03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3663 í B-deild Alþingistíðinda. (3270)

382. mál, eyðing ósonlagsins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Við sjáum nú að það er ýmislegt sem ógnar okkar jörð, okkar tilvist. Það er ekki kjarnorkan ein, þó hún sé það skelfilegasta í okkar huga, því það þarf ekki að verða nema slys, þá getur það ógnað lífi á stóru svæði jarðar. Þetta er eitt af mörgu sem ógnar lífi á jörðinni, það er einmitt það sem menn kannske vita ekki nógu mikið um samt sem áður, þetta er sannleikur í dag hver sem hann verður á morgun. Við vitum ekki betur en þetta sé rétt og þess vegna er það rétt fyrir okkur sem erum að ræða um þetta hér, jafnvel þó að á næstu áratugum sýni vísindin að þetta sé af öðrum ástæðum. Þannig hefur þetta verið í gegnum aldirnar. Það eina sem ég harma í sambandi við þennan tillöguflutning er það að ekki skuli vera hægt að samþykkja þessa till. tímans vegna. En í öllu falli verður umræða um þetta og vonandi láta fjölmiðlarnir sig þetta eitthvað varða frekar en ýmsar aðrar fréttir sem héðan berast. En oft og tíðum er það nú því miður þannig með fjölmiðlana að þeir taka ekki upp það sem nauðsynlegast er og raunar áhugaverðast og merkast.

Ég vil þakka hv. 9. þm. Reykv. fyrir að flytja þessa till. Ég vona að við það muni stjórnendur hér rumska við og að reynt verði að taka þetta upp á erlendum vettvangi því að það er aðalatriðið og að við bönnum notkun þessara efna hér. Við getum auðvitað ekki farið fram á það að aðrir banni þessi efni nema við gerum það sömuleiðis.