28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég held að það ætti að vera öllum augljóst að ákvarðanir Framleiðnisjóðs samrýmast fyllilega lögunum. Þarna er verið að gera ráðstafanir til þess að samdráttur í búvöruframleiðslu þurfi ekki að koma niður á þeim bændum sem áfram halda búrekstri sínum. Við stóðum frammi fyrir því á s.l. hausti að um tvennt var að ræða, annaðhvort að skerða enn frekar en orðið er fullvirðisrétt allra bænda eða að leitast við að hraða búháttabreytingunni sem unnið hefur verið að að undanförnu.

Á s.l. vori var búið að gera samninga um stuðning við fjölmarga bændur, 111 í loðdýrarækt, 33 í ferðaþjónustu, enn fremur við fiskirækt, nýtingu hlunninda, eggjaframleiðslu og skógrækt. Ég held að ekki fari á milli mála að þarna er verið að gera stórt átak til þess að bregðast við þeim markaðsvanda sem landbúnaðurinn stendur óneitanlega frammi fyrir.

Vissulega er rétt að æskilegt hefði verið að hafa þarna lengri aðdraganda, en ég held að það sé líka augljóst að tíminn var knappur. Það kom fram hjá Alþb. á síðasta ári að það vildi fresta samþykkt laganna, fresta því að gera þarna átak. Einkum er það tvennt sem núna er haft í huga í sambandi við það tilboð sem bændastéttinni er gert á þessu sviði eftir samninga við Stéttarsamband bænda. Annars vegar er verið að gera tilboð sérstaklega þeim bændum sem búa við riðuveiki á búum sínum. Það munu vera tæplega 50 þús. fjár á þeim búum þar sem riða er virk. Ég býst við að hv. þm. ætti að vita það manna best vegna reynslunnar í hans eigin kjördæmi hversu mikill vágestur riðan er og hversu brýn nauðsyn er að gera eins mikið átak og nokkur kostur er til þess að útrýma henni. Hins vegar á að greiða til þeirra bænda sem vilja leggja út í búháttabreytingu og þar af leiðandi fást til þess eða telja það jákvætt fyrir sig að skera niður hinn hefðbundna bústofn og byggja annað upp í staðinn. Það er gert ráð fyrir því að Framleiðnisjóður, til viðbótar því fjármagni sem gerir mönnum kleift að standa af sér millibilsástand meðan verið er að byggja upp nýtt, veiti þeim auk þess stuðning til þess með beinum framlögum. Í mínum huga er því ekki nokkur vafi að þarna er um jákvæðar aðgerðir að ræða í samræmi við anda laganna um endurskipulagningu búrekstrar á jörðum og eflingu nýrra búgreina.