03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (3261)

378. mál, Skógrækt ríkisins

Flm. (Guðrún Tryggvadóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. á þskj. 685, um flutning á höfuðstöðvum Skógræktar ríkis­ ins, sem ég hef lagt fram ásamt Jóni Kristjánssyni og Sverri Sveinssyni. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela landbúnaðarráðherra að hlutast til um að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins ásamt embætti skógræktarstjóra verði fluttar að Hallormsstað á Völlum í Suður-Múlasýslu.“

Ég vil taka það fram í upphafi að með Völlum er hér að sjálfsögðu átt við Vallahrepp sem gjarnan er í daglegu tali þar eystra nefndur Vellir.

Í till. felst að opinber stofnun, Skógrækt ríkisins, verði flutt frá Reykjavík austur að Hallormsstað þangað sem mestir skógar eru og skógrækt lengst komin á landinu. Nú um árabil hefur verið rætt um að flytja ýmsa opinbera þjónustuþætti út á land í þeim tilgangi að efla stöðu landsbyggðarinnar og auka fjölbreytni í atvinnulífi, en fábreytt atvinnulíf úti um landið er tvímælalaust ein af meginorsökum fólksflóttans þaðan á undanförnum árum. Í framhaldi af því tel ég að við getum ekki horft fram hjá þeirri staðreynd að atvinnulíf landsmanna hefur þróast nokkuð í tvær megináttir. Annars vegar hefur orðið til eitt allsherjar þjónustusvæði hér við Faxaflóann, en á hinn bóginn framleiðslusvæði í hinum landshlutunum. Þetta er því miður staðreynd, meira að segja töluleg staðreynd, og þetta er hættuleg þróun.

Það má ekki skilja orð mín þannig að ég fylgi einhverri aðskilnaðarstefnu og stilli upp höfuðborgarsvæðinu annars vegar en landsbyggðinni hins vegar. Þvert á móti. Ég tel að landið okkar sé ein heild og við eigum að líta á það þeim augum, en það er líka í okkar valdi að ráða því hvernig atvinnulíf þróast í landinu. Það þróast ekki af sjálfu sér án stjórnar.

Allir þeir stjórnmálaflokkar sem heyrst hefur í að undanförnu hafa ályktað um að efla beri jöfnuð í byggð landsins. Með því að styðja þessa till. fá þeir tækifæri til að sýna það í verki.

Við skulum hafa það hugfast að fólksfækkun á framleiðslusvæðum landsins er neikvæð þróun sem dregur úr þeirri gjaldeyrisöflun sem þar á sér stað og við verðum að koma í veg fyrir að slíkt haldi áfram að gerast, eins og fróðir menn hafa verið að spá að undanförnu. Það verður ekki glæsilegt um að litast í landinu okkar um aldamót ef þær spár ná að rætast. Ég efast um að nokkur Íslendingur óski eftir að svo verði.

Menn hefur nokkuð greint á um réttmæti á flutningi opinberra þjónustuþátta frá höfuðborgarsvæðinu, einkum að því er varðar stórar stofnanir í heilu lagi, og hafa ýmsir talið hyggilegra að setja upp deildir eða útibú frá slíkum stofnunum úti um land. Þó hafa fáir mælt því í mót að höfuðstöðvar Skógræktar ríkisins væru betur komnar á þeim stað þar sem mestir skógar eru á landinu, mest gróska í tilraunum og skógrækt lengst komin, þ.e. á Hallormsstað, enda er nú þegar stærsta útibú Skógræktar ríkisins þar og raunar fer stór hluti af starfsemi Skógræktar ríkisins fram á þeim stað.

Rétt er að minna á það hér að í tillögum stofnananefndar um flutning ríkisstofnana frá 1975 er Skógrækt ríkisins talin meðal fyrstu stofnana sem nefndin taldi sjálfsagt að yrðu fluttar. Við það má svo bæta að sú stofnun sem hér um ræðir er hvorki stór í sniðum né mannmörg svo ekki ætti það að torvelda flutning þannig að fátt eða ekkert stendur í veginum tæknilega séð.

Samkvæmt upplýsingum frá landbrn. er yfirstjórnin á Skógrækt ríkisins í Reykjavík með starfslið upp á fimm og hálfa stöðu. Auk þess ber að taka fram að Skógrækt ríkisins býr við fremur þröngan húsakost í leiguhúsnæði.

Flutningi Skógræktar ríkisins hefur áður verið hreyft hér á Alþingi, þó án endanlegrar umfjöllunar eða afgreiðslu. Þá var að einhverju leyti inni í myndinni að taka Húsmæðraskólann á Hallormsstað undir starfsemina. Ég vil taka það fram að þá ráðstöfun tel ég engan veginn koma til greina í dag. Bæði er það að í húsmæðraskólanum eru mikil umsvif, svo sem vefnaðar- og matreiðslunámskeið á vetrum og gistihúsrekstur á sumrin, og því má ekki sleppa.

