03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3638 í B-deild Alþingistíðinda. (3242)

353. mál, þjóðarátak í umferðaröryggi

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem er að finna á þskj. 626, um þjóðarátak í umferðaröryggi. Flm. auk mín eru hv. þm. Eiður Guðnason, Helgi Seljan, Jón Kristjánsson, Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, Kristín S. Kvaran, Guðrún Agnarsdóttir, Guðrún Helgadóttir, Kjartan Jóhannsson, Stefán Guðmundsson og Friðrik Sophusson.

Tillagan hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sjö manna til að vinna að undirbúningi þjóðarátaks í umferðaröryggi. Í henni skulu eiga sæti fulltrúar frá landlæknisembætti, heilbr.- og trmrn., dómsmrn., menntmrn., samgrn., Sambandi ísl. tryggingafélaga og Sambandi ísl. auglýsingastofa. Stefnt skal að því að átakið hefjist í byrjun árs 1988 og standi í þrjú ár.“

Markmið með þjóðarátaki í umferðaröryggi er að gjörbreyta hegðun Íslendinga í umferðinni, jafnt ökumanna sem gangandi vegfarenda, þannig að tillitssemi við aðra vegfarendur og kunnátta, sem greiði fyrir umferð og auki umferðaröryggi, verði sjálfsagður þáttur í daglegri hegðun vegfarenda. Þeim umferðarslysum verði nánast útrýmt sem rekja má til vankunnáttu, þjálfunarleysis og tillitsleysis við aðra vegfarendur. Líkja má slíku þjóðarátaki við átakið þegar skipt var yfir í hægri umferð árið 1968 og Íslendingar gengust undir nokkurs konar endurhæfingu í umferðarmálum.

Varðandi undirbúning og framkvæmd þjóðarátaksins vil ég leyfa mér að nefna nokkur atriði sem ég tel skipta máli, þ.e. hvaða aðferðir verða viðhafðar. Sterk yfirstjórn er nauðsynleg með mikla yfirsýn og skýrt mótaða stefnu. Átakið þarf að standa í a.m.k. þrjú ár og vera skipulagt vandlega áður en hafist verður handa. Ráðgjafar þurfa að vera tengdir umferðarmálum, umferðarslysum og áróðurstækni. Gera ætti óskalista sem tilgreinir þau atriði sem Íslendingar þurfa að tileinka sér í daglegri umferð við hinar margvíslegustu aðstæður. Hvert atriði ætti svo að einangra en saman mynda heildina, öryggi í umferðinni.

Umferðarvikur hérlendis hafa einkennst af skammvinnu átaki þar sem hamrað er á mörgum atriðum samtímis í eina viku t.d. og það er í sjálfu sér nothæf og jafnvel ágæt upprifjunaraðferð fyrir fólk sem kann en dugar alls ekki til að breyta hegðun íslenskra vegfarenda til langframa. Átakið eða hæfingin þarf að miðast við að innræta eitt atriði í einu og láta fólk hafast að og endurtaka hegðun á hverjum degi í allt að þrjár vikur til þess að ósjálfráð venja myndist. Þá er tekið til við næstu venjubreytingu þar til heilstætt hegðunarmynstur er áunnið. Upprifjanir verða svo að vera með ákveðnu millibili til þess að viðhalda árangrinum. Nauðsynlegt er að nýta fjölmiðlunar- og kennslutækni til hins ýtrasta og ná þarf samstarfi við fjölmiðla en miðlun þeirra verður þó undir stjórn framkvæmdastjórnar átaksins. Þeir fái nánast úthlutað verkefni á hverjum tíma til þess að átakið verði samhæft og árangursríkt. Auglýsingar verði svo notaðar til að gefa tóninn, þ.e. að leiða átakið.

Hugsanlegt er að fyrirtæki væru tilbúin til þess að taka þátt í átakinu og greiða auglýsingakostnað við einstaka þætti. Breyting á fjölmiðlamarkaði hefur opnað nýja möguleika í þessum efnum. Nefna má tryggingafélög, bensínstöðvar og bifreiðaumboð sem hugsanlega stuðningsaðila. Sama gildir um þessa aðila og fjölmiðlana. Þeir verða að fá úthlutað ákveðnu verkefni frá framkvæmdastjórn átaksins.

Það er nauðsynlegt að undirbúa átakið vandlega og áætla a.m.k. níu mánuði í undirbúningstíma. Tveir mánuðir gætu farið í mótun óskalista, einn mánuður í einangrun aðgerða og grófar áætlanir um framkvæmdir og kostnað, einn til tveir mánuðir í fjármögnun og stuðningsaðgerðir og þrír til sex mánuðir í gerð fræðsluefnis til notkunar fyrstu þrjá til sex mánuði átaksins.

Nú er þess að vænta að frv. til umferðarlaga verði að lögum á þessu þingi. Það ætti því að vera enn ríkari ástæða til að efna til slíks þjóðarátaks þegar ný lög taka gildi. Það er orðið mikið áhyggjuefni hve umferðarslys eru tíð hér á landi, en ár hvert er talið að slasist á þriðja þúsund Íslendingar í umferðinni. Þegar gert hefur verið átak til að fækka slysum hefur árangurinn ekki látið á sér standa eins og t.d. árið 1968 þegar skipt var yfir í hægri umferð og árið 1983 á norrænu umferðaröryggisári. Nú á þessu ári hafa tryggingafélögin ákveðið að berjast gegn umferðarslysum undir kjörorðinu „Fararheill 87“ og ber vissulega að fagna því.

Því miður sýnir reynslan að árangur af eins árs átaki er skammvinnur og fljótt sækir aftur í sama horf. Því telja flm. nauðsynlegt að taka á þessum málum af mun meiri festu en áður með því að efna til þriggja ára átaks í umferðaröryggi. Með markvissri fræðslu sem m.a. byggir á auglýsingatækni, svo og með öðrum aðgerðum, er fullvíst að ná má árangri sem mun fljótlega skila sér, t.d. í minni útgjöldum ríkisins til heilbrigðismála. Í því sambandi má minna á útreikninga forstjóra ríkisspítalanna sem sýna að á einu ári kosta umferðarslysin jafnmikið og rekstur Landspítalans.

Ég legg svo til, hæstv. forseti, að þegar þessari umræðu hefur verið frestað verði málinu vísað til hv. allshn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.