04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3747 í B-deild Alþingistíðinda. (3354)

197. mál, veiting prestakalla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er enn kominn á borð hv. þm. gamall kunningi sem hefur mikið verið ræddur hér og ég geri vart ráð fyrir að menn viti ekki mína afstöðu til þessa máls.

Ég heyrði það á hæstv. ráðh. að hér er ekki um stjfrv. að ræða. Menn hafa ekki bundið sig á neinn klafa í þeim efnum og sumir vonandi og það margir eru enn þeirrar skoðunar að við eigum að hafa óbreytt ástand að því er varðar að kjósa presta. Sumum finnst það íhaldssemi og segja að þessi eina stétt eigi ekki að þurfa að sækja undir það að standa í kosningaslag. Út af fyrir sig má segja að það getur verið rétt skoðun, en ég met störf sóknarprests miklu meira en nokkurs annars embættismanns og vil þess vegna fá að segja til um það sjálfur hvaða sálusorgara ég kýs.

Ég hefði miklu heldur viljað fá breytingu á þeirri löggjöf sem nú er í þá veru að það yrði tiltekinn tími sem kosning gilti þannig að menn séu ekki að tala um ævilanga kosningu eins og í mörgum tilfellum er, að sóknarbörn geti fengið tækifæri til að segja sitt álit á vissu árabili.

Ég hef talið mig nokkuð trúrækinn einstakling og hef viljað halda mér við það. Það er ekki kannske bara þess vegna sem ég hef þá skoðun að vilja velja þennan einstakling sjálfur. Það er líka vegna þess að ég held að í þessi embætti þurfi að veljast einstaklingar sem mikið er spunnið í og geta gert marga hluti til hjálpar því samfélagi sem þeir búa í.

Ég minnist nokkurra einstaklinga frá mínum fæðingarstað sem ég hef unnið með, starfað fyrir og hafa einmitt haft það sem ég tel að þurfi að vera til þess að sóknarprestur sinni sínum störfum eins og best verður á kosið.

Ég tel að þetta frv. sé skref aftur á bak. Hvað mundu t.d. þm. segja? Kannske þeir vilji sjálfir ákveða einhvern tiltölulega lítinn hóp sem getur sagt: Þessi verður þm. og hann verður þarna. Ætli það yrði ekki næsta skrefið að menn taki allt lýðræðistalið til endurskoðunar þá og setji hvern og einn einstakling þar sem þessi tiltölulega litli hópur telur að hann eigi að vera? Mér finnst þetta rangt.

Ég get út af fyrir sig skilið að í mörgum tilvikum, a.m.k. sumum, gengur æðimikið á í sambandi við prestskosningar og það er ljóður á máli. En ég vil þó trúa því lengst af að menn geti tekið sinnaskiptum í þeim efnum og geti hætt öllum hamagangi, en valið eigi að síður með eðlilegum hætti.

Þetta frv. mun hafa fengið nokkuð góðar undirtektir í hv. Ed. ef ég man rétt og séu svipuð viðhorf í þessari deild þarf trúlega ekki um að spyrja að málið mun ná fram að ganga. Ég vona eigi að síður að hv. deildarþm. í Nd. gefi sér a.m.k. nokkurn tíma til að ræða þetta mál því að þetta er mikið mál og kannske meira en marga grunar. Nú þekki ég að vísu ekki mikið til í stórum samfélögum eins og hér á höfuðborgarsvæðinu, en í litlu samfélagi er mikið mál að geta valið sér einstakling til þessarar þjónustu sem maður trúir og treystir sjálfur. Menn eiga þá frekar að snúa sér að því að framkvæma þessar kosningar með eðlilegum hætti án upphrópana og alls konar vesens eins og í sumum kosningum hefur átt sér stað, því miður. En það á ekki að kalla á að menn séu losaðir við að velja sér prest. Fjöldinn á að fá að segja til um hvaða einstakling hann vill velja.

Nú er mér ljóst að prestastéttin sem slík vill fá þessar breytingar fram. Þó er ég ekki viss um að menn séu allir sammála um það. Ég hugsa að margir vilji enn halda í þá gömlu hefð að geta sjálfir tekið ákvörðun um hvern þeir velja sér til þessara starfa.

Auðvitað er þetta eitt af þeim málum sem hafa staðið deilur um, koma til með að standa deilur um og minnka trúlega ekki deilurnar þó að menn fari þessa leiðina. Menn færa þá bara slaginn inn í minni hóp ef menn eru að tala um slag í sambandi við kosningar. Það verða þá færri sem eru að slást eftir þessu fyrirkomulagi. Ég er ekkert viss um að það sé betra. Ég held að það sé gæfulegast að hver og einn fái að taka ákvörðun þessa fyrir sig án þess að fela öðrum að gera slíkt. (Samgrh.: Er ekki rétt að takmarka áflogin?) Takmarka áflogin? Ég veit það ekki. Þeir geta orðið verr úti eftir því sem þeir eru færri. En í mínum huga tel ég þetta svo mikið mál fyrir mig persónulega, að fá að segja til um þessa hluti, að ég vil fá að gera það sjálfur. Ég vil ekki framselja minn atkvæðisrétt til þessa eða hins til að velja fyrir mig. Við gerum það yfirleitt ekki í öðrum kosningum. Við viljum sjálf fá að segja til um það hvern við kjósum. Mér er sem ég sæi framan í - ja, við skulum segja almenning ef hér kæmi upp á borð frv. þess efnis: Ja, þessi tiltekni hópur vestur á Bolungarvík lætur þennan í þingmannsstólinn. Hann á að vera þar.

Ég held að vinnubrögð á þennan veg geti kallað á meira en það sem menn eru hér að tala um sem sumum kann að finnast gott og leysi vanda sem ég tel þó að sé ekki. Ég held að þetta geti kallað á önnur vandamál en þau sem menn hafa verið að tala um í sambandi við það sem gerst hefur áður. Ég óttast líka að almenn sóknarbörn verði meira slitin frá safnaðarstarfinu en er þó með því fyrirkomulagi sem nú er. Til þess eru menn að kjósa sér prest að hann sé nánast leiðtogi á því sviði á þeim stað sem hann er á. Ég vil ekki ofurselja það vald duttlungum örfárra manna að segja til hver sá á að vera. Það vald á að vera hjá sóknarbörnunum sjálfum og það eiga þau að fá að nota.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða öllu lengri tíma í þetta mál að sinni, en enginn vafi er á því að um þetta á eftir að tala meira áður en málið fer héðan út úr deild því að ég geri ráð fyrir því að menn vilji fá að tjá sig um svo mikilvægt mál sem hér er á ferðinni. Ég geymi mér frekari umræður um þetta þangað til málið hefur farið til nefndar og kemur þaðan til baka.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.