03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (3262)

378. mál, Skógrækt ríkisins

Helgi Seljan:

Herra forseti. Það geta verið fá orð um þessa tillögu þó að vissulega gefi hún tilefni til býsna mikilla umræðna vegna þess að hv. 1. flm. kom inn á stofnananefndina sem starfaði á sínum tíma og átti að leggja grunn fyrir stjórnvöld að ákveðnu munstri sem hægt væri að nota varðandi flutning stofnana og stofnun útibúa og deilda frá öðrum ríkisstofnunum. Ég get að sjálfsögðu lýst fyllsta stuðningi við þá till. sem hér er um að ræða. Ég hef áður gert það þegar hún var flutt á Alþingi af Kristjáni heitnum Ingólfssyni sem þá sat á þingi og einhverjum með honum sem ég man reyndar ekki hverjir voru sem skiptir ekki máli, en hann var þar frumkvöðull að.

Ég sat sjálfur í stofnananefndinni sem hv. 1. flm. minntist á og sú nefnd vann að mínu viti býsna gott starf í því að leggja til ákveðið munstur, eins og ég sagði, sem stjórnvöld gætu farið eftir. Þar var að vísu nokkuð djarft teflt með margt,flutningur ákveðinn á býsna mörgum stofnunum. Útibúastofnanir voru þar mjög á dagskrá og eins deildir frá höfuðstöðvunum hér syðra. Það sem fór mest fyrir brjóstið á mönnum þá og þótti fjarstæðukenndast í tillögum þessarar stofnananefndar var flutningur ákveðinna ríkisstofnana út á land. Við höfðum að vísu fyrirmyndina frá Noregi þar sem þeir höfðu bjargað sinni landsbyggð á sínum tíma með því að dreifa ákveðnum stofnunum til staða úti á sinni landsbyggð og þó sumt hafi þar mistekist í áranna rás hefur meiri hlutinn af því staðist tímans tönn.

Það var hins vegar merkileg upplifun í sambandi við veruna í þessari stofnananefnd að tregðan í sambandi við þetta var mest hjá starfsfólki viðkomandi stofnana. Það var alveg sama við hvaða starfsfólk var rætt. Það var alls staðar sett ekki bara spurningarmerki heldur sáust merki hinnar mestu skelfingar ef þetta fólk ætti að dæmast til að hverfa frá sínum heimkynnum hér í Reykjavík. Um það er ekki spurt þegar fólk þarf í stórum stíl af fjöldamörgum ástæðum að leita hingað til höfuðborgarinnar og í óvissu í þokkabót í atvinnulegu tilliti eins og oft gerist.

Ég ætla ekki að fara frekari orðum um starf stofnananefndarinnar og afdrif þess álits sem voru dapurleg í þessu efni. Ég held nefnilega að hefðu menn reynt að framkvæma þó ekki hefði verið nema hluta af áliti stofnananefndar á sínum tíma, reynt að gera ákveðið átak í þessu, hefði það verið beint framhald af þeirri uppbyggingu úti á landsbyggðinni sem hófst upp úr 1971 og gjörbreytti öllu atvinnulegu tilliti þar og þjónustulegu tilliti líka. Það vantaði að mínu viti ákveðinn lokahnykk þar á og ég hygg að það hefði verið býsna stór þáttur í þessu hefði verið unnt að koma einhverju slíku við.

Ég vil hins vegar segja það hér, af því að það er verið að ræða um þessa sérstöku stofnun, að þegar við vorum að ræða við hina einstöku aðila í ráðuneytinu, sem höfðu yfir þessum stofnunum að segja, sögðu þeir gjarnan sem svo: „Þið getið að sjálfsögðu ekki verið að flytja stofnanir út á land nema þið getið flutt Skógræktina austur á Hallormsstað.“ Það var mjög algengt viðkvæði. Þegar þeir voru að reyna að bjarga sínum stofnunum frá þeim voða að lenda út á land vísuðu þeir gjarnan á að það væri óhætt hins vegar að flytja Skógrækt ríkisins austur. Hitt er svo annað mál að það hefur ekki heldur orðið úr þeim sjálfsagða þætti og hefur þó margt breyst til batnaðar síðan bæði stofnananefnd lagði þetta til og eins síðan till. til þál. var flutt af Kristjáni heitnum Ingólfssyni í sambandi við samgöngur og greiðari samskipti á milli landshluta, sem var kannske eitt aðalmálið sem var haft sem mótbára gegn öllum flutningi stofnana, og svo auðvitað hinn gamli rígur milli landshluta sem kom þarna inn í og jafnvel milli byggðarlaga innan landshluta, því það kom glöggt fram í samtölum við fulltrúa landshlutasamtaka sveitarfélaga á þeim tíma að þeir voru aldeilis ekki sammála um hvert stofnanirnar ættu að fara, til hvaða landshluta, og innan landshlutasamtakanna voru menn heldur ekki samstíga um hvar í landshlutanum stofnunin yrði staðsett ef hún svo kæmi, hvar útibúið yrði eða hvar deildin yrði. Við höfum auðvitað mörg dæmi um þann ríg sem landsbyggðin hefur goldið í ríkum mæli og við erum öll meira og minna utan af landsbyggðinni samsek um þessa eilífu togstreitu um hvað hver aðili, hvað hver staður eigi að fá í sinn hlut. Við erum öll meira og minna samsek um það. Í staðinn fyrir að toga öll í sömu áttina og reyna að leggjast á eitt um þetta höfum við dreift kröftunum allt um of með þessum hætti.

Þetta skulu ekki vera fleiri orð, aðeins stuðningur við þessa till. Hér er um einn sjálfsagðasta og eðlilegasta þáttinn í starfsemi ríkisins að ræða sem hægt er að flytja og unnt er með litlum tilkostnaði, með lítilli fyrirhöfn og að sjálfsögðu sem gott fordæmi.