03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3648 í B-deild Alþingistíðinda. (3252)

362. mál, ábyrgð vegna galla í húsbyggingum

Flm. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Á þskj. 665 hef ég leyft mér að bera fram till. til þál. um húsnæði fyrir aðstandendur sjúklinga. Meðflm. mínir eru hv. þm. Guðrún Agnarsdóttir og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir og till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. að leita nú þegar leiða til lausnar húsnæðisvanda aðstandenda sjúklinga sem þurfa að dveljast langdvölum fjarri heimilum sínum.“

Í grg. með till., sem er stutt, segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Flestir verða einhvern tíma á ævinni fyrir því að veikjast eða að einhver þeim nákominn þurfi á læknismeðferð að halda. Slíkt er nógu erfitt í sjálfu sér þótt ekki bætist við langar fjarvistir frá heimili, húsnæðisvandi, sundrung fjölskyldu, vinnutap og margháttuð fjárútlát, m.a. vegna tvöfalds heimilishalds, barnagæslu, ferðalaga o.s.frv. Þetta er þó því miður reynsla margra. Fyrir íbúa landsbyggðarinnar, sem þurfa að sækja sérhæfða læknisþjónustu til Reykjavíkur, í flestum tilvikum til Landspítalans, er þetta þungbær reynsla og oft mjög dýr.

1. flm. þessarar till. til þál. spurðist nýlega fyrir um það á þingi hvernig háttað væri aðstoð við foreldra veikra barna og vísast um það til fskj., en eins og sjá má af svörum heilbrmrh. er slík aðstoð af skornum skammti. Frá því þessar umræður urðu í Sþ. 27. jan. s.l. hafa ýmsir bent flm. á að vandi af þessu tagi er síður en svo eingöngu bundinn við foreldra veikra barna heldur getur hann einnig átt við maka eða aðra aðstandendur sjúklinga. Þennan vanda þarf að leysa.

Sumpart á að vera unnt að bæta aðstöðu þessa fólks í gegnum tryggingalöggjöfina, en ekki þarf nein lög til að leysa húsnæðisvanda þess. Það er hægt að gera með skömmum fyrirvara. Þar er það viljinn sem ræður. Kanna þarf hversu marga um er að ræða til jafnaðar sem þurfa á húsnæði að halda af þessum sökum. Á grundvelli slíkrar könnunar þarf að tryggja að alltaf sé til staðar húsnæði sem aðstandendur sjúklinga geta fengið leigt á góðum kjörum svo að þeir þurfi a.m.k. ekki að vera þjakaðir af húsnæðisáhyggjum til viðbótar við alla aðra erfiðleika. Flm. telja eðlilegt að heilbrmrn. leiti samstarfs við Samband ísl. sveitarfélaga og Rauða kross Íslands um lausn þessa vanda.“

Svo sem segir í grg. og sem sjá má á þskj. 665 er þar birt sem fskj. afrit af umræðum í Sþ. 27. jan. s.l. Það geta hv. þm. að sjálfsögðu kynnt sér eftir áhuga og aðstæðum, en ég vil þó til áréttingar lesa örfá orð úr svari hæstv. heilbrmrh. sem snerta beint efni þessarar till.

3. liður fsp. hljóðaði svo, með leyfi forseta: „Hafa foreldrar í eitthvert hús að venda meðan á meðferð stendur?"

Hæstv. ráðh. svaraði svo, með leyfi forseta: „Sjúkrahótel Rauða krossins hefur boðið sjúklingum utan af landsbyggðinni upp á gistingu meðan á meðferð barns stendur. Þannig fær eitt foreldri sem fylgir barni sínu, sem er í meðferð hjá lækni eða í göngudeildarþjónustu sjúkrahúss, gistingu endurgjaldslaust, en sjúkrahótelið þiggur daggjald fyrir hjá sjúkratryggingum. Sé barnið lagt inn á sjúkrahús fellur daggjaldsgreiðslan niður og foreldrið verður þá að greiða fyrir sig sjálft.

Daggjald sjúkrahótels Rauða krossins er í dag 1421 kr.“ og hv. þm. geta sjálfir reiknað út hvert mánaðargjaldið er ef þarf að greiða þetta daggjald. „Sjúkrahótelið mun flytja bráðlega í nýtt húsnæði við Rauðarárstíg þar sem 28 gistirými standa til boða eins og nú er, en forsenda fyrir þeim flutningi eða kaupum á öðru húsi fyrir sjúkrahótelið er einmitt sú að þar verði aðstaða til gistirýmis fyrir foreldra sem eru með börn sín til lækninga í borginni og það eins þó að barnið sé vistað á sjúkrahúsi ef þörfin er talin brýn að foreldri sé nærri eins og oft mundi að sjálfsögðu vera.

Þegar barnið er komið á sjúkrahús er gert ráð fyrir að unnt verði að hýsa foreldrið gegn vægu gjaldi. Til þess þarf þátttöku stjórnvalda og ég fyrir mitt leyti er því hlynnt að það sé gert því að mér er ljóst að hér er vandi á ferðum sem nauðsynlegt er að bregðast við.