Skógrækt ríkisins á það fyllilega skilið að fá hentugt húsnæði til frambúðar fyrir sínar höfuðstöðvar, og það helst í timburhúsi úr völdum viði. Slíkt væri vel við hæfi á Hallormsstað. Þar þyrfti að vera aðstaða til námskeiðahalds í skógrækt fyrir bændur um nytjaskóga og fyrir almenna borgara og áhugamenn um skógrækt almennt. Enn fremur mætti hugsa sér að hefja þar kennslu í skógrækt á framhaldsskólastigi, enda segir í lögum um Skógrækt ríkisins að eitt af hlutverkum hennar sé að leiðbeina og kenna skógvernd og skógrækt, að frætt verði og leiðbeint um meðferð og ræktun skóga, skjólbelta og annars trjágróðurs.

Árið 1899 voru samþykkt lög frá Alþingi um verndun Hallormsstaðaskógar, en Skógrækt ríkisins tók við skóginum þegar hún var stofnuð með lögum í nóvember 1907. Er því vel til fallið að búa Skógrækt ríkisins framtíðarheimili að Hallormsstað á þessu 80. afmælisári.

Mér er ljóst að allnokkur hluti af starfi skógræktarstjóra og yfirstjórnar Skógræktar ríkisins er tengdur stjórnsýslunni í Reykjavík. En með síauknum tækniframförum í hvers konar fjarskiptum er þróunin að verða sú að gamla góða fundarformið er á undanhaldi, enda er ekkert því til fyrirstöðu að halda fundi ef þörf krefur þó að menn séu staddir á sitt hvoru landshorninu. Ég vil minna á sjónvarpssíma, myndsegulbönd og hátalarasíma, þeir munu sjá til þess. Þar að auki er ég viss um að þeir skógræktarmenn sem eiga erindi við yfirstjórn Skógræktar ríkisins hlytu bæði gagn og gaman af því að koma til Hallormsstaðar í stað Reykjavíkur.

Hallormsstaður hefur um áratuga skeið verið vagga skógræktar á Íslandi. Þar er skógurinn með mjög efnilegri ræktun nytjaskógar og þar fara fram mikilvægustu uppeldistilraunir á landinu. Í Mörkinni svokölluðu var stofnsett gróðrarstöð árið 1903, en uppeldisstöðin þar hefur stækkað margfalt og breyst frá þeim tíma. Nú fer uppeldið að mestum hluta fram í gróðurhúsum þar sem notaðar eru nýjar og betri aðferðir.

Í Mörkinni hefur verið plantað á þessu 80 ára tímabili fjölda trjátegunda sem Skógrækt ríkisins hefur flutt til landsins og ná hæstu trén þar allt að 17 m. Árið 1980 voru 49 tegundir innfluttra trjáa í Hallormsstaðaskógi frá um 200 stöðum.

Í upphafi skógræktar á Hallormsstað var skógurinn girtur, en friðun hins víðlenda birkiskóglendis fyrir búfjárbeit var ekki alger fyrr en upp úr 1940. Árangur friðunarinnar varð sá að staðurinn er nú nær óþekkjanlegur frá því sem var í upphafi aldar. Nú hafa til viðbótar verið girt ný svæði á þrem nærliggjandi jörðum þannig að alls eru um 2000 ha af skógi innan allra girðinga.

Á nýju svæðunum hefur tekist vel til með ræktun á lerki en það hefur breytt hrjóstrugum móum í frjósöm gróðurlendi. Lerkinu fylgir sveppur sem gerir því kleift að vaxa nánast í möl einni saman og í lerkibreiðunum vex þessi sveppategund nú í tonnatali. Þar með hafa bæst við hlunnindi sem eiga eftir að hafa ómælda þýðingu á lerkiræktarsvæðum því að lerkisveppur er meðal bestu ætisveppa sem finnast.

Nú hafa um nokkurt skeið staðið yfir breytingar á búháttum í landbúnaði. Samdráttur í hefðbundnum búgreinum er óumflýjanleg staðreynd og reynt er að beina bændum inn á nýjar brautir. Ræktun nytjaskóga er tvímælalaust ein þeirra leiða sem fara skal, enda er almennur áhugi á því innan bændasamtaka á Austurlandi sem og víðar. Rétt er að minna á í því sambandi að héraðsáætlun í skógrækt fyrir Fljótsdalshérað er þegar hafin fyrir áratug eða meira. Þar er gert ráð fyrir að skógrækt verði búgrein bænda.

Herra forseti. Tillaga sú sem ég hef mælt fyrir hér er í raun prófsteinn á vilja stjórnvalda til að flytja opinbera þjónustuþætti út á land, en það hefur gífurlega þýðingu fyrir þróun byggða í nánustu framtíð. Með flutningi höfuðstöðva Skógræktar ríkisins að Hallormsstað, þar sem vaxtarsprotar skógræktar eru, næðist ekki eingöngu stór áfangi í byggðamálum heldur einnig þróun nýrrar stórbúgreinar í landbúnaði. Verum minnug þess að trén vaxa á meðan við sofum.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að till. þessari verði vísað til atvmn.