03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3652 í B-deild Alþingistíðinda. (3258)

379. mál, réttur raforkunotenda

Sverrir Sveinsson:

Herra forseti. Góðir þingmenn. Vegna þskj. 688, till. til þál. um rétt raforkunotenda, vill Samband ísl. rafveitna taka fram eftirfarandi. Ég bað það að taka saman grg. um þáltill. Mér fannst vegna þess að það er svo stutt eftir að þingtímanum ástæða til að fram kæmi hvað Samband ísl. rafveitna hefur raunverulega gert á undanförnum árum til að samræma þessar gjaldskrár og reglugerðir.

Ég vísa til að fram kemur í till. að nauðsyn beri til að tryggja rétt neytandans við setningu reglugerða svo að hans réttur sé ekki fyrir borð borinn. Ég minni á að markmið um rekstur rafveitnanna er að sjálfsögðu að tryggja rafveitunum heilbrigðan rekstur, en reglugerðirnar hafa verið settar af viðkomandi stjórnum rafveitnanna á hverjum tíma eða sveitarstjórnum. Raunverulegt form þessara reglugerða var sett á sínum tíma af atvmrn. Ég hygg að réttur neytandans hafi vissulega fengið þá umfjöllun sem honum ber í gegnum sveitarstjórnirnar og stjórnir rafveitnanna annars vegar og ráðuneytin hins vegar.

Gjaldskrár raforkufyrirtækjanna og reglugerðir hafa frá upphafi verið eitt meginviðfangsefni sambandsins eins og sambærilegra samtaka í nágrannalöndum okkar. Til að upplýsa um þær umræður sem hafa átt sér stað hin síðustu ár hefur verið tekið saman og ljósritað nokkuð af þeim erindum sem flutt hafa verið um efnið á fundum sambandsins og má telja að þetta efni gefi góða mynd af viðfangsefninu.

Það er: Þróun og markmið í gjaldskrárgerð, aðalfundur SÍR 1982. Reglugerðir og gjaldskrár hitaveitna, vetrarfundur SÍR og SÍH 1984, eftir Jónas A. Aðalsteinsson hrl. Norræni gjaldskrárfundurinn á Húsavík 1984, eftir Kristján Haraldsson. Gjaldskrárstefna June Pete í Helsinki 1984, sami fundur, Þorleifur Finnsson. Kostnaðarréttargjaldskrá, sami fundur, Haukur Pálmason. Og Reglugerðir raforkuveitna, vetrarfundur SÍR og SÍH 1985, Jónas Aðalsteinsson hrl.

Eins og þm. er kunnugt annast mörg fyrirtæki sölu og dreifingu á raforku til notenda í landinu. Gjaldskrá þeirra er mismunandi og fer eftir því hve langt fyrirtækin hafa komist í þróun gjaldskrármála sinna. Að hve miklu leyti þeim hefur auðnast að hafa gjaldskrár sínar kostnaðarréttar fer eftir ýmsu. Fyrirtækin eru sjálfstæð og hvert með eigin stjórn. Nokkuð er mismunandi hver sjónarmið þeirra eru og niðurstöður í gjaldskrárgerð fara eftir því hver er heildarniðurstaða annars vegar tæknilegra og hins vegar pólitískra sjónarmiða.

Samband ísl. rafveitna er vettvangur margra fjárhagslega sjálfstæðra fyrirtækja, annars vegar í sölu og hins vegar í dreifingu á raforku. Sambandið hefur ekki vald til að skipa félögum sínum fyrir og telur slíkt heldur ekki við hæfi þar sem samkeppni og samanburður ætti fremur að njóta sín. Leitast hefur verið við að fræða og leiðbeina félögum í gjaldskrár og reglugerðarákvæðum með gagnasöfnun og þjónustu. Nokkuð hefur áunnist en ekki nægilega að þess dómi.