Gistiheimili Landssamtakanna Þroskahjálpar í Melgerði 7, Kópavogi, býður upp á gistirúm fyrir fjóra aðila ásamt börnum. Árið 1985 var um 2000 gistinætur að ræða á þessu heimili. Foreldrum er veitt ókeypis gisting meðan á meðferð stendur og eins þótt barnið sé lagt inn á stofnun meðan húsnæði leyfir. Gistiheimilið er kostað af félmrn.

Að tilstuðlan samtakanna Samhjálp foreldra gáfu kvenfélagið Hringurinn, Rauði krossinn og Krabbameinsfélag Íslands ríkisspítölunum tveggja herbergja íbúð við Leifsgötu 5 í Reykjavík þar sem fyrirhugað er að hafa gistiaðstöðu í lengri eða skemmri tíma fyrir aðstandendur tveggja barna með illkynja sjúkdóma. Ríkisspítalarnir munu annast rekstur íbúðarinnar, en greiðslur fyrir afnot af íbúðinni eru enn óákveðnar, en stefnt er að því að þeim verði mjög stillt í hóf ef þær verða þá einhverjar.“

Hér má skjóta því inn í að þetta hús var formlega afhent nýlega og ber að fagna því að það skuli nú komið í nýtingu. Mun umræðan hér á hv. Alþingi hafa orðið til þess að drifið var í því máli og er það vel. En áfram segir hæstv. ráðh.:

„Ljóst er að margt er enn ógert í þessum efnum. Margir foreldrar veikra barna, svo og þeir sem koma til Reykjavíkur utan af landsbyggðinni til að leita sér lækninga, eiga oftast nær ekki í önnur hús að venda en hjá vinum og ættingjum eða þá í húsnæði sem þeir taka sjálfir á leigu meðan á meðferð stendur. Í nokkrum tilvikum hefur ráðuneytið haft milligöngu með að útvega húsnæði og þá hefur oft verið leitað samkomulags við félagsmálastofnanir, annaðhvort í Reykjavíkurborg eða þá á höfuðborgarsvæðinu, og það hefur í sumum tilfellum tekist og öðrum ekki.“

Herra forseti. Frá því þetta mál var tekið upp á Alþingi höfum við flm. orðið varir við áhuga margra og orðið ljóst að þessi vandi er e.t.v. meiri og þungbærari en nokkurn grunaði. Væri hægt að nefna um það mörg dæmi og segja margar raunasögur. Það verður því ekki lögð of þung áhersla á nauðsyn þess að leysa þennan vanda. Það er ekkert stórmál fyrir ríkissjóð, en það er stórmál fyrir þá einstaklinga og þær fjölskyldur sem hlut eiga að máli og þetta er mikið réttlætismál.

Það er mikið talað um byggðamál við öll tækifæri. Það var m.a. gert í umræðu um till. hér áðan og kosningabaráttan, sem nú er hafin af fullum krafti, snýst öðrum þræði um byggðamál. Þetta þingmál, sem hér er til umræðu, er að mínu mati byggðamál. Á höfuðborgarsvæðinu er margvísleg þjónusta sem ekki er unnt að veita annars staðar á landinu, þar með talin sérhæfð læknisþjónusta af ýmsu tagi og ýmiss konar sérnám. Landsbyggðarfólk á ekki annars úrkosti en sækja hana til höfuðborgarinnar og það skapar vitanlega umtalsverðan aðstöðumun sem nefna mætti mörg dæmi um. Húsnæðisvandinn er þar stærstur, og raunar vaxandi, sem stafar einfaldlega af því að það er nú liðin tíð að landsbyggðarfólk eigi alltaf vísan samastað hjá ættingjum í höfuðborginni eins og áður var. Kemur þar hvort tveggja til, að tengslin eru töluvert að rofna á milli höfuðborgarsvæðisins og dreifbýlisins, því miður, ættartengslin og fjölskyldutengslin ekki jafnsterk og áður, og svo hitt að heimavinnandi húsmæðrum hefur mjög svo fækkað og heimilin á höfuðborgarsvæðinu því ekki jafnvel í stakk búin til að taka á móti gestum og gangandi og veita þeim húsaskjól sem þurfa að leita þjónustu hingað. Það er því okkar álit að það beri að leita leiða til að jafna þennan aðstöðumun.

Ég velti því reyndar fyrir mér að benda á þann möguleika í grg. að virkja samtakamátt, góðvilja og dugnað þeirra ýmsu félaga og klúbba sem láta sig líknarmál varða og hafa oft lyft grettistaki og færu vafalaust létt með að safna fé til kaupa á húsnæði sem mætti nota í þessu skyni. En mér fannst kannske fullfrekt að hafa slíkt á þskj. þótt ég geti ekki stillt mig um að orða þetta í þessari umræðu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa fleiri orð um þessa till. Ég hygg að grg. og fskj. skýri alveg það sem hér er um að ræða og legg til að henni verði vísað til síðari umr. að lokinni þessari umræðu og til hv. félmn.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.