28.10.1986
Sameinað þing: 9. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Egill Jónsson:

Herra forseti. Mér er ljóst að tími er þrotinn og mér er líka ljóst að menn hafa ekki möguleika á því að svara spurningum mínum og ég óska reyndar ekki eftir því, en það er væntanlega hægt að fá frekari svör við þeim síðar í vetur.

Þessi umræða er mikilvæg að því leyti í fyrsta lagi að hún minnir á aðgerðarleysi fyrrverandi ríkisstjórnar og í hver óefni landbúnaðurinn var kominn og hvað illa var staðið við ýmis þau loforð og ýmsar þær skuldbindingar sem ríkisvaldið hafði þá tekið að sér. Hún er líka mikilvæg að því leyti að Alþb. hefur sannað það fyrir þingi og þjóð að það hefur ekki neinar tillögur fram að færa.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði með almennu orðalagi að það þyrfti að leita eftir öðrum leiðum í landbúnaðarmálum. Ég spyr: Hverjar eru þær? Hv. þm. Ragnar Arnalds sagði hins vegar að það væri verið að skerða útflutningsbótaréttinn. Er það skoðun fyrrverandi fjmrh. og Alþb. að það eigi að auka útflutningsbótaréttinn að nýju og taka upp útflutning á landbúnaðarvörum í vaxandi mæli? Það er stefna út af fyrir sig og Alþb. verður að svara fyrir það síðar í vetur.

Ég vek svo athygli á því, herra forseti, nú í lokin hversu allt öðruvísi umræðan um landbúnað og landbúnaðarmál er orðin í þjóðfélaginu. Það er einn mikilvægasti árangur sem orðið hefur af þeirri stefnu, sem hefur verið upp tekin í landbúnaðarmálum, að þjóðin vill standa að því að greiða úr þeim vanda sem landbúnaðurinn er kominn í alveg gagnstætt því sem áður var þar sem hver höndin var uppi á móti annarri. Þetta tel ég mikilvægt og ég er sannfærður um að það finnast leiðir, þegar menn skilja og skynja að það er verið að starfa af ábyrgð og festu í þessum málum, sem eru samrýmanlegar því að halda uppi byggð í sveitum landsins