03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3667 í B-deild Alþingistíðinda. (3277)

375. mál, námslán og námsstyrkir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. sem gengur út á að fela menntmrh. að fella úr gildi breytingar á reglugerð nr. 578 frá 1982, um námslán og námsstyrki, sem gerðar voru 3. jan. og 2. apríl á árinu 1986.

Þær reglugerðarbreytingar fólu það í sér að horfið var frá þeirri viðmiðun við framfærslukostnað námsmanna sem lög um námslán og námsstyrki gera ráð fyrir að viðhöfð sé og upphæðir námslána voru frystar miðað við framfærslukostnað haustmánaðanna 1985.

Hliðstæð till. var flutt seint á síðasta þingi þegar þá var ljóst orðið að ekkert yrði af fyrirhuguðum og áformuðum breytingum á námslánalöggjöfinni af hálfu hæstv. menntmrh. eða hæstv. ríkisstjórnar. Nú má segja að sama staða sé uppi að nýju þar sem ljóst er orðið að þær breytingar sem rætt hefur verið um að gera á námslánalöggjöfinni verða ekki að lögum á þessu þingi.

Sjálf tillgr. er einföld. Hún gengur út á að Alþingi feli menntmrh. að fella þessar reglugerðarbreytingar úr gildi þannig að gildi taki að nýju þau ákvæði um útreikning á framfærslukostnaði námsmanna sem áður giltu.

Jafnframt felur Alþingi ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til þess með aukafjárveitingum og lántökum að tryggja eðlilega framkvæmd laga nr. 72 1982, um námslán og námsstyrki, út það ár sem er að líða.

Eins og ég sagði áðan, virðulegur forseti, liggur það fyrir að ekki hefur orðið samstaða í hæstv. ríkisstjórn um að gera breytingar á námslánalöggjöfinni. Því er það till. okkar flm. að lögin verði þá látin gilda og sett í framkvæmd að fullu eins og þau eru og ekki verði viðhafðar áfram þær skerðingarreglugerðir sem hér hefur verið vitnað til og dregið hefur verið verulega í efa að standist ákvæði og anda laganna um námslán og námsstyrki.

Sú skerðing sem af þessum reglugerðum hefur leitt á rúmu ári lætur nærri að vera um 15-20% sem námslán eru nú lægri til námsmanna innanlands en þau væru ef fyrri viðmiðun væri viðhöfð. Til námsmanna erlendis er þetta að meðaltali einhvers staðar á bilinu 12-15%, en þar er um nokkurn mismun að ræða eftir einstökum löndum vegna þess að gengisþróun hefur haft áhrif á upphæðir námslána og ekki hefur verið tekið tillit til með eðlilegum hætti þeirra gengis- og kostnaðarbreytinga sem orðið hafa í einstökum löndum.

Fullt námslán til einstaklings hér innanlands er nú 22 350 kr. eða 4-5 þús. kr. lægra en lágmarkslaun í landinu. Ein höfuðröksemd þeirra, sem stóðu fyrir árásum og niðurskurði á námslánum á síðasta ári og síðustu misserum, var sú að vegna þess að dæmi fyndust um að námslán væru hærri en lægstu gildandi kauptaxtar þá væri þar um óeðlilegt hlutfall að ræða og lækka bæri lánin fremur en að hækka launin eins og skilja mátti af málflutningi sumra. Þessi röksemd er nú fyrir bí, þ.e. með tilkomu nýgerðra kjarasamninga hafa lægstu laun, lágmarkslaun hækkað langt upp fyrir námslánin og því snýr þessi röksemdafærsla í raun öfugt og mætti með sömu rökum rökstyðja nauðsyn þess að hækka námslán.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, og það erum við flm. þessarar þáltill., að í sjálfu sér sé hin eina eðlilega viðmiðun útreiknings námslánanna framfærslukostnaður námsmanna og út frá honum eigi að ganga þegar þessi námslán, þessi námsaðstoð er reiknuð út. Það er í raun hin eina eðlilega viðmiðun og sú eina sem tekur tillit til aðstæðna námsmanna með þeim hætti sem löggjöfin um námslán og námsstyrki gerir ráð fyrir að gert sé.

Ég hef lauslega slegið á það, virðulegur forseti, hver kostnaðarauki gæti orðið af því að taka úr gildi reglugerðir þessar og úthluta því sem eftir er á yfirstandandi námsári og haustmisserinu miðað við að lögin giltu að fullu og skerðingarreglugerðir þessar væru ekki til staðar og er ljóst að þar gæti verið um kostnað á bilinu 150-250 millj. kr. að ræða. Þó færi það eftir því hvernig útreikningur námslánanna yrði meðhöndlaður á því námsári sem nú er að líða. En væntanlega mætti við vorúthlutun eða aprílúthlutun námslánanna koma til námsmanna þeim skerðingum a.m.k. sem annars yrðu á seinni helmingi námsársins.

