28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég minni á að þegar búvörulögin voru sett vorið 1985 var við mikinn vanda að etja vegna offramleiðslu og samstaða meðal þjóðarinnar um að greiða útflutningsuppbætur var brostin. Þessar staðreyndir þurftu menn að horfast í augu við. Búvörulögin tryggðu bændum staðgreiðslu, þau tryggðu þeim fullt verð fyrir ákveðið framleiðslumagn og þau tryggðu að útflutningsuppbótafé í landbúnaðinum fór inn í búgreinina sjálfa. Þetta voru veigamikil atriði og þetta var ástæðan til þess að a.m.k. þingflokkur framsóknarmanna, utan þingflokksformanns eins og kom fram áðan, greiddi þessum lögum atkvæði.

Framkvæmdin er auðvitað ýmsum erfiðleikum bundin og landbrh. er ekkert öfundsverður af hlutskipti sínu. Stjórnarandstaðan og ýmsir aðrir telja sér henta að tala fagurlega til bænda. Það mætti spyrja hvar þeirra úrræði væru. Ég hef undir höndum ályktun frá kjördæmisþingi Alþb. í Norðurlandi eystra sem er kjördæmi frummælanda hér. Þar segir svo þar sem rætt er um þessi mál, með leyfi forseta:

„Kjördæmisþingið telur að eitt af brýnustu og stærstu verkum næstu ríkisstjórnar hljóti að verða að taka sérstaklega á málefnum landbúnaðarins og sveitanna með það að markmiði að tryggja byggð og bæta lífskjör og aðstöðu fólks í strjálbýli.“

Svo mörg voru þau orð. Hvernig á að gera þetta og hvernig á að vinna að þessu markmiði sem allir geta tekið undir? Það hefur lítið farið fyrir því í umræðunum hér.

Ég ætla ekki að orðlengja um þessi mál, en ég tel það höfuðmarkmið að koma málum þannig fyrir í landbúnaðinum að bændur þurfi ekki að framleiða óseljanlega vöru og málum sé komið þannig fyrir að þeir geti stundað aðrar greinar í sveitunum sjálfum en hinar hefðbundnu og þeim séu tryggð bætt lífskjör og aðstaða.