03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3684 í B-deild Alþingistíðinda. (3285)

288. mál, lán vegna greiðsluerfiðleika

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég get haft mál mitt stutt. Ég tek í flestu undir þær athugasemdir sem tveir síðustu hv. ræðumenn hafa fært fram. Það er þarft að fá þessa skýrslu í hendur og ástæða að þakka ráðherra fyrir framlagningu hennar. Það liggur enn fremur fyrir, bæði í þessu plaggi og fleirum, að ráðgjafarþjónustan sem slík er góðra gjalda verð, enda er þar á ferðinni gömul tillaga Alþb. að koma á fót við Húsnæðisstofnun ríkisins eða innan húsnæðiskerfisins ráðgjafarþjónustu af þessu tagi.

Vandi húsbyggjenda og íbúðakaupenda á Íslandi s.l. ár er af margvíslegum toga. Það er þó fyrst og fremst tvennt sem hefur gerst sem haft hefur afgerandi áhrif til hins verra. Þar eru á ferðinni að sjálfsögðu kjaraskerðingin sem orðið hefur á Íslandi og hófst á árinu 1983 og hefur varað fram á þennan dag, a.m.k. ef miðað er við kaupmátt kauptaxta og svo það misgengi sem varð milli lánskjara og kaupgjalds.

Það liggur fyrir að þær lánveitingar sem fjallað er um að uppistöðu til í þessari skýrslu eru afleiðing af þessum vanda og það liggur jafnframt fyrir, eins og reyndar kom fram í ræðu hv. þm. Magnúsar H. Magnússonar, að hópurinn sem fyrir þessu misgengi varð er óbættur hjá garði eftir sem áður. Það sem hefur gerst með þessum lánum og skuldbreytingum er ósköp einfaldlega það og sömuleiðis í raun með þeirri greiðslumiðlun sem jafnframt var tekin upp að vandanum hefur verið dreift á lengri tíma. Hópurinn fær mun lengri tíma en ella hefði orðið til að greiða skuldir sínar. Eftir sem áður er sá mismunur sem upp kom í reikningsdæmi einstaklinganna óbættur. Það gefur auga leið að sá mismunur verður óbættur þangað til til koma eftirgjafir eða framlög sem vega þann mismun upp. Ég er ekki þar með að halda því fram að því fólki, sem í erfiðleikum lenti og leitaði til Húsnæðisstofnunar, hafi ekki verið mikil hjálp í skuldbreytingum og lengingu lána. Það er auðséð að greiðslubyrði fólks minnkar á næstu árum og dreifist yfir lengri tíma.

Það er í þessu sambandi annar hópur húsbyggjenda og íbúðakaupenda frá undanförnum árum sem ég hef í raun og veru ekki síður áhyggjur af. Það er sá hópur sem ekki hafði stofnað til vanskila af því tagi að það opnaði honum mikla möguleika inn í þetta kerfi til að taka greiðsluerfiðleikalán. Þessi hluti húsbyggjenda hefur stundum verið nefndur kókkassahópurinn og vísar það til þess að ýmsir hafa ófullkomnar eldhúsinnréttingar við að búa og hafa kannske flutt inn á beran steininn, en hefur tekist að halda lánum sínum að mestu leyti í skilum á kostnað þess að húsnæðið hefur ekki verið fullbúið. Ég þekki marga slíka sem hafa allan þann tíma barist í bökkum, kannske frá árunum 1982, 1983, 1984, og rétt ráðið við að halda lánum sínum í skilum án þess að geta á nokkurn hátt klárað eða búið betur það húsnæði sem þeir eru staddir í.

Ég þekki jafnvel dæmi, herra forseti, um fólk sem hefur flutt inn í hús þegar svonefnt fokheldisvottorð hafði nýlega verið fengið, jafnvel þannig að tjörupappi var á þaki og plast fyrir gluggum, og síðan hefur verið búið í þeim húsum án verulegra úrbóta, jafnvel árum saman. Ég óttast að þessir aðilar verði í mjög þröngri og erfiðri stöðu áfram um langt árabil ef þeim stendur ekki á næstunni til boða einhvers konar viðbótaraðstoð. Ég tel að það þurfi að vera opinn á næstu árum lánaflokkur eða möguleikar til lána í Húsnæðisstofnun ríkisins þar sem slíkir aðilar eiga innangengt. Ella mun ósamræmið milli þeirra sem ég er hér að tala um og hinna, sem njóta hinna nýju lánskjara eða fengið hafa mesta úrlausn í gegnum greiðsluerfiðleikalán, verða allt of mikið.

