28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 377 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Það er furðulegt að hlusta á hvern þm. á fætur öðrum úr Framsfl. kom hingað upp í ræðustól og kvarta undan því hvernig landbúnaðinum hafi verið stjórnað á undanförnum árum og það sé öðrum en þessum mönnum að kenna. Hverjir eru það sem hafa stjórnað landbúnaðinum undanfarin ár aðrir en framsóknarmenn? Framsóknarmenn og hluti af Sjálfstfl. hafa staðið og stjórnað íslenskum landbúnaði á undanförnum árum. Ef einhverjum er hægt að kenna um hvernig komið er er það þeim að kenna og engum öðrum.

Hæstv. landbrh. og hv. 11. landsk. þm. sögðu það hér úr ræðustól áðan að nú, þegar notað er fé Framleiðnisjóðs til að kaupa upp fullvirðisrétt bænda, væri það að ske að þeim sem óskuðu þess, eins og hv. 11. landsk. þm. sagði, að færa sig yfir í aðrar búgreinar væri verið að auðvelda það. Þetta er ansi langt frá sannleikanum. Það sem er raunverulega að ske nú með því að kaupa upp fullvirðisrétt bænda er að verið er að dreifa byggðinni í landinu, það er verið að grisja hana. Það er einmitt verið að grisja byggðina á Vestfjörðum í því kjördæmi sem hæstv. forsrh. taldi sig ekki geta setið lengur. Það er verið að grisja byggðina í Árneshreppi. Mér er vel kunnugt um það. Þar er verið að kaupa upp fullvirðisrétt bænda. Hvað þýðir það á þessum stöðum? Hvað þýðir það við Ísafjarðardjúp og hvað þýðir það víða um land? Það þýðir ekki aðeins að þau býli, sem nú fara í eyði undir þessari stefnu Framsfl., hverfi sem byggð býli heldur styttist í það að sveitin öll fari á sama veg. Það er sú stefna sem Framsfl. boðar núna og það er sjálfsagt vegna þeirrar stefnu sem Framsfl. hefur haldið á undanförnum árum.