28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 370 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Þegar núgildandi búvörulög voru sett vorið 1985 sá ég á þeim svo alvarlega annmarka að ég treysti mér ekki til þess að greiða þeim atkvæði mitt og taka þannig ábyrgð á þeirri lagasetningu. Ég sá fram á alvarlega byggðaröskun í kjölfar þess samdráttar í hefðbundinni búvöruframleiðslu sem óhjákvæmilega fylgir svo harkalegri lækkun útflutningsbóta.

Ég viðurkenni að nauðsynlegt var að draga saman hefðbundna búvöruframleiðslu og betur hefði fyrrv. landbrh. gengið með meiri alvöru að því verki. En þeim útflutningsbótum sem sparast við þessa niðurfærslu átti að verja til að koma upp annarri framleiðslu í sveitum. Þrátt fyrir verulegan ugg sem ég bar í brjósti þegar búvörulögin voru sett óraði mig ekki fyrir að mál myndu þróast svo hrapallega sem raun hefur á orðið og m.a. fyrir tilverknað Framleiðnisjóðs.

Í lögum um Framleiðnisjóð var ekki mælt fyrir um að þeir ríku skyldu verða ríkari og þeir fátæku fátækari. Framleiðnisjóði og reglugerðum hefur verið beitt miskunnarlaust í þágu óheftrar markaðshyggju. Stefnan hefur verið sú að koma smærri framleiðendum út úr hefðbundinni búvöruframleiðslu til þess að hafa meira til að skipta handa stóru framleiðendunum.

Þessi stefna, stórbændastefna, sem ég hef leyft mér að kalla svo, er að mínum dómi alröng. Fyrst hefði átt að reyna að draga saman á stærstu búunum, hjálpa stórbændum til að minnka við sig og stefna að hóflega stórum fjölskyldubúum þar sem búskapur byggðist ekki að ráði á aðfengnum vinnukrafti. Það er pláss og viðfangsefni fyrir flest af núverandi bændafólki í sveitum landsins. Það þarf að draga saman framleiðslu hefðbundinnar búvöru á stóru búunum en styrkja þau og þó sérstaklega smærri búin með aukabúgreinum til þess að skapa þeim er þar búa lífvænlegar tekjur. Í stað þess er verið að flæma smábændur úr hefðbundinni framleiðslu til þess að geta bætt við stórbændur en gefa síðan smábændum kost á að fara sérhæft í áhættusamar aukabúgreinar eingöngu. Það er allt í lagi að gefa mikinn gaum að aukabúgreinum, en þær eiga að vera aukageta með hefðbundinni framleiðslu.

Framleiðnisjóði er nú beitt til þess að kaupa upp framleiðslurétt einstakra bænda, ekki bara þeirra bænda sem búa við riðu, það er út af fyrir sig eðlilegt, heldur einnig annarra. Þeir sem selja framleiðslurétt sinn út úr vandræðum eru líka að gera jarðir sínar verðlausar og ónýtar til búvöruframleiðslu. Heilu og hálfu sveitarfélögin geta fyrr en varir verið orðin óbyggileg, ekkert skipulag er á þessum kaupum, sveitarstjórnir fá ekkert að vera með í ráðum. Tímabundin búmarksleiga kemur hins vegar vel til greina.

Sendiför embættismanna um landið undanfarið er mislukkuð, einungis til þess að drepa kjark úr fólki sem er í vanda statt. Og þegar kjarkurinn er farinn úr fólkinu gefst það upp, gengur frá verðlausum jörðum sínum þannig að heilu byggðarlögin geta hrunið. Með þessu framferði er fjármunum Framleiðnisjóðs illa varið að mínu mati og í mótsögn við anda laganna. Framleiðnisjóður var ekki í upphafi ætlaður til þess að koma landinu í eyði.