingar og oft í rauninni með mjög sérstæðum hætti, eins og minnt er á í sambandi t.d. við dagvistarmálin, dagvistarstofnanir og meðferðin á þeim, aðeins eitt lítið dæmi. Það sama gildir um spurninguna um að lyfta konum og auðvelda þeim að komast til verka til jafns við karlmenn á vinnumarkaði og þá einnig í ábyrgðarstöðum. Þar höfum við dæmin hjá hinu opinbera hvernig hlutur kvenna er fyrir borð borinn og hvernig ákvæði jafnréttislaganna eða laganna um jafna stöðu karla og kvenna eru í rauninni lítils sem einskis metin þegar á á að herða á vinnumarkaðinum og hjá hinu opinbera. Ég minni á það að í Noregi mun það vera tíðkað sem regla og hefur verið um skeið sem liður í kvennaáratugnum, þessu alþjóðlega átaki sem átti að vera til þess að leiðrétta stöðu kvenna, að veita konum forgang til opinberra starfa, ekki bara út frá þröngu mati þess hvort karl, sem er að sækja um sama starf, hafi meiri reynslu þegar allt er saman lagt, heldur er konan látin hafa forgang, eins og að nafninu til hefur verið sett inn í íslenska löggjöf, ef hún uppfyllir almenn skilyrði til starfsins. Þó svo að karlar séu þar sem geti státað af meiri reynslu í starfi og hafi kannske prófgráður í einhverjum tilvikum, eða einhver slík formsatriði, er farið með þetta þannig í Noregi, að mér er tjáð, að konan er tekin fram yfir til starfa ef hún almennt uppfyllir þau skilyrði sem gerð eru til viðkomandi starfs. Þetta er leið sem ég tel að íslensk stjórnvöld ættu að fara ef menn ætla sér í reynd að gera eitthvað með ákveðinn tímabundinn forgang kvenna til þess að leiðrétta þann mikla mismun og þá miklu mismunun sem þarna er um að ræða frá liðinni tíð og sem sáralítið breytist í raun þrátt fyrir samþykkt laga hér á Alþingi og viljayfirlýsingar í orði.

Varðandi þetta efni hér, að meta reynslu af heimilis- og umönnunarstörfum í sambandi við vinnumarkaðinn, tel ég að þarna eigi ekki að bíða, þarna eigi að taka stórt á, jafnt af hinu opinbera og einnig að vinna að þessu inni á hinum almenna vinnumarkaði. Þetta eru ekki upphæðir sem snerta fjármuni en þetta snertir réttlæti í okkar samfélagi og leiðréttingu á langvinnri mismunun í garð kvenna.