04.03.1987
Efri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3720 í B-deild Alþingistíðinda. (3326)

391. mál, fæðingarorlof

Haraldur Ólafsson:

Hæstv. forseti. Það eru einungis örfá atriði sem ég vildi nefna í sambandi við þessi ágætu frv. sem hér liggja fyrir. Það hefur lengi verið mikið áhugamál framsóknarmanna að fá framlengingu fæðingarorlofsins. Gerðar hafa verið um það flokkssamþykktir og miðstjórnarsamþykktir og fyrir forgöngu þeirra var þetta einnig tekið upp í stjórnarsáttmálann. Það er gleðiefni að nú skuli liggja fyrir stjfrv. um lengingu fæðingarorlofsins og leiðréttingu á ýmsu því sem miður hefur farið í þeim efnum á undanförnum árum.

Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem fær þetta frv. til meðferðar en ég get lýst því yfir að af hálfu framsóknarmanna verður unnið ötullega að því að fá þetta afgreitt á yfirstandandi þingi. Ekki meira um það.

Þetta er mikið mál, þetta er réttlætismál og þetta er mál sem við eigum að samþykkja. Þó svo að við vildum mörg okkar hafa meiri hraða á þessu, vildum hafa fengið þetta fyrr, þá er þetta samt svo stórt skref í rétta átt að við eigum að samþykkja þetta, hugsanlega með einhverjum breytingum ef ástæða þykir til og fram kemur hjá nefndinni að ekki er nógu vel séð fyrir einstökum málum, en alla vega skulum við stuðla að því að þetta mál nái fram.

Þær athugasemdir sem ég vildi gera, og vil taka undir með hv. 11. þm. Reykv., eru að ákvæðin um orlofstíma vegna ættleiðingar og andvana fæddra barna tel ég vera of skamman. Það að fæða andvana barn er áreiðanlega gífurlegt álag bæði fyrir móður og fjölskyldu og ég held að það veiti ekki af sama eða svipuðum tíma og ætlaður er fyrir þær sem fæða lifandi börn til þess að ná sér hreinlega eftir slíkt áfall. Eins og ég sagði nær þetta ekki bara til móður heldur einnig til föður og fjölskyldu, hugsanlega til þeirra barna sem fyrir eru. Ég held að við eigum að lengja þennan tíma og vona ég að nefndin finni lausn á því máli.

Það er einnig rétt að taka mjög skýrt fram að gert verði ráð fyrir því í lögum að heimilað verði launalaust leyfi að loknu fæðingarorlofi, allt að einu ári, án þess að viðkomandi missi stöðu sína á vinnumarkaði. Þetta táknar að staðan verði geymd í allt að eitt ár hvort sem faðir eða móðir á í hlut, enda geri þau grein fyrir óskum sínum þar um a.m.k. tveim mánuðum fyrir lok fæðingarorlofs.

Þetta eru þau atriði sem ég vildi nefna. Og að lokum þriðja atriðið. Það varðar það jafnrétti, sem ég tel að verði að vinna að í sambandi við fæðingarorlofið, að allar konur sem barn ala hafi sama rétt og njóti sömu hlunninda hvaðan sem þau koma.

Að endingu vil ég hvetja til þess að afgreiðslu þessa máls verði hraðað þannig að þetta mikla og mikilvæga fjölskyldu-, heilbrigðis- og þjóðþrifamál nái fram að ganga.