Það sem á vantar má rekja til margra hluta: 1. Markaður fyrirtækjanna er mismunandi. 2. Fjárhagsstaða þeirra er ólík og kostnaðarskipting. 3. Verðstöðvun undanfarandi ára hefur og leikið þau misjafnlega. 4. Sjónarmið stjórna þeirra, t.d. á niðurgreiðslum, millifærslum og tillit til byggðasjónarmiða, er ólíkt. Sem dæmi um slíkt eru hitunartaxtar í dreifbýli og marktaxtar í landbúnaði. Verð til skipa í höfnum fer mjög eftir mismunandi aðstæðum.

Nokkur undanfarin ár hefur verið unnið á vegum sambandsins að eftirfarandi þáttum sem snerta þetta mál:

1. Samræming gjaldskráa. Sambandið hefur leitast við að bera saman raforkuverð milli félaga sinna, annars vegar Íslands og annarra landa hins vegar. Það sem áunnist hefur er að menn eru smám saman að taka upp sambærilega gjaldskráruppbyggingu þótt væntanlega verði haldið áfram ólíku verði og skilgreiningu taxta. Sambandið vinnur nú þegar að því að semja rammagjaldskrá fyrir sína félaga með því markmiði að einfalda verðútreikning á raforku og auðvelda um leið allan samanburð á raforkuverði.

2. Samræming bókhalds. Ákveðið er að leitast við að samræma bókhald raforkufyrirtækja, m.a. í því skyni að samræmi verði í taxtaskilgreiningum og öllum megi ljóst vera á hverju taxtar byggjast, hvort þeir eru kostnaðarréttir eða byggðir á jaðarkostnaði.

3. Reglugerð fyrirtækjanna. Í nokkur ár hefur verið unnið að undirbúningi samræmdrar reglugerðar fyrir dreifiveitur. Talið er mikilvægt að reglugerðir sé í stöðugri vinnslu þannig að þær spegli þann veruleika sem fyrirtækið starfar við. Þar sem flutningur fólks milli landshluta er mikill, menntun rafvirkja sambærileg um landið, sala raffanga og verktakasamningar á verktakamarkaði í vaxandi mæli á landsvísu er talið að gott samræmi sé í reglugerðaruppbyggingunni. Lögð er áhersla á að vald stjórnar hvers fyrirtækis í þessum efnum sé í engu skert. Hins vegar þarf að gæta atriða sem tryggja mega að fyrirtækin starfi vel.

Gerð rammareglugerðar er nú lokið og hefur verið send til kynningar í iðnrn. og verður hún tekin til afgreiðslu á aðalfundi SÍR í júní n.k. og send stjórnum raforkufyrirtækjanna.

4. Tæknileg tengiskilyrði. Það kom strax í ljós þegar unnið var að reglugerðarmálum að gera þurfti tillögur að tæknilegum tengiskilyrðum raforkufyrirtækjanna. Skilyrðin eru fyrirkomulag lagna og búnaðar þar sem rafveitan og kaupandinn mætast. Hér er t.d. fjallað um fyrirkomulag mæla svo að eitthvað sé nefnt. Hér þarf á mikilli sérþekkingu að halda þar sem samræmi er milli þess sem hér gerist og í öðrum löndum, að tækniframfarir verði ekki takmarkaðar, að orkuþjófnaður geti ekki átt sér stað og slysahætta takmörkuð svo sem verða má. Hefur lengi verið unnið að þessum þætti og er nú lokið við skilyrðin og þau send iðnrn. til kynningar. Þau verða á sama hátt og reglugerðin tekin til afgreiðslu á aðalfundi SÍR og send stjórnum fyrirtækjanna til frekari ákvörðunar. Telja verður nauðsynlegt að tæknilegu tengiskilyrðin verði eins um land allt til að tryggja samræmingu í störfum verktaka og að ljóst sé hvernig framleiðendur raffanga tengist veitunum.

Þess er að vænta að upplýsingar þessar geti gefið mönnum vísbendingu um stefnu Sambands ísl. rafveitna og það viðfangsefni sem sambandið hefur með höndum.

Þetta vildi ég að kæmi fram við þessa umræðu vegna þess að ég er ekki svo viss um að þetta mál nái afgreiðslu í þinginu svo að menn hafi það í þingtíðindum hvað sambandið hefur þó unnið í þessum málum.