Það er óhjákvæmilegt að taka undir athugasemdir síðasta ræðumanns, hv. 7. landsk. þm., um ýmis ummæli í þessari skýrslu, sem komu mér reyndar þannig fyrir sjónir fyrst þegar ég leit á þau að ég hélt að viðkomandi höfundar væru að gera að gamni sínu og ættu fremur skilið verðlaun fyrir gamansemi en nokkuð annað. Sérstaklega eru það þessi kostulegu ummæli um að auðvitað séu sjálfstæðir atvinnurekendur með lágmarkslaun og í neðri tekjumörkum, það sé nánast náttúrulögmál og eðlilegt og óhjákvæmilegt að svo skuli vera. Ég veit ekki hvað kemur mönnum til að taka til orða með þessum hætti. Ef það er ekki gamansemi er það eitthvað annað sem ég ekki skil. Það væri fróðlegt að hæstv. ráðh. færi aðeins yfir það eða hvort hann veit hvað fyrir þessum starfsmönnum hæstv. ráðh. hefur vakað.

Ég vil einnig setja innan gæsalappa vissar fullyrðingar sem hér eru varðandi það að misgengið hafi ekki afgerandi áhrif lengur, a.m.k. gagnvart þeim sem enn eru í greiðsluerfiðleikum. Einnig er það sérstakt að menn skuli taka til orða eins og gert er efst á bls. 7, með leyfi forseta, að segja að auðvitað megi ekki skilja það sem hér hefur verið sagt sem svo að vandi húsbyggjenda og íbúðakaupenda hafi verið leystur að fullu. Ég held að engum sem læsi þessa skýrslu dytti það í hug og það sé alveg ástæðulaust að setja svona varnagla inn. Það hefur sennilega læðst að höfundunum sá grunur einhvern tíma að vandinn væri leystur að fullu, en svo hafa þeir hugsanlega áttað sig á því að einhver misbrestur yrði á því og þess vegna ákveðið að setja þessa setningu inn - eða hvað? Þetta er heldur léttúðarfullt tal um alvarlega hluti. Það vita væntanlega allir að enn eru fjölmargir húsbyggjendur og íbúðakaupendur í verulegum erfiðleikum og eru að drukkna undan bæði vinnuþrældómi og svo því þungbæra oki að sjá ekki fram á betri tíð, jafnvel áratugum saman, vegna þeirrar skuldasúpu sem þeir hafa steypt sér í til að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

En að öðru leyti þarf ég svo sem ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta. Það verður á spjöldum sögunnar einn merkilegur kafli þegar frá líður sem mun fjalla um þá ótrúlega heimskulegu ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar frá vormánuðum 1983 að rjúfa með þeim hætti sem raun ber vitni samhengi kaupgjalds og annarra verðskuldbindinga í þjóðfélaginu. ég hef margsagt að ég eigi þá ósk til handa íslenska lýðveldinu að svo vitlaus ráðstöfun yrði aldrei gerð aftur og engum detti framar í hug að það sé hægt í nútímaþjóðfélagi, þar sem samspil launa og fjárskuldbindinga er mjög margþætt og flókið, að taka hlutina þannig úr samhengi eins og hæstv. ríkisstjórn leyfði sér að gera vorið 1983 og að sú vitlausa tilraun verði aldrei aftur endurtekin.

En það er nauðsynlegt að muna það og undirstrika að lokum að hinn svonefndi misgengishópur er áfram með misgengið á bakinu þótt byrði þess hafi verið dreift yfir lengri tíma. Mér finnst í heild tónninn í skýrslunni og þó sérstaklega í framsöguræðu hæstv. ráðh. lykta fullmikið af því, ef svo má að orði komast, herra forseti, að reikningarnir hafi verið kvittaðir og menn hafi með þessum greiðsluerfiðleikalánum keypt sér eina allsherjar syndaaflausn vegna misgengisins. Svo er auðvitað ekki og enn er þetta misgengi óbrúað. Hvort það verður hægt að koma með einhverju móti því fólki til aðstoðar og leiðrétta fyrir það ranglæti sem það varð fyrir, það skal ég ekki segja um. Það má öllum vera ljóst að það verður þeim mun erfiðara sem lengra frá liður. En það er þó skoðun mín og trú að það mætti með ráðstöfunum sem tengdust tilteknum árgöngum húsbyggjenda og íbúðakaupenda og t.d. með því að tryggja þeim í fyllingu tímans ekki lakari greiðslukjör á sínum fjárskuldbindingum en þeir hafa sem ganga inn í hið nýja húsnæðislánakerfi koma nokkuð til móts við þennan hóp í framtíðinni. Vonandi fær þjóðin svo góða ríkisstjórn á næstu mánuðum að slíkt gerist.