14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Áður en ég vík að því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði vildi ég gjarnan koma aftur að því sem hv. 10. landsk. þm. vék að áðan og eins hv. 5. þm. Austurl. Ef setningin öll um „military cargo“ í þessum samningi, innganginum, sem hv. 10. landsk. þm. vitnaði í, efst á bls. 3, er lesin rétt liggur alveg í augum uppi að talað er um „military cargo between the United States and Iceland in support of the defence arrangements established pursuant to the Defense Agreement“. Þarna er skýrt tekið fram hvað um er að ræða. En þetta er ekki samningurinn. Ef við förum í 1. gr. samningsins, þá stendur „transportation services for cargo transported by sea between Iceland and the Unites States“, þ.e. flutningsþjónusta á sjó. Síðan kemur í 4. gr. fyrst það sem vísar til 1. gr. og þar er verið að vísa til samninga um flutningsþjónustu á sjó og það sem segir í 4. gr. vísar til þess. (Gripið fram í.) Til flutningsþjónustu á sjó.

En við skulum láta þessum deilum lokið. Ég er alveg sammála hv. síðasta ræðumanni, hv. 3. þm. Reykv., um að auðvitað vilja menn vinna skjöl á Alþingi eins vel og mögulegt er. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykv. um að auðvitað fjallar utanrmn. um málið eftir að umræða hefur farið fram í Sþ., eftir að menn hafa heyrt gagnrýni þm., skoðanir þeirra, og metur það sem fram hefur komið, m.a. þetta sem verið er að benda á og þá fást allar þessar skýringar. Sumir eru kannske að tala um málið ekki nægjanlega vel lesnir í því, eins og sagt er í skóla - og einhvern tíma hafði ég heyrt þegar ég var í skóla, ekki nægjanlega vel lesinn. En látum það vera.

Ég tel að ég hafi svarað því sem ég hef verið að spurður og það stendur ekkert á því og hefur aldrei staðið að láta þeim nefndum, sem fjalla um þau mál sem ég flyt á þingi, í té allar þær upplýsingar sem hægt er að veita þeim þannig að þær athugasemdir, sem fram koma í umræðum, verði skoðaðar. Til þess erum við, að láta mál ganga til nefnda og koma aftur til 2. umr. til umfjöllunar þar á eftir.