03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3662 í B-deild Alþingistíðinda. (3268)

382. mál, eyðing ósonlagsins

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Mér finnst aldeilis ófært að það standi ekki einhver annar upp og taki undir efni þessarar ágætu tillögu. Það eru allnokkur ár síðan ég frétti einmitt af þessum skaðvaldi ósonlagsins og hef mjög staðfastlega hafnað notkun allra úðabrúsa síðan og þar með lagt mitt örlitla lóð á vogarskálina til að hamla gegn eyðingu ósonlagsins. Ég kættist því mjög þegar ég sá þessa till. og finnst hún ljómandi góð og vil lýsa stuðningi við hana og enn fremur þakka hv. 1. flm. fyrir að flytja hana og að gera svo ágætlega grein fyrir henni sem hún gerði.

Þar sem orðið er nokkuð áliðið og ekki kannske ástæða til að eyða tímanum í langar ræður hélt ég aftur af mér að standa upp áðan þegar síðasta till. var hér á dagskrá, en ef það er ekki mjög í andstöðu við þingsköp ætla ég að leyfa mér að lýsa stuðningi við hana sömuleiðis.