Það væri freistandi, virðulegur forseti, að ræða svo ofurlítið almennt stöðu Lánasjóðs ísl. námsmanna en ég geri ekki ráð fyrir að knappur tími leyfi mikið af því tagi. Mig langar þó til að segja það að ég undrast þá skammsýni þeirra ráðamanna íslenskra sem talað hafa fjálglega um nauðsyn þess að skerða námslán og beita þar aðhaldi, koma þar á vöxtum og ýmsum öðrum aðhaldsaðgerðum, eins og sú kynslóð sem nú gengur í gegnum skólana sé sérstaklega varhugaverð í þessu tilliti og beita þurfi hinum ýtrustu brögðum til þess að hindra að hún dragi sér meira fé út úr Lánasjóði ísl. námsmanna en óhjákvæmilegt er.

Það sem er á ferðinni í ævisögu Lánasjóðs ísl. námsmanna er ósköp einfaldlega það að stærstu árgangar Íslandssögunnar eru að ganga upp í gegnum skólakerfið, að fleiri njóta nú réttar til námslána en áður var, að íslenskt námsfólk er fleira að hlutfalli en nokkru sinni fyrr. Þetta til samans gerir það að verkum að geysileg fjölgun hefur orðið á viðskiptavinum Lánasjóðsins og sú fjölgun er það nýtilkomin, sem og verðtrygging og hertar endurgreiðslureglur, að tekjur af þessari fjölgun eru að engu leyti eða mjög litlu leyti farnar að skila sér til baka. Það er því verið að brúa erfitt tímabil í ævi þessa sjóðs, en það mun taka enda eins og önnur slík. Og ef skammsýni ráðamanna nú um stundir og á næstu árum verður ekki til þess að eyðileggja fjárhag sjóðsins, þá verður hann að tiltölulega fáum árum liðnum verulega sjálfstæður hvað þetta varðar og getur að meiri hluta til fjármagnað eigin starfsemi með tekjum. Þetta liggur fyrir.

Mér er því óskiljanleg sú árátta, sem orðið hefur vart við á undanförnum misserum, að hegna þessum árgöngum Íslandssögunnar, sem nú eru að ganga upp í gegnum skólakerfið og koma til með að gera það á allra næstu árum, að hegna þeim sérstaklega fyrir það að þeir eru svona stórir og að þeir vilja mennta sig. Ég held að sú kynslóð ráðamanna, sem færi þannig með uppvaxandi æsku síns lands, fengi ekki góða dóma í mannkynssögunni ef slíkt óhappaverk yrði látið ske. Þetta eru nú einu sinni, virðulegur forseti, sömu stóru árgangarnir sem sprengdu utan af sér barnaheimilin, sem hafa sprengt utan af sér grunnskólana og eru nú við það að sprengja utan af sér Háskólann og Lánasjóð ísl. námsmanna ósköp einfaldlega vegna þess að þetta eru stærstu áfangar líklega bæði fyrr og síðar sem þessi þjóð sendir til náms.

Það mætti svo enn rekja framtíð þessara sömu árganga lengra vegna þess að þegar þeir koma út á vinnumarkaðinn, fara að festa sér húsnæði o.s.frv., koma þeir til með að búa við allt önnur og að mörgu leyti erfiðari kjör en þær kynslóðir, þeir árgangar sem á undan fóru. Enn fremur munu það verða þessir sömu árgangar og áratugir sem koma til með að bera þyngstar byrðar af lífeyrisgreiðslum framan af næstu öld þegar þar að kemur. Og þá verða það kannske gjarnan þeir, sem nú véla um málefni Lánasjóðsins sem ráðamenn í þessu þjóðfélagi, sem ætla að þiggja þann lífeyri sem námsmennirnir núverandi koma þá til með að greiða. Þannig hníga að því mörg rök að ef eitthvað væri, þá væri ástæða til að snúa þessu við og gera sérstaklega vel við þessa kynslóð sem nú er að fara upp í gegnum skólakerfið og mun gera það á næstu árum.

Þegar löggjöf um námslán og námsstyrki var sett á sínum tíma, henni var síðast breytt á árinu 1982, þá var það starf unnið þannig að um það náðist samstaða allra stjórnmálaflokka og námsmannahreyfinganna við ríkisvaldið. Þetta samkomulag náðist eftir mikla vinnu og þess vegna er sérstök ástæða til að vara við því að lokum að menn rjúfi það samkomulag, brjóti það upp með flumbrugangi og gerræðislegum vinnubrögðum, eins og ég leyfi mér að segja, herra forseti, að bryddað hafi á í málefnum Lánasjóðsins á undanförnum misserum.

Þessi till. er þó í raun fyrst og fremst flutt til þess að koma í veg fyrir að slíkar skyndiákvarðanir, án eðlilegs aðdraganda og eðlilegs samráðs við námsmenn og aðra málsaðila, raski eðlilegri framkvæmd laganna nr. 72 frá 1982, um námslán og námsstyrki. Þau lög eru að stofni til góð og réttlát og ég er þeirrar skoðunar að þeim verði ekki breytt til bóta nema þá að menn vandi sig mjög við það verk.

Það skal að lokum tekið fram að flm. þessarar till. eru til þess reiðubúnir að ræða sérstaka skattheimtu eða aðrar fjáröflunaraðgerðir til að standa straum af þeim kostnaði sem af samþykkt hennar mundi leiða á yfirstandandi ári.

Að lokinni þessari umræðu, virðulegur forseti, legg ég svo til að tillögunni verði vísað til hv. félmn.